20.04.1937
Efri deild: 50. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 470 í B-deild Alþingistíðinda. (1197)

159. mál, borgfirzka sauðfjárveikin

*Pétur Magnússon:

Ég vakti máls á því við 1. umr., hvort ekki mundi vera ástæða til að setja ákvæði um bann á útflutningi á kjöti af fé á sýktu svæðunum, til þess að koma í veg fyrir, að ótti skapaðist í markaðslöndunum um, að sýkt eða skemmt kjöt yrði flutt á markaðinn. Þessi málaleitun mín fékk góðar undirtektir, bæði hjá hæstv. stj. og þeim hv. þm., sem til sín létu heyra við umr. Við nánari athugun hefir komið í ljós, að óþarft er að setja ný lagaákvæði um þetta, því í gildandi lögum eru ákvæði, sem gera það fært að hindra slíkan útflutning með því að setja reglugerð. Þessi ákvæði eru í l. frá 1933 um útflutning á kjöti, og gilda þau lög enn, þar sem þau voru framlengd til ársins 1938 með lögum frá þessu þingi. Í 1. gr. þessara laga er mælt svo fyrir, að ekkert kjöt megi flytja til Noregs og Englands nema með leyfi ríkisstj. Þessi heimild nær að vísu ekki nema til þessara tveggja landa, en þar sem þau kaupa mikið af kjöti okkar, virðist ekki miklu skipta, þótt þessi heimild sé bundin við þau. — Í 7. gr. sömu laga mælir svo fyrir, að nánari fyrirmæli um útflutning á kjöti geti atvmrh. sett með reglugerð. Þetta virðist vera nægileg heimild fyrir ríkisstj. til þess að setja þá reglugerð um, að kjöt af fé á sýktu svæðunum megi ekki flytja úr landi.

Ég vildi spyrjast fyrir um það hjá hæstv. ríkisstj., hvort hún mundi ekki treysta sér til að setja slíka reglugerð sem fyrst. Ég álít skynsamlegra, að við verðum á undan viðskiptavinum okkar með það, og það mun styrkja aðstöðu okkar, ef við tökum þetta upp hjá sjálfum okkur, að setja í lög okkar ákvæði, sem komi í veg fyrir, að kaupendurnir eigi nokkuð á hættu, ef það skyldi koma í ljós, að þeir vildu tryggja sig gegn slíku á einhvern hátt, og sú spá mín mun rætast, að við styrkjum bezt okkar aðstöðu með því að byrja á þessu nú þegar.

Ef ég fæ yfirlýsingu um það frá hæstv. stj., að hún muni setja slíka reglugerð nú þegar, mun ég láta mér það nægja, og sé þá ekki ástæðu til að koma fram með breyt. við frv.