02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 16 í C-deild Alþingistíðinda. (1272)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Sigurður Kristjánsson:

Ástæðan fyrir því, að ég kvaddi mér hljóðs, var sú, að mér blöskraði alveg að heyra þau órökstuddu illyrði, sem hv. 9. landsk. lét dynja yfir Morgunbl. og gerði jafnframt að árásarefni á Sjálfstfl. Ég vil í þessu sambandi upplýsa þetta mál dálítið. — Það er ekki ár síðan að útvarpsfréttaflutningurinn var beinlínis tekinn af blaði þess flokks, sem hv. 3. landsk. tilheyrir, en þessi hv. þm. er svo að tala um, að útvarpinu hafi þótt blöðin fara óráðvandlega með fréttirnar. Svipað var gert við Nýja dagblaðið, en það brást svo skynsamlega við, að það afsakaði sig, en blað hv. 9. landsk. var eins og vant er með skæting og illyrði, en varð þó að beygja sig að lokum, en þessi ágreiningur reis út af því, sem í sjálfu sér má telja lítilfjörlegan hlut, að þess var ekki látið getið, að fréttirnar, sem blöðin fluttu, væru útvarpsfréttir. Nú hefir það verið svo, að Morgunbl. hefir haft bæði fréttir frá útvarpinu og eins mjög mikið af einkaskeytum frá útlöndum, og þegar þau hafa verið um sama efni, þá hefir það þótt aðgengilegra fyrir lesendur að fella fréttirnar saman, og hafði Morgunbl. gert þetta á tímabili, en ætíð gætt þess að geta þess við hvað eina, frá hverjum fréttin var tekin, en á sama tíma var fullt af útvarpsfréttum í blöðum stjórnarflokkanna, þar sem þess var alls ekki getið, að fréttirnar væru frá útvarpinu.

Það er takmarkalaus ósvífni, að hv. 9. landsk., með sekt sinna flokksmanna í eftirdragi, skuli leyfa sér að koma með aðra eins ásökun og hann gerði í garð þess blaðs, sem er langheiðarlegast í þessu efni, og ég fullyrði, að er svo heiðarlegt, að því mundi aldrei detta í hug að falsa einn staf í nokkurri frétt, en ég veit, að það er þetta, sem er þyrnir í augum manna eins og hv. 9. landsk. Það er vitað, að Morgunbl. hefir alveg sérstakar, strangar reglur um það, að ætíð sé farið sem réttast með það, sem í blaðinu stendur. En hitt er annað mál, þó að blaðið eigi mjög erfitt með að bera ábyrgð á því, sem það fær aðsent, og þar standa öll blöð jafnt að vígi. En að talsmaður þess málgagns, sem hefir dregið blaðamennskuna svo djúpt niður í saurinn, að slíkt hefir aldrei nokkurn mann á Íslandi dreymt um, skuli leyfa sér að koma fram með vandlætingu um fréttaflutning annara blaða, það keyrir fram úr öllu hófi.

Fyrst ég á annað borð stóð upp, er rétt, að ég fari dálítið inn á þetta frv. Ég skal fyrst og fremst taka það fram, að það eina, sem ég get verið hv. 9. landsk. sammála um, er það, að hann búist við, að ákvæði frv. reynist því lélegri, því nánar sem þau verði athuguð, til þess að bæta úr þeim ágöllum, sem ætlazt er til; ég er hræddur um, að frv. nái ekki að bæta úr þeim ágöllum til fulls, sem nauðsynlegt væri, en hitt er annað mál, að mér þykir líklegt, að þetta frv. geti einhverju áorkað og því sé rétt að styrkja það, en mig undrar það, að hv. 9. landsk. og hæstv. fjmrh. skuli halda því fram, að útvarpið sé ópólitískt og óhlutdrægt. Ég held, að það sé alkunnugt, að útvarpið er að öðrum þræði yfirleitt talið vera flokksútvarp. Og það er ómögulegt að ætlast til þess, að einn maður, eins og útvarpsstjóri, geti við slíkt ráðið til fulls, en það er öllum kunnugt, að útvarpið er svo hlutdrægt, að það er algerlega óþolandi. Ég get nefnt ýmislegt þessu til sönnunar; t. d. hefir það verið regla, að einn pólitískur flokkur hér á landi fær útvarpið til afnota, part úr degi á hverju ári, til þess að flytja mönnum pólitíska trú sína; það er Alþfl. Það hafa verið fluttar margar ræður og útmálað ágæti stefnunnar og talið upp, hvað þessi flokkur sé mikill umbótaflokkur og geri landi og lýð mikið gagn, og hve hann ryðji sér til rúms. Ég hefi farið fram á það f. h. míns flokks, að hann fengi á landsfundi sínum afnot af útvarpinu í eina klukkustund, til þess að flytja ræður, en þessu hefir verið stranglega neitað. Hvað sýnist mönnum um þetta? Einn landsmálaflokkur í landinu, sem er meðal þeirra minni, getur fengið útvarpið til afnota einn dag til þess að útbreiða sínar kenningar, en stærsta stjórnmálaflokki landsins er neitað um einn klukkutíma.

Það er ekki hægt að telja upp allt, sem ber vott um flokkslegt útvarp, en ég vil þó minna á eitt tilfelli enn. Það kemur fram í útvarpinu einhver persóna — ég man ekki, hvort það var karl eða kona —, sem flytur erindi um kommúnismann og viðhorf hans til trúarbragðanna; ég hlustaði að vísu ekki á erindið, en ég undrast, að útvarpið skyldi ljá manninum hljóð til þess að flytja kenningar kommúnista. Mér datt í hug að fara til útvarpsins og biðja það um leyfi til þess að flytja erindi um sjálfstæðisstefnuna og viðhorf hennar til mannúðarmála. Ég bað ekki um leyfið, því að ég vissi vel, að því yrði harðlega neitað.

Þar sem ræða hv. 9. landsk. fjallaði mikið um fréttaflutning frá Spáni, skal ég geta þess, að ég var á ferð í sumar um tíma, og hvar sem ég kom, var um það talað eins og sjálfsagðan hlut, að Spánarstyrjöldinni væri að verða lokið. Sumir sögðu, að henni yrði lokið eftir 24 tíma, en aðrir sögðu eftir 48 tíma; og þegar ég spurði, hvaðan þeir hefðu þessar fréttir, sögðust þeir hafa þær frá útvarpinu. Ég skal nú ekkert um það segja, hvort ég vilji heldur, að rauða samfylkingin á Spáni eða þjóðernissinnar sigri, en ég er viss um, að sá, sem fréttirnar flutti, hefir viljað láta þá rauðu sigra, og þess vegna hélt fólkið, að stríðið yrði búið eftir nokkra klukkutíma. Ég vil bæta því við, að ég hefi sjálfur komizt í kast við útvarpið um fréttaflutning, og ég hefði ekki trúað því, að mér mundi ganga eins erfiðlega og mér gekk að fá flutta fundargerð frá þing- og héraðsmálafundi í Norður-Ísafjarðarsýslu. Það var alltaf eitthvað að, ýmist voru það formgallar, vantaði fundarstjóra eða flokksformann, skrifara eða eitthvað annað, til þess að birta mætti þessa fundargerð eða eitthvað úr henni, svo að þetta féll niður. Næsta ár var ég svo beðinn að koma á framfæri fundargerð, svo að ég fór aftur á stúfana. Mér var tekið ákaflega elskulega, menn virtust vilja allt fyrir mig gera, eins og þeir ættu í mér hvert bein, og svo kom okkur saman um, hvað mætti sneiða af þessu, en svo þurfti endilega að sneiða enn meira af þessu, og þegar ég sá það, var ég ekki ánægður með, á hvern hátt það var gert. Á þessum fundi var t. d. minnzt eitthvað á búnaðarmálastjórann, sem þá var, Sigurð Sigurðsson, sem þá var á ferð um sumarið og hafði gert þar mikið fyrir ræktunarmálin, og fundurinn hafði samþ. að færa Sig. Sigurðssyni þakkir fyrir hans mikla starf í þágu ræktunarmálanna. En það stóð þá svo illa á, að um þær mundir var háð pólitískt stríð um það, hver skyldi verða búnaðarmálastjóri, svo að þegar ég fæ það, sem átti að birta af fundargerðinni, þá var búið að strika þessa tillögu út. Ég spurði útvarpsstjóra, hverju þetta sætti; hann sagði, að þetta væri fjarstæða. Síðan fór ég til fréttamannsins, og svo las hann upp og felldi niður þessa tillögu með blygðunarleysi.

Ég ætla svo að minnast á eitt atriði út af ræðu hv. 9. landsk. Um leið og ég fullyrði, að útvarpið sé mjög litað pólitískt, þá vil ég sízt af öllum undanskilja hann. Ég hlusta sjaldan á útvarpið, en oftast, ef ég get, á útlendu fréttirnar, — ekki þó fyrir þá sök, að ég haldi, að þær séu ólitaðar, heldur af því, að ég get ef til vill að nokkru leyti komizt að sannleikanum gegnum þær.

Ég man eftir einu erindi, sem þessi hv. þm. flutti í útvarpið; það var um morðöldina í Rússlandi. Þeir þurftu þess með, Rússarnir, að einhverjir stæðu með þeim, því að jafnvel Alþýðubl. var farið að blöskra blóðsúthellingarnar og hin vafasömu réttarhöld. Þá var þessi hv. þm. nýkominn frá Danmörku, þar sem hann hafði verið að leita sér upplýsinga í trúarefnum. Í þessu erindi sínu reyndi hv. þm. að gera það skiljanlegt, að það gæti vel verið eftir ósk mannanna sjálfra, að þeir voru teknir af lífi, því að það væri einskonar svölun fyrir þessa menn að vera drepnir, og hann virtist vera búinn að finna út, hvernig á þessu stæði; þetta væri trúarbragðakennd, því að Lenin og Stalin væru svo miklar persónur, að menn gætu vel fengið svölun í því að deyja fyrir þá. Þess vegna væri það ósk þessara manna að verða drepnir, og það sem allra fyrst. Mér þótti þetta hæpin skýring, sérstaklega af því, að maðurinn, sem var að láta taka þessa menn af lífi, stóð ljóslifandi fyrir framan þá með blóðugar hendur. Það er ekki mörg þús. ára gamall átrúnaður.

Áður en ég lýk máli mínu, skal ég ennfremur geta þess, að hvort sem ég eða aðrir sjálfstæðismenn koma með fréttir frá sínum flokksmálum í útvarpið, þá verður að stikla þar á línu, því að útvarpið gætir þess að taka ekkert, sem á nokkurn hátt gæti falið í sér „agitation“, og út á það væri í sjálfu sér ekkert að setja, ef þetta gengi jafnt yfir. En ég held, að ég fari ekki rangt með það, að þegar einn af starfsmönnum útvarpsins var að skýra frá þingi framsóknarmanna hér, þá þuldi hann upp einskonar kosningaávarp frá þessari samkundu. Það þarf að sjálfsögðu ekki að efast um, að slíkt hefði ekki verið gert, hefði Sjálfstfl. átt hlut að máli. Ég skal endurtaka það, að ég hefi ekki mikla trú á því, að þeir gallar, sem eru núna á fréttaflutningi útvarpsins, verði leiðréttir, meðan að því standa þeir stjórnmálaflokkar, sem með völdin fara í landinu. Mér finnst koma fram í útvarpinu miklu minni siðspilling heldur en hjá þeim flokkum, sem nú sitja við stýrið. Þó að ég hiki ekki við að fullyrða, að útvarpið sé að öðrum þræði hreinpólitískt, og þó að ég hiki ekki við að fullyrða, að fjöldi þeirra erinda, sem flutt eru í útvarpinu, sé að yfirlögðu ráði litaður með allskonar rauðum stefnum, þá er þó langt því frá, að það jafnist nokkuð á við framferði ríkisstj. og hennar verk.

Ég er sannfærður um, að þessir gallar á útvarpinu lagast ekki fyrr en við höfum fengið betur siðaða stjórn í landinu en þá, sem við höfum nú.