14.04.1937
Efri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 90 í C-deild Alþingistíðinda. (1339)

51. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Herra forseti Það virðist ekki þurfa að orðlengja um þetta mál, því frv. fylgir ýtarleg grg. frá formanni Ungmennasambands Borgarfjarðar, og skilgreinir hann þar vel, hvaða starf þetta samband hefir með höndum. Má t. d. benda á, að þegar héraðsskólinn í Reykholti var byggður, tók það að sér 20 þús. kr. af byggingarkostnaðinum. Sambandið hefir einnig með höndum ýmiskonar starfsemi, sem miðar að þrifum þjóðfélagsins og menningu. Ég álít því, að það sé sanngjarnt að verða við tilmælum félagsins og að það sé losað undan þeim skatti, sem viðkomandi hreppsnefnd er leyfilegt að leggja á skemmtanir þess. Á ég þar fyrst og fremst við héraðsmótið, því upp úr því mun hafa verið mest að hafa.

Ég hygg, að menntmn. sé öll sammála um að leggja til, að þetta frv. verði samþ. óbreytt. Sé ég svo ekki ástæðu til að fara um þetta fleiri orðum.