02.04.1937
Efri deild: 30. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 480 í B-deild Alþingistíðinda. (1245)

Afgreiðsla þingmála

forseti (Einar Árnason):

Ég vil vekja athygli á því, að það er oft hér á fundum ákaflega mikill umgangur og kliður. Ég skal þó taka fram, að hv. dm. eiga alls ekki meiri sök á þessu en utandeildarmenn. Þessi salur er þröngur og á honum eru 6 dyr, og það er oft á fundum, að verið er að ganga um allar dyrnar, og ýmsir ganga þannig um, að alltaf eru hurðaskellir, og það er beinlínis komið hingað til þess að hafa samtöl á milli manna, meðan verið er að halda ræður, og talsvert hefir verið um það, að óviðkomandi menn hafa verið látnir ganga hér í gegnum d. og inn í herbergi hér til hliðar. Ég vil óska, að þetta verði ekki gert á meðan á fundum stendur. Ég mun færa í tal við hæstv. forseta Nd., að hér verði framvegis meiri vinnufriður en hingað til hefir verið.

Ég vil ennfremur vekja athygli á því, að það hafa legið nokkur frv. fyrir n. þessarar d., sem hafa ekki komið frá þeim enn. Ég hefi hugsað mér að taka eitthvað af þessum frv. á dagskrá eftir næstu helgi. Ég skal nefna nokkur mál. Það er frv. um varnir gegn útbreiðslu sauðfjárveiki, frv. um mjólkurvinnslustöð, frv. um klaksjóð, frv. um húsmæðrafræðslu, frv. um sauðfjárbaðanir og frv. um ráðstafanir vegna búfjársjúkdóma. Ég vil vekja athygli hv. þdm. á því, að ég mun taka þessi mál á dagskrá í næstu viku.