13.04.1937
Neðri deild: 37. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 481 í B-deild Alþingistíðinda. (1249)

Afgreiðsla þingmála

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Mig langar til að spyrjast fyrir um nokkur mál. — 19. marz var hér í hv. d. vísað til fjhn. frv. til l. um fasteignamat. Ég hygg, að það sé frv., sem ekki þurfi í samninga um á milli neinna sérstakra flokka á Alþ. og sé því hægt að vinna að afgreiðslu þess án tafar. Þess vegna finnst mér tíminn, sem málið er búið að vera í n., orðinn nokkuð langur, og vildi ég mælast til þess, að hæstv. forseti stillti svo til, að málið kæmi hið allra fyrsta frá n. og til umr.

Þann 31. marz var vísað til sjútvn. — eftir að bæði ég sem form. iðnn. og hv. þm. Hafnf. sem ritari hennar höfðum gefið samþykki um það — frv. til l. um einkaleyfi til þess að kemba og spinna hamp hér á landi. Það var tekið fram bæði af hv. þm. Hafnf. og mér, að það samþykki væri gefið í fullu trausti þess, að n. svæfi ekki á málinu óhæfilega lengi. Nú er kominn 13. apríl, og enn er málið ekki komið frá n. Ef það er meiningin hjá hv. sjútvn. að halda málinu hjá sér, þá skora ég á hæstv. forseta að taka málið á dagskrá, hvort sem það kemur frá n. eða ekki.

2. apríl fór ennfremur til fjhn. lítið frv. um skipting fasteignaveðslána. Þetta frv., þó lítið sé, hefir ákaflega mikla þýðingu fyrir nokkra menn í þjóðfélaginu, sem eru að reisa sér nýbýli og komast í strand með að reisa þau, ef þetta frv. verður ekki samþ. Þeir þurfa að fá skipt hinum, en geta það ekki, nema þessi l. verði samþ. Mér finnst nú, með tilliti til þess, hvað þetta mál er einfalt og sjálfsagt, þá sé óhætt að fara að kalla eftir því frá n.

Ég vil skora á hæstv. forseta að ýta á eftir því, að nál. komi um þessi mál, og taka frv. um hampspunaeinkaleyfið á dagskrá, ef það kemur ekki í dag eða á morgun frá sjútvn.