03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 43 í C-deild Alþingistíðinda. (1293)

43. mál, opinber ákærandi

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Það er rétt, að ég hefi áður lýst yfir fylgi mínu við það, að skipaður verði saksóknari ríkisins. En mál þetta er í n., sem einmitt nú vinnur að heildarlöggjöf um meðferð opinberra mála, sem þetta heyrir undir. Ég veit, að þessi n. hefir starfað mikið og samið frv. um þetta efni, og því er ekki aðeins eðlilegt, heldur sjálfsagt, að þetta mál verði tekið til meðferðar af þeirri sömu n. Það er því næsta einkennilegt, að vera að kasta fram slíku frv. þing eftir þing. Ég býst við, að hv. þd. sé mér sammála um það, að þessi mál séu ekki of vandlega huguð, þótt þessi færa n. fjalli um þau. Frv. um meðferð einkamála lá lengi bæði fyrir stjórn og þingi, og þó komu fram ágallar á því, sem eðlilegt var. Því á ekki að rasa fyrir ráð fram í þessu máli, heldur undirbúa það sem bezt. Lögunum um meðferð einkamála varð að breyta með bráðabirgðalögum, til þess að málarekstur í sumum málaflokkum ræki ekki í strand, þrátt fyrir undangengnar athuganir lögfræðinganna. Ég hygg því, að í þessu tilfelli sé heillavænlegast að bíða þess, að n. skil áliti sínu.

En ég vil áður en ég lýk máli mínu, minnast lítið eitt á grg. frv. og ræðu flm. Hann segir, að málinu þurfi að hraða, vegna þess að ákæruvaldinu hafi verið misbeitt, einkum upp á síðkastið. En ég vildi gjarnan, að hann færði rök fyrir þessu. Hann sagði, að núverandi stjórnarflokkar hefðu runnið á málinu, þegar þeir höfðu sjálfir ákæruvaldið í hendi sér og gátu misbeitt því eftir geðþótta. Þetta er harla óþinglega mælt, a. m. k. ef enginn rökstuðningur fylgir. Í grg. er gerð tilraun til að rökstyðja þetta með þeim hætti, að ákæruvaldinu hafi verið beitt hlutdrægnislega gagnvart bæjarstjórnum Ísafjarðar og Vestmannaeyja. En kærur á þessar bæjarstjórnir hafa aldrei komið til þess ráðh., sem ákæruvaldið hefir. Hinsvegar getur atvmrh. auðvitað fyrirskipað rannsókn á hag og stjórn bæjarfélaga, ef hann telur ástæðu til þess. — Og svo er hv. flm. lögfræðingur og ætlaði sér jafnvel að verða prófessor í lögfræði!

Ég vildi gjarnan, að hann færði rök fyrir þeirri miklu misbeitingu ákæruvaldsins, sem nú gerir nauðsynlegt að hraða þessu máli svo mjög. Þá verður ef til vill hægt að rifja upp ýmislegt, sem áður hefir skeð.