07.04.1937
Neðri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (1135)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Frsm. meiri hl. (Bjarni Ásgeirsson):

Það er rétt, sem síðasti ræðumaður tók fram, að það er allt of lítið það fé, sem byggingar- og landnámssjóður hefir haft undir höndum, og það er mikil þörf á því að afhenda honum meira fé til sinnar starfsemi. Sérstaklega hefir borið á því, að sjóðurinn hafði ekki nægilegt fé síðan sumarið 1935. Byggingar eru alltaf að aukast, og eftirspurnin vex ár frá ári, og það er nauðsynlegt að auka fjármagn sjóðsins, til þess að hægt sé að koma byggingarmálunum á viðunandi stig. Þessar 200 þús. kr. hafa verið ætlaðar í greiðslu á vaxtamismun. Okkur var heimilað að gefa út skattfrjáls vaxtabréf, og það var tekið rækilega til íhugunar, þegar átti að fara að lána fé út til bygginga. Við rákum okkur fljótlega á það, að ýmsir annmarkar voru á þessu, og þess vegna féll nefndin frá því. Það byggist á því, að það verði ótal fleiri stofnanir, sem þurfa fjár með, t. d. iðnlánasjóður og fiskveiðasjóður, og fleiri hliðstæðar stofnanir, fari fram á það sama, því þær vildu líka gefa út hin skattfrjálsu vaxtabréf. En það er alls ekki hægt að neita hliðstæðum stofnunum um slík bréf með neinum rökum. Þá er það líka athugavert í því sambandi, að þetta er alveg gagnslaust hvað snertir tekju- og eignarskatt.

Að lokum vildi ég mega vona það, að hægt væri að ganga frá þessu frv. á þeim fáu dögum, sem eftir eru af þinginu.