17.04.1937
Efri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 448 í B-deild Alþingistíðinda. (1147)

61. mál, endurbyggingar á sveitabýlum

*Þorsteinn Briem:

Það er rétt hjá hv. 4. landsk., að hér er nokkuð gengið inn á nýja stefnu, þar sem það hefir ekki verið áður í lögum, að neitt framlag væri lagt til byggingar á jörðum, öðrum en nýbýlum. Hann orðaði það svo, að þetta væri aðeins til viðhalds. En á það verður að líta, að fjöldi jarða er ennþá í því ásigkomulagi bæði að húsum og öðru, að það er ekki næsta mikill munur á þeim og ónumdu landi. Þess vegna verð ég að telja, að sú stefna, sem hér er gengið inn á, sé fullkomlega réttmæt. Það mun líka hafa komið í ljós við framkvæmd nýbýlalaganna, að ýmsir hafi jafnvel freistazt til þess að fara í kringum upphaflegan tilgang nýbýlalöggjafarinnar, með því að byggja að vísu nýjan bæ undir nýbýlanafni, en þó þannig, að grunur leikur á, að svo fari, hvort sem svo er til ætlazt í upphafi, að gamli bærinn verði yfirgefinn og leggist í eyði, en á jörðinni verði aðeins búið frá nýbýlinu. Það er öllum ljóst, að þá er ekki tilganginum náð með nýbýlalöggjöfinni, ef nýbýli eru ekki stofnuð nema að nafninu. Einmitt af þessum ástæðum er það knýjandi nauðsyn, að þessi hugmynd um framlag til bygginga á sveitabæjum nái fram að ganga. Ég verð því að vera þeirri hugmynd, sem á bak við þetta frv. liggur, fyllilega meðmæltur og tel, að hún hafi við gild rök að styðjast. En hitt er annað mál, að það má segja, að eins og frv. er úr garði gert, þá sé næsta lítil stoð í því, þó að ég efist ekki um, að það sé vel meint.

Eins og öllum er kunnugt, hefir það verið helzta úrræðið fyrir þá, sem þurfa að byggja upp á jörðum sínum, að fá til þess lán úr byggingar- og landnámssjóði. Um annað hefir vart verið að ræða, því að þótt menn hafi stundum freistazt til þess að leita fyrir sér um önnur lán, svo sem í ræktunarsjóði, þá hafa jafnvel þau lán verið of dýr til þess að hægt væri fyrir fátæka bændur með góðu móti að standa undir þeim.

Umsóknir um lán úr byggingar- og landnámssjóði hafa þess vegna orðið miklu meiri heldur en sjóðurinn hefir getað fullnægt, svo að jafnvel svo árum skipti hafa bændur orðið að vera á biðlista. Það hefði því verið nauðsynlegra, ef fjárhagur ríkisins leyfði það, að auka framlag til byggingar- og landnámssjóðs heldur en að takmarka það. En frv. þetta, sem hér liggur fyrir, gerir einmitt ráð fyrir því, að fé það, sem ríkið leggur árlega til byggingar- og landnámssjóðs, sé takmarkað að 1/5 hluta. Er þá ljóst, að aðstaða þeirra bænda, er þurfa nauðsynlega á lántöku úr byggingar- og landnámssjóði að halda, versnar og torveldast í sama hlutfalli. Ég fyrir mitt leyti hefði því talið, að það væri nauðsyn á því að ganga svo frá löggjöf um þetta efni, að framlag til byggingar- og landnámssjóðs væri ekkert skert, þó að lagður væri fram styrkur og óafturkræft framlag til endurbyggingar á íbúðarhúsum á sveitabýlum.

Þetta mál var tekið til rækilegrar athugunar á síðasta búnaðarþingi, og samþ. búnaðarþingið till. þessa efnis, sem ég tel, að stefni miklu nær takmarkinu heldur en þetta frv., og hefði ég því, ef ekki væri í vændum þingrof, gert tilraun til þess með brtt. að fá þessu frv. breytt eitthvað í líkt horf. En nú mun þess ekki kostur, og þó að ég telji, að þetta frv. eins og það er bæti að mjög óverulegu leyti úr þeirri þörf, sem það á að bæta úr, þá verð ég þrátt fyrir það að virða viljann fyrir verkið og vera frv. fylgjandi. En ég vildi með tilliti til þess, sem ég nú sagði, sérstaklega skora á landbn. að athuga, að svo miklu leyti sem unnt er héðan af, hvort henni þætti ekki fært að leggja til, að frv. yrði breytt, þó ekki væri að öðru leyti en því, að þetta framlag til endurbygginga og endurbóta á íbúðarhúsum á jörðum verði lagt fram sem sjálfstætt framlag úr ríkissjóði, en ekki tekið af því fé, sem árlega er lagt til byggingar- og landnámssjóðs.