14.04.1937
Efri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 91 í C-deild Alþingistíðinda. (1343)

51. mál, skemmtanaskattur

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Út af brtt. hv. 4. landsk. vil ég taka það fram, að ég teldi æskilegt, að hún yrði tekin til meðferðar í menntmn., áður en fram fer um hana atkvgr. Það geta komið svo mörg félög önnur til greina en þessi. Það má taka öll félög á landinu, því það munu vera fá af þeim, sem ekki halda starfsemi sinni að meira eða minna leyti uppi á skemmtunum.

Mér finnst þetta dálítið annars eðlis, þar sem um ungmennafélögin er að ræða. Allir vita, að þau hafa tekizt á hendur allmikið starf í þágu menningarmálanna. Þau eru ekki eingöngu skemmtifélög.

Mér er ekki persónulega kunnugt þetta Ungmennasamband Borgarfjarðar, en ég sé í grg., að það hefir innt mikið og þarft starf að hendi.

Ég ætla ekki að rýra eða lasta verkalýðsfélögin á neinn hátt. Ég álít, að þau hafi fyllsta rétt til fríðinda á við hvern annan. En ég get þó ekki borið þetta saman. Ég veit ekki til, að verkalýðsfélögin hér í Reykjavík hafi gengizt fyrir samskonar eða neitt svipaðri starfsemi og ungmennafélögin. Þau hafa barizt fyrir bindindisstarfsemi, fyrir skógrækt og yfirleitt fyrir menningu og menntun yngstu kynslóðarinnar. Og mér finnst því, að þetta Ungmennasamband Borgarfjarðar, sem fer fram á þessa tilslökun á skemmtanaskattinum, eigi fullkomlega skilið, að fá þessu framgengt.

Ég vil svo mælast til þess við hæstv. forseta, að till. 4. landsk. verði vísað til menntmn. áður en greidd verða um hana atkv. hér.