20.04.1937
Efri deild: 50. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (1196)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

*Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætla ekki að lengja þingfundi nú frekar venju með langri ræðu, ekki sízt þar sem ég heyri, að komið sé að þinglokum, en því verður að taka eins og það kemur fyrir.

Hér liggur fyrir mál, sem hefði þurft að athuga rækilega og ekki hefði átt að fara með svo miklum hraða gegnum þingd. En gera má ráð fyrir, að ef d. ekki samþ. frv. eins og það liggur fyrir, þá verði það ekki að lögum. Þar sem svo virðist, sem frv. muni verða að lögum, vil ég geta þess, að ég er ekki að öllu leyti ánægður með þetta frv., en það þýðir ekki að taka fram sérstök atriði; þeim verður ekki breytt. Af því að breytingum verður ekki við komið, ætla ég ekki að ræða mikið um það, en ég vil geta þess, að mér þótti gott að heyra hjá hv. 2. þm. Rang., að hann vildi láta athuga, að þessi pest yrði okkur ekki til trafala á erlendum markaði, en ég hefi heyrt, að lög séu fyrir hendi, sem heimila, að reistar séu skorður við því, að nokkur hætta fylgi þessu fyrir okkur á erlendum markaði. Treysti ég því, að hæstv. ríkisstj. geri það, sem þarf, og að framkvæmdarstjóri þessara mála í samráði við hæstv. búnaðarmálaráðh. geri það, sem hægt er, til að hindra, að veikin breiðist út. Þar sem ekki er hægt að setja mjög ákveðin lög um þetta, er því að treysta, að þau verði framkvæmd með samvizkusemi svo sem bezt þykir fara.

Mun ég greiða frv. atkv., þótt mér þyki leitt, að það þarf að fara í gegnum hv. d. með svo miklum flýti.