05.04.1937
Efri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 44 í B-deild Alþingistíðinda. (128)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Frsm. (Ingvar Pálmason):

Þetta frv. er komið aftur frá hv. Nd. og hefir tekið þar þeirri breyt., að bætt hefir verið inn í það nýrri málsgr. þess efnis, að gert er ráð fyrir að opna sjóðinn aftur til lánveitinga fyrir þá vélbáta undir 60 smálestum að stærð, sem ekki hafa fengið afgreiðslu í sjóðnum. Sjútvn. þessarar d. hefir nú ekki tekið þetta sérstaklega til meðferðar, og ég fyrir mitt leyti ætla ekki að svo stöddu að vera neitt á móti þeirri breyt. En mér virðist, að inn í þessa málsgr. sé kominn hortittur, sem þurfi að fara út. Það stendur sem sé hér í 3. málsgr. frv., með leyfi hæstv. forseta:

„Lánveitingum samkv. þessari gr. skal lokið 30. sept. 1937, og skal stjórn sjóðsins, sem skipuð var samkv. ákvæðum 10. gr. laganna, halda áfram störfum til þess tíma“.

Þessi tilvitnun í 1. málsgr. 10. gr. laganna get ég alls ekki séð, að eigi við, því að 10. gr. l. fjallar aðeins um stjórn sjóðsins. Mér virðist þetta vera vansmíði á frv. En af því að ég hefi nú ekki átt kost á að bera mig saman við nm. í sjútvn. Nd., þá tel ég réttast að fara fram á það við hæstv. forseta, að hann taki málið af dagskrá að þessu sinni. Ég hefi ekkert á móti því, að það sé rætt við þetta tækifæri, en ég vil helzt ekki, að gengið verði til atkv. um málið fyrr en sjútvn. er búin að athuga það, því að ég álít, að frv. þurfi lagfæringar við.