24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 81 í C-deild Alþingistíðinda. (1320)

43. mál, opinber ákærandi

*Bergur Jónsson:

Hv. 8. landsk. deildi á lögfræðinganefndina fyrir það, að hún skyldi ekki hafa lokið störfum fyrr en þetta. Honum er það vel ljóst, að aðstæður voru þannig, að það var alls ekki hægt. Hann sagði, að n. hefði ekkert gert að því að endurskoða réttarfarið; það eina sem hún hefði gert, hefði verið að líta yfir frv., og hún hefði engu breytt. Ég get nú upplýst það, að því var breytt. Það var alls ekki nein sönnun fyrir því máli, að ekki megi breyta frv., þótt greinatölum sé ekki breytt. Við afgreiðslu frv. var hverri gr. breytt að meira eða minna leyti, en allar greinatölur voru látnar óbreyttar, svo að þetta eru af hálfu þm. og lögfræðings mjög barnaleg rök, og ég veit, að þessum hv. þm. er það kunnugt, að frv. var mikið breytt, og hann hefir ekkert leyfi til að standa hér og tala um það, sem hann veit ekkert um, því að hann veit ekkert um okkar störf í n. og það er ekki heldur nein afsökun, að við höfum ekki endurskoðað frv. Hann vill halda því fram, að við hefðum átt að leggja fyrir síðasta þing frv. um opinbera réttarfarið, en eins og honum er kunnugt, var það ekki hægt vegna veikinda minna. Það er t. d., eins og hv. 1. landsk. benti á, að það þurfti að athuga ýmislegt í sambandi við þetta frv. og koma sér saman um ýmislegt viðvíkjandi því, vegna þess að aðstæður eru hér þannig, að þær fyrirmyndir, sem við fáum úr erlendum lögum, eiga ekki í öllum atriðum við hér, og það verður að breyta miklu frá þessum fyrirmyndum, sem við fáum erlendis frá. Ég veit, að ef hv. 8. landsk. leggur athugun hér á, þá skilur hann, að þetta er ekkert áhlaupaverk, sem hér er um að ræða, og það hefir nú þegar verið lögð mikil vinna í þetta, og það getur gert ósamræmi í lögin, ef farið er að gera breyt. á þeim í þingsölunum. Þessi hv. þm. þurfti heldur ekki að spyrja um opinbera réttarfarið, því að við höfum lagt afarmikla vinnu í að endurskoða það. Það mál hafa hv. 11. landsk. og hv. 8. landsk. ekkert um talað, eins og grg. frv. ber með sér. Það eina, sem þeir hafa gert, er framburður þessa illa undirbúna frv., sem hér liggur nú fyrir.

Hv. 11. landsk. heldur því fram, að ákæruvaldinu hafi verið misbeitt af framsóknarmönnum, og segir, að hv. 2. þm. Reykv. hafi tekið útdrátt úr dómabókunum og gefið upplýsingar um málið, en hv. þm. athugaði það ekki, að þetta var misbrúkun hv. 1. þm. Skagf., sem þá var ráðh., en ekki Framsfl. Þá talaði hv. þm. um, að Jónas Jónsson hefði ekki breytt rétt, þegar hann höfðaði mál gegn hv. 1. þm. Skagf., og að kommúnistar hefðu birt þýzka samninginn, og að þær upplýsingar hefðu komið úr stjórnarráðinu. Getur þessi hv. þm. látið sér sæma að draga götumál inn í þingsalinn. Afstaða íhaldsins í öllum þessum málum hefir verið sú, að það vill sleppa sökudólgnum, en áfella og dæma vitnin. Loks vildi ég benda á það, að í frv. er ekkert ákvæði um það, hvað hinn opinberi ákærandi á að gera.