05.04.1937
Efri deild: 32. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 46 í B-deild Alþingistíðinda. (131)

16. mál, skuldaskilasjóður vélbátaeigenda

*Jón Baldvinsson:

Ég þykist vita, að hv. 1. þm. Skagf. hafi svo mikla nasasjón af þessum kreppulánum, að hann viti, að ekki lítill hluti þeirra hefir gengið til þess að greiða skuldir, sem voru tapaðar. Hann hefir sjálfur verið í þeirri stj., sem fjallað hefir um kreppulán til sveitar- og bæjarfélaga, og ég geri ráð fyrir, að þar hafi einnig verið veitt slík lán. Þegar ég tala um töpuð lán, þá miða ég við, að skuldirnar væru úrskurðaðar tapaðar, ef skuldunautarnir væru gerðir upp með gjaldþrotaskiptum. Þegar skuldaskilasjóður hefir gert upp frv. til skuldaskila fyrir vélbátaeigendur, þá hefir það verið venjan, að greiða þær kröfur, sem ekki hefir verið veð fyrir, með mjög lágri prósentu. En ég hygg, að í langflestum tilfellum sé hver eyrir af þessum skuldum tapaður. En að greiða a. m. k. eitthvað sárlítið af þeim er nauðsynlegt til þess, að viðkomandi skuldunautur geti fengið skuldaskil, þó að sú greiðsla sé ekki nema 2% af skuldinni eða skuldunum, og þó að jafnvel þessi 2% skuldarinnar hefðu alls ekki verið greidd við uppgerð til gjaldþrotaskipta. Hjá svona greiðslum verður ekki komizt, ef sjóðurinn á að starfa eftir þeirri löggjöf, sem honum var sett. Og ef frv. þetta nær fram að ganga, mun, eftir 2. málsgr. þess, vera ætlazt til, að slíkar greiðslur verði inntar af hendi, nefnilega greiðslur á nokkru af skuldum, sem í raun og veru eru tapaðar. Ég hygg, að hv. 1. þm. Skagf. sjái þetta, þó að í þessari gr., eins og hv. 2. þm. S.-M. hefir bent á, sé nokkuð óljós tilvitnun í l. um skuldaskilasjóð vélbátaeigenda.

Það er náttúrlega vafasamt með alla þessa kreppuhjálp, hvort hún kemur að nokkru gagni, án þess að jafnframt séu gerðar ráðstafanir til þess, að þeir atvinnuvegir, sem hún er veitt til hjálpar, geti orðið reknir á heilbrigðum grundvelli og með viðunandi árangri. (BSt: Gengisfall).