16.04.1937
Neðri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 453 í B-deild Alþingistíðinda. (1175)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti! Þetta er eitt af þeim stærstu málum, sem fyrir þessu þingi liggja, og um leið hið vandamesta. Það er stórmál af því, að það verður ekki leyst nema með stóru fjárframlagi frá hinu opinbera, og öll sveitarfélög landsins eiga framtíð sína mikið undir því, hvernig það verður leyst. Þessi veiki gerði fyrst vart við sig í Deildartungu í Borgarfirði veturinn 1934–35. Menn héldu almennt, að hér væri um lungnabólgutilfelli að ræða. Sýnishorn voru tekin og send rannsóknarstofu háskólans, sem taldi þetta lungnabólgu. Próf. Níels Dungal, sem 1929 fann lungnabólgugerilinn og útbjó bóluefni til að bólusetja féð með, sendi bóluefni, og féð var margbólusett. En eins og menn vita, kom það ekki að neinu haldi, og vorið 1935 drapst margt fé, þegar fór að hitna í veðri. Haustið 1935 fannst margt fé dautt á fjalli, og þá fyrst fór mönnum að finnast þetta alvarlegt mál, er menn sáu féð falla fyrir veikinni um hásumarið. Ég snéri mér því til forsrh., og hann fékk 2 menn, þá Júl. Sigurjónsson og Guðmund Gíslason, sem unnu við rannsóknarstofu háskólans, til að fara upp að Deildartungu, sunnudaginn milli rétta, og síðar fór Níels Dungal sjálfur. Og þeir komust að þeirri niðurstöðu, að hér væri um ormaveiki að ræða. Ormaveikin er um land allt, og því var ekkert aðhafzt til að hefta útbreiðslu veikinnar, og engum bar sérstaklega skylda til að gera neinar ráðstafanir í þessu efni.

Sumarið eftir drapst fé líka, og veikin fór að breiðast út um Borgarfjörð og Húnavatnssýslu. En haustið 1936 er veikin komin meira eða minna um 6 sýslur. Þá voru gerðar ýmsar ráðstafanir og fé veitt til að komast að einhverri niðurstöðu um þessa veiki.

Menn geta gert sér í hugarlund, hversu þessi veiki er hættuleg. T. d. í Deildartungu var fjárstofninn 750 fjár, en nú eru aðeins eftir 90 kindur. Á Kletti voru 210 kindur haustið 1934, en nú 26. Þetta fé drapst auðvitað ekki allt, en það var mikið skorið niður, af því fyrirsjáanlegt var, að því varð ekki bjargað. Menn ættu því ekki að undrast yfir því, þó bændur óski eftir einhverjum aðgerðum, sem gætu orðið til þess að hefta þessa hættulegu veiki. Forsrh. skipaði svo nefnd, sem ég átti sæti í, til að gera till. um varnir gegn útbreiðslu veikinnar. Nefndinni bárust fjöldamargar áskoranir frá öllum sýslum landsins, allt frá Eyjafirði, vestur um og austur að V.-Skaftafellssýslu. Einnig fékk n. áskoranir frá öllum búnaðarsamböndum og búnaðarfélögum, og jafnvel frá sveitafundum og einstaklingum á þessu sama svæði. Allar þessar áskoranir gengu í sömu átt, að hafizt yrði handa til að hefta veikina. N. lagði til, að það yrðu sendir menn til Rvíkur til að kynna sér einkenni veikinnar, og dýralæknar væru látnir koma saman til að ræða um þetta. Þá lagði n. til, að gerðar yrðu girðingar og hafizt yrði handa um að ná í girðingarefni sem fyrst. Og það hefir nú fengizt á síðustu stundu.

Það var gert ráð fyrir, að skoðun yrði lokið í apríl, en það varð þó ekki, en þó varð n. að ganga frá þessum till., sem eru grundvöllurinn undir það frv., sem hér liggur fyrir.

Ég skal reyna að fara svo rækilega út í hinar ýmsu greinar frv., að þm. verði þær ljósar, þar sem frv. er nýframkomið, og menn hafa því ekki kynnt sér það.

1. gr. gerir ráð fyrir, að einn maður hafi yfirstjórn á þessu, og hafi hann einn varamann. Þá á að tilnefna einn mann úr hverri sýslu, sem hafi yfirumsjón í sínu umdæmi. — Í 2.–3. gr. og enda 15.–16. líka ræðir um, hvernig þessir menn geti vitað um, hvort veikt fé sé á einhverjum stað, og ber öllum skylda til að láta skoða féð, hver hjá sér.

Í 4.–5. og 6. gr. ræðir um, hvernig vörzlu verður bezt komið í framkvæmd. Vil ég þá fyrst benda á það, að austurhelmingur landsins, frá Þjórsá að Héraðsvötnum, er ennþá ósýktur. Ýmsir halda, að hér sé ekki um nema eina veiki að ræða, er sé um allt land; þess vegna vildi ég geta þess, að lungu hafa verið rannsökuð víðsvegar af þessu svæði, þar sem lungnaveiki er í fé, en það hefir sýnt sig, að hér er alls ekki um sömu veiki að ræða og borgfirzku fjárveikina. Á þessu svæði eru 310000 fjár, og frv. gerir ráð fyrir, að reynt verði að verja þetta fé, með því að vörður verði settur um Þjórsá og Héraðsvötn. Við Héraðsvötn verður líka að setja girðingu á parti, sem kemur til að kosta 7000 kr. Verðir mundu kosta um 10000 kr. við hverja á um sig. — Næsta svæði er milli Blöndu og Héraðsvatna. Á því svæði eru um 41000 fjár, og er það fé heilbrigt, nema á fjórum bæjum, sem veikin hefir gert vart við sig á, en þeir bæir eru í nyrztu hreppum Húnavatnssýslu, austan Blöndu. Skoðun er þó ekki lokið í tveim nyrztu hreppunum, og má því vera, að veikin sé komin víðar.

Frv. gerir ráð fyrir, að ríkið styrki girðingar um 40 aura á metra, til að geyma hið sjúka fé í, og að vörður verði settur við Blöndu, til að varna því, að fé fari yfir ána. Áætlaður kostnaður við verði er um 10 þús. kr.

Næsta svæði er Húnavatnssýsla. Þar liggja afréttirnar saman við afrétti Sunnlendinga, Dalamanna og Strandamanna. Veikin er mjög misútbreidd í Húnavatnssýslum. Í austursýslunni eru sýktir 8 bæir, en í vestursýslunni er hún mjög útbreidd, nema í hreppunum tveim, er liggja á Vatnsnesinu. Það hefir verið horfið að því að skylda alla hreppa í Húnavatnssýslum til að einangra það fé, sem sýkt er, með því að girða fyrir það; en það er ekki víst, að það verði mögulegt. Þær girðingar yrðu einnig styrktar af hálfu hins opinbera með 40 aur. á metra. Samhliða því yrðu settar girðingar milli afrétta Norðlendinga og Sunnlendinga, svo fjársamgöngur milli sunnanmannafjár verði engar. Sú girðing verður um 60 km. minnst og 80 mest, en hinsvegar er hægt að girða svo, að hún verði ekki nema 50 km., með því að taka sneið af afrétti Borgarfjarðar. Það er því löng og dýr girðing, og tvísýni á, hvort hún er réttmæt, en það byggist á því, hvort mögulegt reynist að einangra sjúka féð.

Næsta girðing er milli Gilsfjarðar og Bitrufjarðar. Vestan þeirrar girðingar, á Vestfjörðum, er féð heilbrigt, og eru þar 64000 fjár. Girðingin er stutt, 12 km., og kostar ca. 11000 kr., og verðir með henni væntanlega um 2000 kr. Þá er næsta girðing milli Hvammsfjarðar og Hrútafjarðar. Hún er yfir 40 km. á lengd. Milli hennar og Gilsfjarðar–Bitrugirðingar er heilbrigt fé um 22000 alls, og má vænta, að girðingin kosti um 40000 krónur.

Það er lagt til í 4. gr., að settar verði girðingar á mörkum milli Mýra- og Dalasýslu annarsvegar og Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu hinsvegar, þó þannig, að Hörðudalur verði, eftir því sem við verður komið, Snæfellsnessýslumegin við girðinguna. Utan girðingarinnar eru 30000 fjár. Girðingin er 41 km. að lengd og kostar um 40000 kr. Milli þessarar girðingar að Norðurár-, svo Hvammsfjarðar–Hrútafjarðargirðingar, myndast hólf, sem í eru 23 þús. fjár. Á þessu svæði er skoðun ekki lokið, og líklegt, að veikin komi þar upp á mörgum bæjum enn. Því er óvíst, hvort hægt verður að skilja sjúkt og grunað fé frá, en verði það hægt, þá þarf girðingu úr Norðurárdal í Hrútafjörð, til að fyrirbyggja fjársamgang af aðal sýkta svæðinu. Sú girðing er löng og dýr, og því tel ég óvíst, hvort rétt er eins og nú er gert að skylda hreppana til að koma upp sjúkragirðingum, og ríkissjóð að girða hina.

Milli Norðurár og Andakílsár er aðal sýkta svæðið, og þar er ekki sjáanlegt, að hægt sé að gera neitt verulegt. Þá er lagt til, að girt verði úr Andakílsárósum um Skorradalsvatn og Reyðarvatn í Geitlandsjökul. Með því lokast sýkta féð frá samgöngum fjár úr suðurhluta Borgarfjarðar og þar fyrir sunnan. Álma úr þeirri girðingu er ráðgerð í Þingvallagirðingu, og hólfast þá Gullbringu- og Kjósarsýslufé við fé úr sveitum Árnessýslu vestan Sogs og Ölfusár frá hinu. Með vörðum við Sog, Hvítá, Brúará og Ölfusá er svo ætlunin að hólfa svæðið sundur, til frekara öryggis.

Í 6. gr. eru nokkrar aðrar sýslur, þar sem veikinnar hefir að litlu eða engu leyti orðið vart enn sem komið er, skyldaðar til að koma upp a. m. k. einni eða fleiri girðingum fyrir hverja sýslu, til að geyma sjúkt eða grunað fé í. Er sýslunefndum og bæjarstjórnum ætlað, í samráði við framkvæmdarstjóra, að velja land undir girðingarnar. Einnig þessar girðingar er gert ráð fyrir í frv., að ríkið styrki, eftir þeim ákvæðum, sem eru í 5. gr.

Ég tel ekki nauðsyn að fara að öðru leyti út í einstakar greinar frv., enda á það ekki við við þessa umr. málsins. En ég skal taka það fram, að það getur náttúrlega víða verið svo ástatt, að hagkvæmara þyki að hafa girðingarnar á öðrum stað heldur en hér er lagt til, og þess vegna höfum við sett ákvæði í 7. gr. um það, að framkvæmdarstjóra sé heimilt að breyta til um legu girðinganna. Ennfremur er gert ráð fyrir í þessu frv., að heimilt sé að taka land eignarnámi undir girðingar, ef þurfa þykir.

Það er full nauðsyn á, að þetta mál verði tekið föstum tökum, til þess að fyrirbyggja það, að önnur héruð fari eins illa út úr því eins og Borgarfjarðarhérað, þar sem svo er komið, að bændur hafa misst nær allan sinn fjárstofn og sjá sjálfir ekki fram á, af hverju þeir eiga að hafa sitt lífsviðurværi á næstunni. Menn verða bara að skilja það, að það er nauðsyn að taka málið föstum tökum, og menn mega ekki horfa í það, þó að menn verði að gera eitthvað annað við fé sitt heldur en þeir hefðu kosið. Það er skilningur á þessu máli, sem verður að koma inn hjá mönnum, en það verður vitanlega ekki gert með lagafyrirmælum. En á þennan skilning hefir því miður hingað til talsvert skort. Eins og ég áðan tók fram, þá er þetta mál undirbúið fyrst af landsnefnd, sem ég minntist á, og svo af landbn. síðan hún fékk málið til meðferðar. Ég held, að mér sé óhætt að segja, að málið sé nú orðið nokkurnveginn ágreiningslaust, og ætti það því að geta fengið tiltölulega fljóta afgreiðslu á Alþingi. En það þarf líka að vera, þar sem ýmsar af þeim aðgerðum, sem gert er ráð fyrir í frv., eru orðnar mjög aðkallandi og áríðandi, að á þeim sé byrjað sem allra fyrst. Ég vil þess vegna vænta þess, að hæstv. forseti stuðli að því, að málið verði afgr. sem allra fyrst út úr þessari hv. deild.