02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (1271)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég ætla ekki að blanda mér mikið inn í umr., en þó verð ég að segja nokkur orð út af því, sem síðasti hv. ræðumaður sagði. Hann minntist á þá starfsemi, sem Jón Eyþórsson heldur uppi við ríkisútvarpið, og vildi færa það sem röksemd fyrir því, að þetta frv. væri rétt, að sú starfsemi væri pólitískt hlutdræg. Hann minntist á nokkur atriði, sem ættu að sýna þetta, t. d. að Jón Eyþórsson hefði skýrt frá því í þessu tali sínu „um daginn og veginn“, að mikið hafi verið talað um flokksþing framsóknarmanna þá viku, sem það stóð yfir hér í Reykjavík. Ég hygg, að engum blandist hugur um, að það sé rétt, sem Jón Eyþórsson hefir sagt. Hinsvegar minntist þessi hv. þm. á það, að ekkert hefði verið getið um afmæli Heimdallar í frásögn þessa sama manns. — Þetta er rangt. Ég hefi góðar heimildir fyrir því, að það hefir verið getið um það afmæli í frásögn þessa sama manns. Hann meira að segja byrjaði á að segja frá því, segir sá hv. þm., sem grípur fram í.

Mér finnst, af því, sem þessi hv. þm. og hv. þm. V.-Sk. hafa sagt, að hér sé um meiri eða minni hysteri að ræða, sérstaklega var þetta áberandi hjá hv. 11. landsk., því að það sjá allir, að í því er engin heil brú, að halda því fram, að Jón Eyþórsson hafi á hendi pólitíska starfsemi á ábyrgð útvarpsráðs.

Skv. því frv., sem hér liggur fyrir, á að kjósa 4 menn í útvarpsráð með almennri kosningu, en Alþ. á að kjósa þrjá; vitanlega yrði sú kosning pólitísk. — Þetta sker úr um það, að flm. trúa því ekki, að þetta frv. verði til þess að bæta úr, heldur er það aðeins flutt til þess að fá tækifæri til þess að nöldra um þetta mál hér í sölum Alþ. — Það virðist vera í mesta máta einkennileg röksemdafærsla hjá hv. 11. landsk., að halda langa ræðu til þess að sanna, hvað útvarpsráðið sjálft sé hlutdrægt, en láta sér þó detta í hug að geta með þessu fyrirkomulagi útilokað pólitík. Sannleikurinn er sá, að hjá öllu sanngjörnu fólki er það álit, að útvarpið sé hlutlaust, og það er staðreynd, sem ekki þýðir að mæla í gegn, að því er bezt trúað, sem sagt er í útvarpinu; en þegar sjálfstæðismenn eru hér að tala um hlutdrægni, þá er það sumpart sprottið af pólitískri móðursýki, og sumpart af löngun til þess að ná sér niðri á einum manni, sem starfar að þessum málum, sem er 9. landsk.