04.03.1937
Neðri deild: 14. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 37 í C-deild Alþingistíðinda. (1285)

38. mál, útvarpsrekstur ríkisins

*Jóhann Jósefsson:

Ég get verið þakklátur hæstv. fjmrh. fyrir að gera sér það ómak að árétta svar sitt til mín, því í raun og veru svaraði hann engu í fyrra sinn, þó okkur beri nokkuð mikið á milli um afstöðu ríkisstj. til umræddra ummæla.

Svo var það hæstv. ráðh. utanríkismálanna, sem eðlilega fann ástæðu til þess að taka til máls. Hann sagðist vera mér sammála um það, að rétt væri að viðhafa alla varúð í ummælum um önnur ríki, en spurði hinsvegar, hvort ég hefði nokkurt umboð frá Þjóðverjum til þess að grennslast eftir, hvað um þá sé talað hér í blöðum eða útvarpi. Ég get svarað hæstv. ráðh. því, að ég hefi ekkert slíkt umboð, og hefi ekki heldur um það beðið. Ég þykist sem þm. og borgari þjóðfélagsins hafa fullan rétt til að benda á þá hættu, sem af því getur stafað, ef við búum gálauslega að viðskiptaþjóðum okkar. Hitt, sem hæstv. ráðh. lét sér sæma að beina til mín, að það væri vafasamur þegnskapur af mér að tala um þessi útvarpsummæli á þennan hátt, því vil ég svara honum með því að minna hann á, að ég hefi átt kost á áður að benda honum á varhugaverð ummæli í hans eigin flokksblaði, er mér virtist hann sammála mér um, en þessi ummæli snertu viðskiptaþjóð okkar Íslendinga og voru síður en svo fallin til þess að treysta vinsamleg viðskipti milli ríkjanna.

Hæstv. ráðherrar hafa valið sér þá skemmstu leið í þessu efni; þeir hafa haldið því fram, að hv. þm. V.-Sk. fari með rangt mál. Ég veit ekki, hvort þeir hafa beinlínis sagt, að hv. þm. hafi logið upp þessum ummælum á Sigurð Einarsson, en þeir hafa fullyrt, að tíðindamaður útvarpsins hafi aldrei viðhaft þessi orð. Það er svo að sjá, sem þessir hæstv. ráðh. treysti sér til að bera þennan hv. þm., konunglegan embættismann, þjóðkunnan þjóðarfulltrúa og hinn vandaðasta mann slíkum sökum. En ég hefi einmitt fengið umsagnir áreiðanlegra manna hér í bænum, er hlýddu á ummæli tíðindamannsins, og þær staðfesta, að þau hafi að efni til verið hin sömu og hv. þm. V.-Sk. heldur fram.

Það er að sjálfsögðu auðvelt fyrir tíðindamanninn að strika þessi ummæli út úr sínu erindi áður en hann lætur prenta það, og er það að vísu betra en ekkert, en það haggar samt ekki þeirri staðreynd, að þau hafa verið flutt. En vonandi verða þessar umr. ekki aðeins til þess, að hann striki umrædd ummæli út áður en erindið verður prentað, heldur verði tíðindamaður eftirleiðis varkárari í orðum gagnvart þeim þjóðum, er við skiptum við.

Ég tel það engu óþegnlegra að átelja slíkt athæfi heldur en að breiða yfir það, eins og hæstv. ráðh. hafa viljað gera. Og ef þetta verður ekki lagað með átölum, sem hæstv. atvmrh. hefir þó tekið undir, þá verður það samt enn síður lagfært með yfirhylmingum.

Neitanir við því, að ummælin hafi verið viðhöfð, hafa náttúrlega harla litla þýðingu og eru samskonar og neitanir hæstv. ráðh. við því, að útvarpið hafi á ýmsum sviðum verið notað til flokksþarfa og til að heita pólitískri hlutdrægni. Þær eru álíka mikils virði hvorartveggja þessar neitanir.