17.04.1937
Neðri deild: 41. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (1181)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Ég get verið þakklátur fyrir þær umr., sem orðið hafa um frv. Ég vil fyrst benda hv. 1. þm. Árn. á það, að það er beinlínis gert ráð fyrir því í 4. gr., að þar sem álitið er af framkvæmdarstjóra, að verðir dugi ekki á hinum ákveðnu stöðum, þá skuli þar setja upp girðingar til varnar, hvort sem er milli Hofsjökuls og Langjökuls eða meðfram ánum Eystri-Héraðsvötnum, Jökulsá eystri, Blöndu, Þjórsá, Brúará, Hvítá og Sogi.

Viðvíkjandi aths. þeirra hv. þm. V.-Sk. og hv. 1. þm. Árn. skal ég ekki endurtaka, en aðeins vísa til þess, er ég sagði í fyrstu ræðu minni, að ég tel það mjög athugavert, ef ekki er gefin heimild fyrir fleiri framkvæmdum en taldar eru í 4. gr. frv., og í sambandi við kvaðir þær á hreppsfélögin, sem gert er ráð fyrir í 5. gr., vil ég geta þess, að landbn. mælist mjög eindregið til þess, að hv. þm. þeirra kjördæma, sem þessi ákvæði ná til, sem eru Húnavatnssýslur og svo Mýrasýsla, komi til viðtals við n. sérstaklega um þessi atriði.

Austur-Húnavatnssýslu má skipta í tvennt um Blöndu með tilliti til veikinnar. Austan Blöndu eru 5 bæir með sýkt fé, svo vitað sé. Var ætlunin að gera þar í sýslunni afgirt svæði fyrir sýkt og grunað fé, og mun sú ráðstöfun vera samþ. af öllum hlutaðeigendum. En AusturHúnavatnssýsla vestan Blöndu er áföst við aðal-sýkingarsvæðið, og horfir þar allt öðruvísi við um varnirnar. Landbn. er ljóst, að þar er um margar leiðir að ræða, sem mér finnst, að við hér á Alþingi getum ekki fyllilega valið á milli, og þess vegna verði að vera í l. heimild til að breyta þeim ráðstöfunum, sem gert er ráð fyrir að gerðar verði á öllu hinu sýkta svæði.

Í Austur-Húnavatnssýslu er um 22 þús. fjár lítið sýkt og lítið grunað. Er sýkt fé á 6 til 7 bæjum vestan Blöndu, en menn á þessum bæjum hafa hagað sér allt öðruvísi en annarsstaðar gagnvart veikinni. Hver kind, sem veikzt hefir, hefir verið drepin eða einangruð og sömuleiðis þær kindur, sem komið hafa saman við grunað fé; þær hafa verið einangraðar. Til dæmis get ég nefnt það, að ein kind á einum bæ hefir þannig verið einangruð síðan í haust og þangað til nú fyrir skömmu, að hún var drepin vegna þess hún reyndist sjúk. Þetta gerir það að verkum, að í Austur-Húnavatnssýslu er fátt fé grunað. Þar er um 21 þús. fjár ósýkt í sýslunni og lítið grunað, sem vitanlega verður að gera öflugar ráðstafanir til varnar.

Í Vestur-Húnavatnssýslu eru um 29 þús. fjár. Þar eru tveir hreppar á Vatnsnesinu, sem hægt er að girða af með litlum kostnaði, með því að notast má við girðingu, sem þar er, en í þessum hreppum er veikin lítið útbreidd.

Í hinum hreppum sýslunnar eru 18 til 19 þús. fjár svo sýkt, að talið er, að veikin sé meir en á öðrumhverjum bæ, sumstaðar miklu meira: í einum hreppi er talið, að veikin sé ekki á 5 bæjum, en þeir liggja inni á meðal hinna bæjanna, og í öðrum hreppi er talið, að veikin sé á hverjum bæ. Að fara að leggja á þessa menn varnarskyldu er mjög tvísýnt, en það er mjög skiljanlegt, að Austur-Húnvetningar vilji ekki vera með Vestur-Húnvetningum, og það gerir málið erfitt til úrlausnar.

Í frv. er gert ráð fyrir, að girt verði milli Húnavatnssýslu og Borgarfjarðarsýslu afrétta, en í stað þess gæti komið til mála að girða á takmörkum Austur- og Vestur-Húnavatnssýslu, þannig að Austur-Húnavatnssýsla gati orðið fráskilin sem ósýkt hérað með sérstökum girðingum fyrir sýkt fé, en Vestur-Húnavatnssýsla yrði þá látin vera með Borgarfjarðarhéraði. Þannig þyrftu lögin að vera rúm, að framkvæmdastjórinn gæti breytt vörnunum í samráði við fulltrúa héraðanna. Þess vegna er ég sammála hv. þm. V.-Sk. um það, að binda ekki um of við vissa staði þau takmörk, hvar varnirnar verða settar.

Í sambandi við þetta skal ég geta þess, að dýralæknir, sem er að byrja að skoða fé í Mýrasýslu, hefir þegar fundið sjúkt fé á tveimur bæjum í Borgarhreppi. Hve útbreidd veikin er þarna fyrir vestan, er ekki hægt að segja um eins og stendur, en rannsókn gæti leitt það í ljós, að setja verði meira eða minna af sýslunni inn í hið sýkta svæði, og hefir það vitanlega áhrif á legu girðinganna þar í sýslunni. Af þessum ástæðum mundi vera réttara að fastbinda ekki þessar girðingar við vissa staði.

Um a-, b- og c-liðina í 4. gr. held ég, að ekki verði deilt. Þær girðingar verður að leggja, þó sjálfsagt sé að ákveða ekki nákvæmlega, hvar girðingarnar eigi að leggja. Það eru útvarnargirðingar, sem eiga að aðskilja sýkt og ósýkt svæði.

Ég ætla svo ekki að segja meira um þetta að sinni, en ég vil mjög eindregið óska þess, að hv. þm. Húnv. athugi með landbn., hvernig þessu verði best fyrir komið, en það er mín skoðun, að ekki sé rétt að fastbinda þetta, svo framkvæmdarstjóri geti hagað framkvæmdunum eftir því, sem aðstaðan kann að breytast. Ég er meira að segja hræddur um, að svo geti farið, að telja verði sýkt svæði alla leið norður að Vatnsfjalli.

Ég skal ekki um það segja, hvort réttara er, lögfræðilega séð, að fela hreppstjórum eða sýslumönnum eftirlitið. Mér finnst, ef ég væri framkvæmdarstjóri, að ég kysi frekar að snúa mér til hreppstjóranna en sýslumannanna, því þeir standa verr að vígi og yrðu eftir sem áður að fela hreppstjórunum eftirlitið, og yrði það fyrirkomulag fljótvirkara, sem frv. gerir ráð fyrir, en það getur oft haft mjög mikla þýðingu, að eftirlitið sé framkvæmt fljótt og ákveðið.