07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 445 í B-deild Alþingistíðinda. (1133)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Út af því, sem hv. síðasti ræðumaður sagði um möguleika til lántöku, þar sem hann undraðist, að ég skyldi ekki að undanförnu hafa beitt mér fyrir slíkum lántökum, vil ég taka það fram, að fyrstu árin hafði sjóðurinn nægilegt fé undir höndum. Búnaðarbankinn var fram undir síðustu ár svo vel stæður, að hann gat lánað sjóðnum frá sjálfum sér. En síðan hefir verið álitið rétt að auka ekki lánveitingarnar, fyrr en kreppuráðstöfunum handa bændum væri lokið. Þótt skuldir bændanna hafi lækkað með kreppulánasjóðsuppgerðinni, þá verða þeir að biðja um lán á ný, og kreppulánasjóður er verr stæður en svo, að hann geti hjálpað bændum um fé til endurbygginga. Það er ljóst, að það þarf að losa það fé, sem Búnaðarbankinn hefir bundið í kreppulánasjóði, svo hann geti lánað það fé byggingar- og landnámssjóði. Og þá tel ég byggingar- og landnámssjóð það vel stæðan, með þeim styrk, sem hann fær frá ríkinu, að hann geti rækt þá starfsemi, sem honum er ætlað. A. m. k. má ætla, að hann eigi hægara með það heldur en ríkissjóður, sem alls ekki er fær um það með þeim ástæðum, sem hann á við að búa.