19.04.1937
Efri deild: 47. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 474 í B-deild Alþingistíðinda. (1218)

163. mál, kosningar til Alþingis

*Pétur Magnússon:

Ég verð að játa, að ég hefi ekki haft nógan tíma til þess að rannsaka, hvort þetta rekist á önnur ákvæði laganna, en ég hefi talað við hæstv. fjmrh. um þetta, sem er allra manna kunnugastur kosningalögunum, og fullyrðir hann, að svo muni ekki vera. En hv. 1. þm. Skagf. var að benda mér á það núna, hvort þetta gæti ekki haft þau áhrif, að það þyrfti alltaf að stytta frestina, eins og heimilað er í 2. gr. frv. Ég verð að játa, að í fljótu bragði get ég ekki séð það, en vel má vera, að hér komi fram einhverjir ágallar. Það er vitanlega dálítið erfitt að átta sig á þessu á svipstundu, því að hér er um stóran lagabálk að ræða.