17.04.1937
Efri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (1146)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Jón Baldvinsson:

Ég vildi aðeins benda á það, að það er farið inn á nýja stefnu í þessu frv., sem ekki hefir gætt áður í löggjöf, þar sem höfuðáherzlan hefir verið lögð á, að því er snertir byggingamál sveitanna, að leggja fé til nýbygginga, bæði með því að koma upp lánsstofnun og eins með því að veita ódýr lán með framlagi ríkissjóðs til þess að reisa nýbýli í sveitum. Hér er farið inn á þá braut að taka af því framlagi, sem lagt er til byggingar nýbýla, og veita mönnum óafturkræft framlag til endurbyggingar á sveitabýlum, þ. e. að leggja fé til viðhalds býlum í sveitum, áður en búið er að koma upp nægilegum býlum á ræktanlegum svæðum, þar sem eðlilegt er, að fólkið flytjist á. Mér finnst þessi stefna varhugaverð meðan fjárframlög til þess að reisa nýbýli eru ekki meiri og ekki er lengra komið í því að taka hin stærri ræktanlegu svæði hér á landi og byggja upp. Á það þarf að leggja meiri áherzlu.