16.03.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 477 í B-deild Alþingistíðinda. (1235)

Sætaskipun í sameinuðu þingi

*Forseti (JBald):

Það, sem hv. 2. þm. Eyf. fer fram á, er það, að Ed.-menn geti haft viss sæti í þingsalnum, þegar fundir eru haldnir í Sþ. Nú mun það hafa verið svo, að á fundum Nd. hafi verið úthlutað sætum eins og gert er ráð fyrir í þingsköpum. Ætla ég, að flestir, ef ekki allir Nd.-menn hafi hlotið tölusett sæti. Ég sé það í gerðabók Nd., að á fyrsta fundi d. í vetur, hinn 15. febr. síðastl., hefir verið hlutað um sæti.

Nú er svo í þingsköpum ákveðið og vitanlega til þess ætlazt, að þm. hafi þau sæti, sem þeir hljóta við drátt á sætum, en líka getur verið, að þeir geti komið sér saman um að sitja öðruvísi, ef þingflokkarnir koma sér saman um það að skipa sér í sæti eftir flokkum.

Ég vildi því beina þeirri fyrirspurn til hv. 1. þm. Árn., forseta Nd., hvort honum sé kunnugt um það, hvort nokkur önnur skipun hafi verið gerð á sætum en fundargerð Nd. frá 15. febr. síðastl. skýrir frá, því að heimilt er samkv. 7. gr. þingskapa, að þingflokkar skipi sér í sæti eftir flokkum.