02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 3 í C-deild Alþingistíðinda. (1266)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Sigurður Einarsson:

Ég ætlaði ekki að taka til máls um þetta, en það er af smátilefni hjá hv. síðasta ræðumanni, sem ég ætla að bæta hér nokkru við. Það er eins gott að gera það nú eins og að eyða tíma í það seinna. Því það, sem hér er fram borið, er að sumu leyti þess eðlis, að það gengur aftur.

Það, sem ég vildi sagt hafa, er í stuttu máli þetta, að undanfarin ár hafa hvað eftir annað verið gerðar tilraunir til þess að gera fréttastarfsemi útvarpsins tortryggilega, og nú að lokum, af því að Sigfús Sigurhjartarson, sem er alþýðuflokksmaður og stendur í nokkuð harðri baráttu við hv. þm. G.-K., er formaður útvarpsráðs, á fræðslustarfsemin einnig að vera að öllu eða einhverju leyti óhæf. Um fréttastarfsemina er nú það að segja, að það hefir ekki fengizt upplýst til hlítar, hvort þessum ásökunum um hlutdrægni sé beint til mín persónulega eða hinnar innlendu fréttastofu, sem einnig leggur til fréttaefnið. Þetta vildi ég, að kæmi skýrt fram. Til hinna erlendu frétta er skipað af efni frá Bretlandi, Danmörku, Oslo, Stokkhólmi, Rómaborg og París, og við erum í mjög verulegum atriðum bundnir við það, sem frá er skýrt daglega á þessum stöðum. Að þeir, sem lesa blöðin og hlusta á útvarpið, heyra ekki þessara staða getið daglega, kemur til af því, að það, sem samhljóða er í fréttunum, er látið falla burtu. Um það, hvaða hlutdrægni sé beitt í þessu efni, skal ég benda á eitt dæmi. Hér á dögunum var skýrt frá því í brezka útvarpinu, að mikill úlfaþytur væri í Ítölum út af því, að brezk blöð hefðu farið hörðum orðum um líflát Ras Desta. Við þetta hefðum við getað látið sitja. En ég gerði mér það ómak að hlusta í nokkra tíma á Rómaborg, til þess að vita, hvort málið bæri þar ekki á góma, og það, sem um það var sagt þar, var ekki nein frétt, heldur talsvert röggsamleg prédikun í garð Englendinga fyrir þessi ummæli, og þessa prédikun hins rómverska fasisma taldi ég mér skylt sem fréttamanni að láta útvarpshlustendur heyra, ekki af því, að ég væri henni sammála, heldur af því, að mér fannst skylt að láta þetta koma fram. Og sannleikurinn er sá, að svona eru þessi vinnubrögð, enda vita þeir það í hjarta sínu, hv. þm. Snæf., hv. þm. V.-Sk. og aðrir íhaldsmenn, að svona er þessu háttað.

Til frekari skýringar máli mínu skal ég drepa á annað atriði. Í 5 ár hefir Morgunblaðið hafið látlausa árás á mig fyrir það, að fréttir útvarpsins væru hlutdrægar, en jafnframt hefir ekki liðið einn einasti dagur án þess að það hafi birt mína eigin vinnu og gert sér gott af. Það hefir fengið á sig allsæmilegan fréttablaðsbrag með því að lifa á vinnu þeirrar stofnunar, sem það svívirðir og skammar. — Um daginn kom það fyrir í útvarpinu, að stúlka, sem vélritar, misskrifaði sig þannig, að hún sagði, að viss till. í brezka þinginu hefði fallið með 180:180 atkv., í staðinn fyrir 180:135. Það var tilviljun, að þetta var um þjóðnýtingu brezkrar kolavinnu. Síðan les ég þetta yfir, án þess að taka eftir villunni og leiðrétta hana, en síðar verðum við hennar vör og leiðréttum það til blaðanna. En í staðinn fyrir að birta leiðréttinguna, birtir Morgunblaðið grein með stórri fyrirsögn: „Missögn Sigurðar Einarssonar“, þar sem það hélt því fram, að ég hefði með vilja gefið upp skakkar tölur, til þess að menn skyldu ætla, að fylgi þjóðnýtingarinnar hefði svo stórum aukizt. En leiðréttingu sveikst Valtýr Stefánsson um að birta, eins og hann hefir svikizt um að birta allar aths. frá útvarpsins hálfu.

Í afstöðu sinni til fréttastarfseminnar hefir Morgunblaðið verið hið svívirðilegasta, því það hefir dag eftir dag, samtímis og það hefir ráðizt á stofnunina, klippt ofan af fréttunum mörkin. Valtýr Stefánsson er sá mesti heimilda- og fréttaþjófur, sem til er í þessu landi (Forseti hringir), því hann hefir dag eftir dag og viku eftir viku birt fréttir útvarpsins, án þess að geta heimilda, sem hann þó samkv. samningi er skyldugur til að gera. Ég hefi boðið honum það, að taka 12 Morgunblöð í röð, hvenær sem væri á árinu 1936, og sýna honum fram á með samanburði við fréttabók útvarpsins, að meiri hluti útvarpsfrétta þessara blaða væri stolinn, þannig, að merkingu útvarpsins væri sleppt, en „einkaritari vor í Kaupmannahöfn“ eða einhver önnur persóna látin standa undir, án þess að hróflað væri við orðalagi útvarpsfréttanna.

Morgunblaðið hefir sem sagt gengið lengra í því að eigna sér orðréttar útvarpsfréttir heldur en nokkurt annað blað hefir leyft sér, en samtímis er það að kvarta undan því, að fréttaflutningur útvarpsins sé hlutdrægur! Hvernig á nú þetta að samrýmast? En sannleikurinn er sá, að almenningur hefir alls ekki það álit á fréttastarfsemi útvarpsins, að hún sé hlutdræg, því þegar menn trúa ekki hálfu orði af því, sem stendur í Morgunblaðinu, þá trúa menn því, sem útvarpið segir.