02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 14 í C-deild Alþingistíðinda. (1270)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Gunnar Thoroddsen:

Tilefni þessa frv. er, eins og skýrt hefir verið frá, ekki sízt óánægja landsmanna með fréttaflutning ríkisútvarpsins. Tilgangurinn með frv. er sá, að útvatpsnotendur fái meiri hluta í útvarpsráði og að val fréttamanna og annara starfsmanna verði á annan og betri veg en nú er.

Til þess að rökstyðja þessar ákúrur sjálfstæðismanna og mikils hluta þjóðarinnar um hlutdregni útvarpsins er nauðsynlegt að gefa nokkur dæmi. — Hv. þm. V.-Sk. hefir flett svo rækilega ofan af fréttaburði hv. 9. landsk., að þess gerist ekki frekari þörf. Svör þessa hv. þm. við ákúrum hv. þm. V.-Sk. voru aðeins tvö; annað, að ræða hv. þm. V.-Sk. hefði verið þrungin af hysteri, en hin mótbáran var árás á Valtý Stefánsson fyrir fréttaþjófnað og heimildahnupl.

Hv. 9. landsk. hefir ekki gert minnstu tilraun til þess að hnekkja þeim ákúrum, sem allir vita, að eru sannar, að hann hafi á undanförnum 5 árum hagað öllum fréttaflutningi á þann veg, að hann hefir sýnt fullkomlega vítaverða hlutdrægni.

Ég tel ekki þörf á að ræða frekar starfsemi þessa manns við útvarpið, en ég vildi víkja að einum lið öðrum í dagskrá útvarpsins, sem ég hefi sjálfur rekið augun í. Ég skal þá fyrst geta þess, að síðastl. haust voru flutt þrjú erindi í útvarpið af einum gæðingi rauðu flokkanna, Ragnari Kvaran. Þetta var látið heita yfirlit yfir kosningar, sem farið höfðu fram á Norðurlöndum, en þessi erindi voru með þeim hætti, að þau voru ekkert annað en einhliða propaganda fyrir stjórnarflokkana í þessum þrem löndum.

Þá vildi ég lítillega minnast á einn útvarpsráðsmanninn, Jón Eyþórsson. Hann flytur erindi í útvarpið á hverjum mánudegi, sem hann kallar „um daginn og veginn“, samsetning af pólitískri hlutdrægni og nauðaómerkilegum þvættingi um daglega viðburði. Fyrir skömmu fóru fram í útvarpinu umræður ungra manna um stjórnmál. Eftir þessar umr. skýrði Jón Eyþórsson frá því í þessu tali sínu „um daginn og veginn“, að það væri álit sitt og útvarpsráðs, að þessar umr. hefðu fárið fram með öðrum hætti en til hafi verið ætlazt. Reglur útvarpsins hafi verið þverbrotnar og margir ræðumenn brotið í bága við almennt velsæmi. Vegna þess að félag það, sem ég stend að, átti frumkvæðið að þessum umr. og ber því að vissu leyti ábyrgð á því, að þær fóru fram, þá töldum við, sem að þessu félagi stöndum, ekki rétt að láta alla ræðumennina liggja jafnt undir þessum áburði. Við sendum því útvarpinu yfirlýsingu til birtingar. Þar var tekið fram, að þessar reglur hefðu aldrei verið birtar fyrir ræðumönnunum; í öðru lagi, að fundarstjórinn, Vilhjálmur Þ. Gíslason, hefði aldrei áminnt neinn ræðumann, og ennfremur, að ef útvarpsráðið stæði á bak við þessi ummæli Jóns Eyþórssonar, þá skyldi það nafngreina þá menn, sem af sér hefðu brotið, en láta ekki alla liggja undir þessum áburði. Hver hafa nú verið svör útvarpsráðs? Félagið fékk bréf eftir nokkra daga, þar sem tekið var fram, að þessari yfirlýsingu væri neitað um birtingu. Það var ekkert tekið fram, hvers vegna þessu hefði verið neitað, heldur bara alger neitun.

Þá kom það fyrir í næsta fyrirlestri Jóns Eyþórssonar, að hann minntist á nýstofnað félag meðal sjálfstæðiskvenna hér í Reykjavík. Hann gat þó ekki skýrt frá þessu án þess að geta þess um leið, að óviðfelldið væri að stofna sérstök félög kvenna í þessum tilgangi. Hann notaði tækifærið þarna í útvarpinu til þess að agitera á móti þessari félagsstofnun.

Þá má geta þess, að þegar hann var að skýra frá nokkrum stjórnmálaviðburðum, þá átti hann ekki nógu glæsileg orð til þess að lýsa flokksþingi framsóknarmanna. Þessa vikuna var um ekkert annað rætt hér í bænum en þetta glæsilega flokksþing! — Það gerðist þó fleira þessa viku, m. a. það, sem ég ætla, að nokkuð a. m. k. hafi verið talað um í bænum, sem sé 10 ára afmæli félags ungra sjálfstæðismanna. Það mátti ekki minnast þess, en hann þurfti að segja, að flokksþing framsóknarmanna hefði verið svo mikils um vert, að ekki hafi verið um annað talað hér í bænum alla vikuna.

Það er ekki eingöngu hlutdrægnin, sem einkennir þetta fyrirlestrahald Jóns Eyþórssonar, heldur að það er nauðaómerkilegt, eins og t. d. þegar hann er að skýra frá lýsingum, sem hafi komið af honum og hans útliti.

Þegar ásakanir eru bornar fram á hendur útvarpinu, er öllu mótmælt af hendi stjórnarflokkanna; ég tel það því nauðsynlegt, eins og hv. þm. V.-Sk. hefir gert svo rækilega, að sýna fram á með glöggum dæmum, í hve mörgum tilfellum hafi verið beitt hlutdrægni hjá útvarpinu. Það má fella þann almenna dóm um útvarpið, sérstaklega í seinni tíð, að fyrirlestrar þess og fréttaburður sé einn skipulagður áróður fyrir stjórnarflokkana hér á landi.

Það var minnzt á það í blöðunum fyrir stuttu, að komið hefðu fram óánægjuraddir út af útvarpinu í Bretlandi; það hafði verið talið hlutdrægt og kallað „rauða útvarpið“. Þann stutta tíma, sem ég dvaldi í Englandi, hlustaði ég á útvarpið, og ég verð að játa, að ég varð ekki svo mjög var við hlutdrægni þar; a. m. k. var það barnaskapur á móts við þann fréttaburð, sem hér á sér stað dag eftir dag. Ég held, að það væri meiri ástæða til að gefa íslenzka útvarpinu nafnið „rauða útvarpið“.

Ég býst ekki við, að hinar rökstuddu ásakanir á hendur útvarpinu fái mikinn byr hjá þeim flokkum, sem hér ráða í þinginu, en ég býst þó við — þar sem þeir kenna sig við lýðræðið — að þeir kveinki sér við að neita þeirri sjálfsögðu kröfu, að útvarpsnotendur fái aukin yfirráð um stjórn þessara mála og ráði meiri hluta útvarpsráðs.