18.03.1937
Neðri deild: 21. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í C-deild Alþingistíðinda. (1302)

43. mál, opinber ákærandi

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég mun ekki ræða frv. sjálft, en mun víkja að einum kafla í grg. Þar segir svo á bls. 2:

„Öll framkoma stjórnarflokkanna í þessu máli sýnir berlega hug þeirra og heilindi. Þeir þykjast fyrir kosningar 1934 vera eindregið fylgjandi skipun opinbers ákæranda, því að þeir vita, að þetta er vinsælt mál með þjóðinni og réttlátt mál. En þegar málið er borið fram á þingi, þvælast þeir fyrir, fresta því og svæfa. Hvers vegna? Vegna þess, að nú hafa þeir ákæruvaldið í sínum höndum og möguleikann til að misbeita því eftir geðþótta. Það er líka óspart gert, eins og síðar mun sýnt rækilegar; en hér nægir að nefna það alræmda hneyksli, þegar alvarlegri ákæru á hendur meiri hluta bæjarstjórnar á Ísafirði er stungið undir stól, en síðan er einn hinna ákærðu Ísfirðinga skipaður rannsóknardómari yfir bæjarstjórn Vestmannaeyja.“

Ég fæ nú ekki séð, hvernig á því stendur, að þessi fullyrðing, sem er auðvitað alveg rakalaus, skuli standa í frv. um opinberan ákæranda. Þær kærur, sem hér ræðir um, eru allt annars eðlis. Sá ráðh., sem fer með yfirstjórn bæjarmálanna, getur auðvitað heimtað allar skýrslur um stjórn og fjárhag bæjarfélaganna. En slíkt kemur ekki neinum sakamálaákærum við. Ef um slíkt væri að ræða, ætti að senda kærurnar til hlutaðeigandi eða dómsmrn.

En nú skal ég víkja nokkuð að Vestmannaeyjum. Um haustið 1934 fékk kaupstaðurinn £ 5000 lán úr ríkissjóði samkvæmt heimild Alþingis. Ýmsar eignir bæjarins voru veðsettar fyrir þessu láni. En 1935 eru ýmsar þessar eignir auglýstar til sölu til greiðslu á skuldum bæjarins. 4. júlí 1935 skrifar fjmrn. svo hljóðandi bréf til atvmrn.:

„Hinn 4. desember s. l. fékk Vestmannaeyjakaupstaður lán hjá The Pearl Assurance Company Limited, að fjárhæð £ 5000,—,—; og gekk ríkissjóður í ábyrgð fyrir láni þessu samkvæmt heimild í þingsályktun 29. nóv. s. l. Var til þess ætlazt, að kaupstaðurinn notaði lánsfjárhæðina fyrst og fremst til þess að greiða gjaldfallna vexti og afborganir af lánum sínum.

Nú hefir komið í ljós, að Vestmannaeyjakaupstaður hefir vanrækt að greiða hina ýmsu gjaldföllnu vexti og smáskuldir, og hafa hinar ýmsu eignir kaupstaðarins verið auglýstar til sölu á opinberu uppboði, og jafnvel hefir stjórn kaupstaðarins látið undir höfuð leggjast að greiða vexti og afborganir af lánum, er hvíla með fyrsta veðrétti á spítala kaupstaðarins, sem veðsettur var ríkissjóði með öðrum veðrétti til tryggingar láni þessu, og það jafnvel þótt vextir þessir og afborganir hafi fallið í gjalddaga, áður en kaupstaðurinn gaf ríkissjóði veð í eigninni.

Út af þessu telur fjármálaráðuneytið rétt, að látið verði athuga, til hvers Vestmannaeyjakaupstaður hefir varið þeim £ 5000–0–0, er hann fékk að láni og ástæður þess, að ekki voru greiddar hinar nauðsynlegustu greiðslur vaxta og afborgana þegar í stað er lánið var fengið.“

Þetta varð til þess, að atvmrn. fól Jóni Guðmundssyni endurskoðanda að fara til Vestmannaeyja til þess að kynna sér, hvernig lánsupphæðinni hefði verið ráðstafað, og jafnframt kynna sér almennt fjárreiður kaupstaðarins, eftir því sem við yrði komið á þeim stutta tíma, sem hann hafði til umráða. Endurskoðandinn fór síðan til Vestmannaeyja og kynnti sér þetta og lét rn. í té gögn um málið, sem sýndu, að kæran hafði verið á rökum byggð, en það tókst að fá viðbótarlán og koma þessu, sem mest var aðkallandi, í lag. Rn. lét svo þetta falla niður um leið og þessum vangreiddu skuldum var komið í lag, þannig að ekki skertist sú trygging, sem átti að standa fyrir láni því, er ríkissjóður gekk í ábyrgð fyrir. Um bókhald og annað slíkt var sagt, að ýmsu hefði verið ábótavant, en það færðist til betra horfs, eftir að hinn nýi gjaldkeri tók við störfum. Hinsvegar vannst ekki tími til að gera fullkomna athugun á fjárreiðum kaupstaðarins, því að tími endurskoðandans var naumur. — Svo líður fram til 30. marz 1936. Þá kærir minni hluti bæjarstjórnar í Vestmannaeyjum meiri hl. bæjarstjórnar og bæjarstjóra fyrir ýmiskonar afbrot. Ég hirði ekki að rekja þessi kæruatriði. Þau voru mörg. En með tilliti til þess, sem áður hafði gerzt, og með tilliti til þess, sem fyrir lá, að bæjarstjórnin hafði vanrækt að halda fundi, leggja fram reikninga og gera áætlanir á tilsettum tíma, þá þótti ekki verða hjá því komizt, að gera athugun á kæruatriðum þeim, sem fram voru borin, ekki á þann hátt, að opinber rannsókn væri sett á bæinn, eins og hér er gefið í skyn í grg. frv., heldur þannig, að ráðuneytið fól Ingólfi Jónssyni lögfræðingi, sem áður hafði verið bæjarstjóri á Ísafirði, að athuga reikningshald og fjárreiður kaupstaðarins. Ástæðan fyrir því, að sá maður varð fyrir valinu, var í fyrsta lagi sú, að hann er mjög kunnugur reikningshaldi bæjarfélaga og glöggur og fljótur að átta sig á slíkum hlutum, og í öðru lagi hafði hann samtímis erindum að sinna í Vestmannaeyjum, þannig að við það sparaðist nokkur kostnaður. Þessi maður gaf svo rökstudda skýrslu um það, sem áfátt þótti hjá bæjarstjórninni. Sumt var tekið til greina, enda séð, að það var rétt. Annað var aftur smærra eðlis, og eftir móttöku skýrslunnar ritaði rn. bæjarstjórninni og skaut því til hennar að bæta ráð sitt, en lét að öðru leyti svo búið sitja. — Að því er snertir kæruna á hendur meiri hl. bæjarstjórnar Ísafjarðar, þá var rn. kunnugt um það mál af eldri bréfaskriftum, því að það hafði veitt bæjarstjórninni heimild til þess að ganga í ábyrgð og til lánveitinga í því skyni, sem um ræðir í þessari kæru. Kæran var nú samt sem áður send til umsagnar forseta bæjarstjórnar, og sú umsögn taldi ráðuneytið, að upplýsti málið til fulls eftir atvikum. — Í sama mund barst einnig kæra á hendur Jóni Auðun Jónssyni bæjarstjóra á Ísafirði frá meiri hl. bæjarstjórnar þar, fyrir það, að hann vanrækti að framkvæma ákvarðanir bæjarstjórnar og breytti gegn þeim, og sumpart vegna þess, að hann hefði opinberlega gefið ranga skýrslu um efnahag bæjarins, sem var til þess fallin að veikja traust á honum. Jafnframt var talað um það í kærunni, að rannsókn yrði á þessu gerð og að rn. hlutaðist til um það, að maðurinn hyrfi frá embætti. Nú hlutaðist það svo til, að Jón Auðun Jónsson sagði sjálfur af sér bæjarstjórastöðunni, en hin önnur atriði í kærunni þóttu upplýst þannig, að ekki væri ástæða til að setja það frekar í rannsókn.

Ég fæ ekki betur séð en að bæði þessi mál hafi fengið eðlilegan og vanalegan gang í rn. og að engri hlutdrægni hafi verið beitt. En ég vil undirstrika það, sem ég sagði í upphafi máls míns, að hér er ekki um að ræða neitt það, sem snertir efni þessa frv., sem hér liggur fyrir. Hér er aðeins um að ræða athugun, sem gerð var af atvmrn., sem hefir yfirstjórn bæjar- og sveitarstjórnarmálefna. Ef um saknæmt mál hefði þótt að ræða, þá hefði að sjálfsögðu verið hægt að snúa sér til dómara eða til dómsmrn. beint um kæru í því efni.