05.04.1937
Efri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (130)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

Magnús Guðmundsson:

Mér kemur þessi skoðun hv. 4. landsk. ákaflega undarlega fyrir sjónir, ef hann álítur, að sjóðstjórnin sé skyldug til að veita lán til greiðslu á skuldum, sem áreiðanlega eru tapaðar. Ég hefi ekki skilið það þannig, að til þessa væri ætlazt af Alþ., þó að þessi breyt. kæmi hér inn, heldur sé aðeins átt við lán, sem sjóðstjórnin að athuguðu máli telur rétt að veita. Það er mjög einkennilegt að heyra það frá hv. 4. landsk., sem hann hefir nú talað hér, því að ég veit ekki betur en að hann sé í stjórn skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda. Ég vil fyrir mitt leyti taka það skýrt fram, að ég tel, að stjórn sjóðsins sé spursmálslaust skyldug til að neita um þau lán, sem hún sér, að farið er fram á til greiðslna á skuldum, sem hún sér, að eru tapaðar, því að ef slík lán væru veitt, þá væri þessi löggjöf ekki fyrir vélbátaeigendur, heldur fyrir þeirra skuldheimtumenn. En það hefir ekki verið meining löggjafans.