20.04.1937
Efri deild: 50. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 452 í B-deild Alþingistíðinda. (1168)

118. mál, virkjun Laxár í Suður-Þingeyjarsýslu

*Jónas Jónsson:

Ég ætla að segja nokkur orð um þetta frv., sem ég vil beina til stjórnar þeirrar, sem nú situr, eða til þeirrar, sem á eftir að koma. Ég geri það vegna míns kjördæmis. Það er enginn vafi á því, að Akureyri og Eyjafjörður eru mjög heppin með að geta notað sér þá aðstöðu, sem er við Laxá. Það mun vera bezta aðstaða á landinu næst Soginu. Þessi framkvæmd hefir mikið að segja fyrir Þingeyjarsýslurnar, að vísu ekki svo mjög í bili, því kostnaður við rafleiðslur virðist lítt viðráðanlegur þar, sem um dreifð sveitabýli er að ræða. En bæði er þess að gæta, að úr þessu getur rætzt með tímanum, og svo þess, að rafstöð þessari verður svo heppilega í sveit komið í miðjum Þingeyjarsýslum, að leiða má rafmagn um allar sýslurnar, og til Húsavíkur er fremur skammt. Það hefir ýtt undir bæjarstjórn og rafmagnsnefnd á Akureyri að reyna að fá þetta frv. samþ. nú, að þar með er skapaður grundvöllur undir samstarf milli Akureyrarbæjar, Eyjafjarðar- og Þingeyjarsýslu, því allur Eyjafjörður mun koma inn í þetta, þegar rafleiðslur eru ekki orðnar eins dýrar og þær nú eru. Það er mikið unnið fyrir Akureyri, ef heppilegur grundvöllur finnst fyrir samstarf við Þingeyjarsýslu, og þess vegna væri æskilegt, að frv. næði fram að ganga, því treysta má því, að rafvirkjunarmálið sjálft verði leyst mjög fljótt fyrir Akureyri, og að meira eða minna leyti fyrir bæði Þingeyjarsýslu og Eyjafjörð.