18.03.1937
Neðri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 45 í C-deild Alþingistíðinda. (1301)

43. mál, opinber ákærandi

*Bergur Jónsson:

Það er nú orðið nokkuð langt síðan þetta frv. var til umr. hér. Hæstv. forsrh. og hv. 1. landsk. komu þá fram með sínar aths. við það, en ég vil þó fara um það nokkrum orðum, einkum vegna þess, að í grg. þess er ráðizt á lögfræðinganefndina.

Hv. flm. ber sig illa yfir því, að frv. skuli ekki hafa náð samþykki 1934. En ástæðan til þess, að svo var ekki gert, þótt margir hafi án efa verið samþykkir efni þess í höfuðdráttum, var sú, að á því þingi var samþ. þáltill. um skipun n. til að rannsaka réttarfarslöggjöfina til frambúðar. Það var því engin ástæða til að fara að taka einn þátt hennar út úr með samþykkt þessa frv., síst þar sem ákvæði þessi hefðu ekki komið að notum, þar sem þau hefðu ekki samrýmzt réttarfarslöggjöfinni. En auðvitað er nauðsynlegt, að þegar gengið er frá lögum um þetta efni, verði þau í samræmi við hina almennu réttarfarslöggjöf.

Síðan 1934 hefir komið frá n. þeirri, er athuga skyldi réttarfarslöggjöfina, heildarlöggjöf um einkamál í héraði. Var fullkomlega eðlilegt, að n. sneri sér að þeim hluta réttarfarslöggjafarinnar fyrst, þar sem það mál var þegar nokkuð undirbúið og þörfin til endurbóta enn ríkari en í hinum opinberu málum vegna hinnar skriflegu málafærslu, sem tafði svo mjög fyrir og gerði mönnum torvelt að ná rétti sínum. Þannig var margt fleira í rekstri einkamála, sem við töldum fyrst og fremst þörf á að lagfæra.

Síðan nefndin lauk við samning þessara 1. hefir hún unnið að lagasetningu um rekstur opinberra mála. Að vísu hefir orðið dráttur á því, að þeirri lagasetningu yrði lokið. Ég hefi um langan tíma verið fjarverandi sökum veikinda, og hinir nm. hafa orðið að sigla, og þing hafa verið löng. En ég tel, að í máli sem þessu eigi ekki að leggja aðaláherzluna á flýtinu. Frv. um einkamál í héraði hafði fengið rækilegan undirbúning, enda lá það lengi fyrir þingi, án þess að nokkrar breytingar kæmu fram við það, er væri til verulegra bóta.

Ég varð nú að vísu ekki var við, að hv. flm. segði, að við hefðum vanrækt þetta mál vísvitandi. En hann sagði, að við hefðum lofað afgreiðslu þess 1935, en það er ekki rétt. En hinu lofuðum við að ganga eins vel frá þessum málum og hægt væri. Við gerum í till. okkar ráð fyrir saksóknara, en þar eru ákvæðin um hlutverk hans fyllri og í samræmi við önnur ákvæði um rekstur opinberra mála.

Það væri því aðeins fljótfærni að fara að samþykkja þetta frv. nú. Það var tilætlun okkar að leggja frv. okkar um opinber mál fyrir þetta þing, og við vonum, að það takist, áður en því lýkur, en við munum þó leggja aðaláherzluna á það, að ganga vel frá lögunum, og það, að mönnum gefist kostur á að athuga málið sem bezt.

Ég vil í þessu sambandi drepa á ákvæði 2. gr. frv. og skýringar flm. á þeim. Þar er tekið fram, að hinn opinberi ákærandi megi ekki hafa nein launuð störf á hendi, hvorki fyrir opinberar stofnanir, félög né einstaka menn, og dregur hann af því þá ályktun, að hinn opinberi ákærandi standi utan við alla stjórnmálaflokka. Ég sé ekki, að í þessu sé nein trygging fyrir því. Eftir stjskr. hafa allir kjörgengi, nema dómarar í hæstarétti. Hér er aðeins um umboðsstarf að ræða, og því væri stjórnarskrárbrot að banna þessum embættismanni að eiga sæti á þingi. Annað mál er það, hvort rétt væri að breyta stjskr. í það horf. Hitt nær auðvitað engri átt, að banna þessum manni að taka laun fyrir ritstörf eða eiga sæti í opinberum n., eins og t. d. forseti hæstaréttar má nú.

Út í grg. frv. mun ég ekki fara að sinni. Hv. flm. talar þar um misbeitingu ákæruvaldsins fyrr og síðar, og þykist ég vita, að hæstv. dómsmrh. svari þeim ásökunum. Hann nefnir sem dæmi rannsókn, er fyrirskipuð hafi verið á bæjarstjórnina í Vestmannaeyjum. En sú rannsókn var fyrirskipuð af atvmrh. og því alveg umboðslegs eðlis.

Ég teldi réttast, að þetta mál yrði ekki látið fara lengra, þótt ég geri það ekki að neinu kappsmáli.