02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í C-deild Alþingistíðinda. (1269)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Sigurður Einarsson:

Hv. þm. V.-Sk. hefir snemma á þessu þingi verið orðinn þannig staddur andlega, að honum veitti ekki af að hella úr sér ofurlitlu af þeirri gremju, sem safnast fyrir hjá honum frá degi til dags, af því að tilveran gengur ekki eftir þeim nótum, sem hann kynni að óska sér. Ég geri ráð fyrir, að eitthvað af þessari gremju eigi rót sína að rekja til blátt áfram og eðlilegra hluta, eins og t. d. þess, að kommúnista „morðvörgunum“ á Spáni virðist hafa gengið betur upp á síðkastið. Það gæti verið trúlegt, að það eigi sinn þátt í, hvað illa liggur á þessum hv. þm.

Einu sinni sá einn af merkustu vísindamönnum landsins, og í rauninni sá eini, sem getið hefir sér víðtæka frægð í veröldinni, ástæðu til þess að láta í ljós skoðun sína á mælskulist þessa manns. Hann komst þannig að orði, að hún væri þindarlaus og marklaus malandi. Síðan þessi orð voru töluð hefir aðeins ein breyting orðið á um mælskulist þessa hv. þm. Hann er ekki eins þindarlaus eins og hann var þá. Nú er hann búinn að missa þann eiginleika að kunna að gera mun á því, hvort hlegið er að því sem hann segir, eða hlegið er að honum sjálfum. Þetta er okkur til skapraunar, sem viljum honum vel. Það er ekki ókunnugt, að hv. þm. V.-Sk. hefir tilhneigingu til þess að líta á sjálfan sig sem nokkurskonar Cicero eða Palmerstone.

Ég læt mér það í léttu rúmi liggja, sem hann vék að mér af persónulegum hnútum og lítilsvirðingarorðum um flokkaskipti mín og skoðanaskipti. Ég geri ráð fyrir, að einhverjum öðrum henti það en hv. þm. V.-Sk. að drótta að mönnum skoðanaskiptum. Hann lætur nú ekkert tækifæri ónotað til þess að rétta hlut guðskristninnar í landinu; ég er ekki viss um nema þessu hafi verið á annan veg farið. Hvort það er vond samvizka, sem gerir hann nú einkum að talsmanni trúar og siðgæðis, skal ég ekkert um segja, en ég ætla að gera ráð fyrir því, að það sé ekki af neinni umhyggju fyrir því, að kosningar fari fram í öðru lífi, að hann hefir helgað sig kirkjunnar málefnum, enda væri nú verklag á því, ef hann ætti að stjórna þeim hlutum.

Þá gerði hv. þm. að umræðuefni erindi, sem ég flutti nýlega í útvarpið eftir tilmælum útvarpsráðs, en hafði áður flutt í Danmörku, og færði hann það ekki allskostar á betri veg. Ég tók það fram um þetta erindi, að það væri með öðrum hætti samið en þau, sem ég annars flytti í útvarpið, fyrir þá sök, að ég hefði verið beðinn að segja þetta sem innlegg í raunverulegu deilumáli, sem var ofarlega á baugi. Þó að hv. þm. V.-Sk. virðist ekki vita það, þá er það svo, að til eru útvörp víðsvegar um heim, þar sem beinlínis er unnið að því, að deilumál geti borið á góma og rökræður farið fram um mál, sem áður hefir verið fjallað um í útvarpi eða blöðum.

Þá vildi hv. þm. rangfæra orð mín; hann sagði, að ég hefði gefið í skyn, að ég hlustaði á allar útlendar fréttir. Þetta sagði ég aldrei, og þetta nær vitanlega engri átt. Ég sagði, að ég hefði gert mér far um að ná fregn frá Róm í sambandi við þetta ákveðna mál. Ég skal upplýsa hv. þm. V.-Sk. um það, að Róm útvarpar á ensku og þýzku á hverjum degi og endar með kennslu í ítölsku, svo að ef þessi hv. þm. vill fara að mennta sig í ítölsku, þá getur hann byrjað að læra ítölsku þar; en ef þekking þessa hv. þm. á útvarpsmálum nær ekki lengra en það, að hann haldi, að þarna sé ekki útvarpað á öðrum málum en ítölsku, þá væri betur farið, að hann færi færri orðum um þessi mál. Mér er sama, hvort hv. þm. V.-Sk. trúir því eða ekki, að ég skilji ensku, en ef hans særðu og eymslafullu sál er einhver hugarfróun í því, að ég skilji ekki þetta tungumál, þá er það nauðavelkomið.

Það er ástæða til að vekja athygli á einu, sem hv. þm. sagði í ræðu sinni; það sýnir, að hann er ekki lengi að fetta fingur út í það, sem á að hafa verið sagt í útvarpinu, en hann viðurkenndi reyndar, að hann hefði ekki hlustað á þetta, en það vildi svo til, að hann heyrði það. Hvaða skynfæri eru það, sem þessi hv. þm. hefir, sem þannig eru úr garði gerð, að það vill svo til, að hann heyrir það, sem hann ekki hlustar á — og leyfir sér svo að hafa það eftir? Frá mannlegu sjónarmiði er þetta skynfæri slefberans. — Ég hefi ekki heyrt þessa slúðursögu, en mér finnst hún merkileg fyrir þá sök, að hún lýsir því, hvernig fengnir eru ýmsir sleggjudómar um mann, sem flytur fréttir um erlenda viðburði.

Ég verð að segja það, að mér er nákvæmlega sama, hvað hv. þm. V.-Sk. vill gera úr því, sem um mín erindi kann að hafa verið ritað í öðrum löndum, en hvað eftir annað leyfði hann sér að rugla saman því, sem ég kann að hafa ritað í Alþýðublaðið, og því, sem ég hefi sagt í útvarpinu, en hann hefir ekkert leyfi til slíks. Þetta er honum líkt, og engum samboðið nema þessum hv. þm.

Þessi hv. þm. gerði mikið spott að því, sem ég hefði sagt um biskupinn af Valladolid, en frásögnin um þennan biskup hefir orðið til þess að varpa ljósi yfir málið, hvernig þessi hv. þm. og hans nótar vilja láta segja frá almennum tíðindum. Þetta bar þannig að, að biskupinn var drepinn á einum stað og svo er farið að drepa hann aftur, en það eru bara alltaf þeir rauðu, sem drepa hann. Það er hin skipulagða hlutdrægni, sem krefst þess, að svona sé sagt frá, en það fæst ekki frá minni hendi að vera talsmaður að skipulagðri hlutdrægni, þegar skýrt skal frá almennum tíðindum.

Eins og gefur að skilja, hefi ég ekki á móti því, að þetta frv. fái að fara til n. og fái þá athugun, sem því hæfir, en ég geri ráð fyrir því, að þau rök, sem fram eru færð fyrir því, reynist því léttvægari, sem það er betur varið; ég býst við því, að þegar málið verður rannsakað til þrautar, þá þyki engin skynsamleg ástæða til að gera breyt. frá því, sem nú er.

Það er ekki fyrirkomulagið, sem virðist vaka fyrir hv. þm. V.-Sk.; hann þarf að svala skapi sínu á þeim mönnum, sem að þessum málum standa, og hann virðist hafa verið búinn að búa sig rækilega undir þetta, því að hann kemur með langa skrifaða ræðu, sem hann flytur til þess að svala skapi sínu á mér og e. t. v. til að gera mitt starf tortryggilegt.

Ég get sagt hv. þm. það, að hann mundi aldrei verða við óskum og kröfum um neitt það, sem nálgaðist hlutlausa, sanngjarna, skynsamlega og drengilega meðferð tíðinda. Þessi hv. þm. er of hysterískur pólitíkus til þess að skilja og greina það, sem er að gerast í kringum hann, og það, sem hann sér sjálfur. Það mun vera leitun á fólki eins og sumu íhaldsfólki, sem er jafngeðvont, ef þeir hlutir gerast ekki, sem það óskar; það má sjá það á andlitum sums íhaldsfólks, ef eitthvað hefir gengið betur fyrir uppreisnarmönnum á Spáni nýlega. Þessa lífsspeki virðist þessi hv. þm. hafa.

Þá lét hann sem ég hefði gert mig sekan um ósæmilega framkomu með því að skýra frá viðtali sem ég hafði átt við Valtý Stefánsson. Ég skýrði aðeins frá viðtali, sem okkur hafði farið á milli, og sé það svo, að það tilboð, sem ég gaf þessum ritstjóra, verði tekið alvarlegar, af því að frá því var skýrt í heyranda hljóði, þá skal ég vera jafngóður við ritstjórann eins og ég var á skrifstofu útvarpsstjóra og endurtaka þetta tilboð — og standa til ábyrgðar fyrir það: að Valtýr Stefánsson taki 12 blöð í röð af Morgunblaðinu frá síðastl. ári, hver sem hann vill, og ég skal færa sönnur á, að teknar hafa verið í blaðið fréttir, sem fréttastofan hefir flutt, án þess að hróflað hafi verið einu orði, en heimildarmerkjunum sleppt. Hvers vegna leggur Morgunblaðið það ekki á sig vegna sannleikans að kaupa fréttir annarsstaðar, þó að það kosti það 10-falt–15-falt móts við það, sem það fær þær hjá útvarpinu? Það er óstætt með þessa afstöðu hjá Morgunblaðinu, að nota sér vinnu fréttastofunnar ár eftir ár, en halda stöðugt uppi persónulegum svívirðingum á þá menn, sem þessi störf vinna.

Ég skal taka það fram hér, að í þessu efni hefir dagblaðið Vísir verið stórum betra, þó að hitt sé annað mál, að það telji sér skylt af pólitískum ástæðum að hreyta ónotum í fréttastofuna við og við. Ég skal geta þess, að til er annar maður, gamall kunningi, stórbóndi einn norðan úr landi, sem er álíka geðgóður og hv. þm. V.-Sk., og þegar hann kemur í borgina, er hann líka orðinn fullur af galli og eitri, sem hann þarf að spýta úr sér, og lendir það þá helzt í Vísi, með sama vitinu á hlutunum og hv. þm. V.-Sk. segir um þessi mál.