16.03.1937
Sameinað þing: 7. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (1240)

Sætaskipun í sameinuðu þingi

*Héðinn Valdimarsson:

Út af því, sem hv. 2. þm. Eyf. sagði um sætaskipun hér í þinginu, vil ég geta þess, sem ég veit, að öllum hv. þm. er kunnugt, að á haustþinginu 1934, hygg ég að það hafi verið, sátum við 5 þm. í innri skeifunni hinumegin án þess að nokkrum hafi dottið í hug að amast við því. Það er fyrst nú, þegar hv. þm. kemur til með að sitja við hliðina á okkur, að hann fer að amast við þessu. Það er því ný regla, en ekki gömul, sem hv. þm. talar um.

Ég vil benda á það, eins og hv. 1. landsk. hefir gert, að hv. Ed.-menn hafa ekki dregið sér nein sæti, og þó að hv. 2. þm. Eyf. vilji eigna sér þetta sæti, hvað mundi hann þá gera, ef einhver annar Ed.-maður vildi einmitt líka hafa það sæti, sem hann situr í? Ætli hann mundi ekki segja, að hann sæti kyrr?

Ég vil loks benda á, að það er allt að því helmingur þeirra þm., sem hafa dregið sér sæti, sem ekki sitja í þeim sætum, sem þeir hafa dregið, heldur hafa hér farið fram frjáls verzlunarviðskipti meðal þm. án þess að forseti hafi skipt sér af því. — Ég veit því ekki, hvers vegna hv. Ed.-menn ættu frekar að sitja í þessum sætum í innri skeifunni, þá sjaldan þeir koma hingað.