02.03.1937
Neðri deild: 12. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 24 í C-deild Alþingistíðinda. (1277)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Ég skal reyna að vera stuttorður, þar sem fundartíminn er á þrotum. Ég ætla fyrst að víkja að orðum hv. 6. þm. Reykv. Hann nefndi til dæmis um hlutdrægni Jóns Eyþórssonar, að hann hefði snarazt til að lesa upp í útvarpið nokkrar klausur úr samþykktum flokksþings framsóknarmanna, sem verið hefðu einskonar kosningaávarp. Þegar Jón sagði frá þessum samþykktum, lét hann þess getið, að hann hefði á sama hátt sagt frá flokksþingi Alþfl. í haust. Nú hefir Sjálfstfl. ekkert flokksþing haft síðan farið var að flytja þessi erindi um daginn og veginn, annars hefði verið farið nákvæmlega eins með fregnir frá flokksþingi hans. Til þess að benda á, hvað óhlutdrægt er farið með þessi mál, eins og líka sjálfsagt er, vil ég minna á, að þegar Jón Eyþórsson sagði frá áramótahugleiðingum hinna pólitísku foringja hér, las hann t. d. nákvæmlega á sama hátt upp úr greinum Ólafs Thors og Jónasar Jónssonar. (ÓTh: Ég hefði bara kunnað betur við, að það hefði verið borið undir mig, eins og ég efast ekki um, að það hefir verið borið undir Jónas, hvað ég óskaði að láta lesa upp úr minni grein). Hvað hefir hv. þm. fyrir sér í því, að það hafi verið borið undir Jónas Jónsson, hvað lesið væri af hans grein? Þetta eru bara getsakir. Það er vitanlegt, að þegar maður ber sjálfur ábyrgð á því, sem hann flytur í útvarpið, þá velur hann sjálfur efni sitt. Ég ætla ekki að dæma um, hvort þau ummæli, sem tekin voru upp úr umræddum blaðagreinum, hafi verið aðalkjarni málsins. (ÓTh: Það voru þau engan veginn úr minni ræðu.), en hitt veit ég, að aðalatriðin voru tekin úr þeim báðum. Þetta er bara sama viðkvæmnin, sem hér kemur fram hjá hv. þm. G.-K., eins og flokksmönnum hans, sem hér hafa talað.

Viðvíkjandi félagi sjálfstæðra kvenna vil ég geta þess, að Jón Eyþórsson gerði ekki annað í sambandi við það mál, eins og hv. 2. þm. Reykv. tók fram, heldur en að lýsa eftir skoðunum manna á því. Forráðamönnum þessa félagsskapar er jafnopin leið sem öðrum að láta sínar skoðanir koma fram í þessum tíma, sem ætlaður er til þess að skrafa um daginn og veginn.

Þá er dæmi hv. 6. þm. Reykv. gott til að sýna, hve nauðalitlu hv. andstæðingar hafa af að taka í þessu pexi sínu. Hann sagði, að því hefði verið trúað á sínum tíma samkv. fréttum útvarpsins, að Spánarstyrjöldin mundi ekki standa nema 24 klukkustundir. Hv. þm. gat ekki um, að neitt hefði verið sagt um, hvor aðilinn mundi verða ofan á. Og hvaða hlutdrægni er þá hægt að finna út úr þessu, þó rétt væri hermt? Við vitum, að fréttir útvarpsins um heimsviðburði eru teknar eftir erlendum fréttum, og hafi verið haldið fram, að Spánarstyrjöldin mundi ekki standa nema 24 klukkustundir, þá hefir það verið af því, að sú skoðun hefir verið almennt ríkjandi. Það er heldur ekkert nýtt fyrirbrigði, þó menn álíti í upphafi, að styrjaldir standi skemur en raun verður á. Ég man ekki betur en að þeir, sem bezt þekktu til, spáðu þegar síðasta heimsstyrjöld brauzt út, að hún mundi standa í mesta lagi nokkra mánuði. En hvað varð? Þetta er því að seilast nokkuð langt eftir dæmum um hlutdrægni.

Þá gerði hv. þm. Vestm. fyrirspurn um það, hvort ég teldi heppilegt, að fréttamaður útvarpsins lýsti yfir í útvarpinu, að tilteknar viðskiptaþjóðir vildu eyðileggja okkur Íslendinga með verzlunarsamningum. Hafði hann ekki lakari heimildir fyrir þessu, heldur en orð hv. þm. V.-Sk. Ég verð nú að segja, að þó þessi hv. þm. segi hér, að fréttamaður útvarpsins hafi viðhaft slík ummæli, þá geri ég ekki mikið með það út af fyrir sig. Þó vil ég ekki mótmæla þessu, þar sem ég hefi ekki rannsakað málið. En hv. þm. V.-Sk. sagði, að þessi ummæli hefðu verið í yfirlitserindi um heimsviðburðina. Þau erindi flytur Sigurður Einarsson ekki sem fréttamaður útvarpsins á ábyrgð útvarpsstjórnar, heldur flytur hann þau á vegum útvarpsráðs og ber sjálfur persónulega ábyrgð á því, sem hann segir í þeim, eins og aðrir, sem slík erindi flytja, en ekki stofnunin, sem hann vinnur fyrir.

Ég vil loks benda á, að enn hefir ekki verið minnzt neitt á aðalatriði þessa máls, hvernig hv. meðmælendur frv. hugsa sér að fá betri fréttaflutning með því að leggja hann undir útvarpsráð heldur en með því fyrirkomulagi, sem nú er. Þetta sýnir bezt, að það er rétt, sem ég sagði áðan, að frv. er borið fram í þeim tilgangi að fá tækifæri til þess að leysa frá skjóðunni. Ég hefi ekki trú á, að það sé bót að því að leggja þetta undir útvarpsráð. Einstakur maður eins og útvarpsstjóri, sem ekki þarf að taka þátt í opinberum deilum, stendur miklu betur að vígi til þess að standa að hlutlausum fréttaflutningi, þar sem hann þarf ekki að taka tillit til neinna sérstakra umbjóðanda, heldur en slíkt ráð, hvort sem það nú er kosið af Alþingi eða með almennum kosningum. Þetta hefir líka reynslan sýnt, þar sem hv. þm. geta ekki, hvernig sem þeir tosast við það, bent á eitt einasta atriði, sem gefur í skyn, að fréttaflutningi útvarpsins sé beitt á hlutdrægan hátt. (JJós: Þetta er eins og fullyrðingin um það, að tollarnir hafi ekki hækkað).