14.04.1937
Efri deild: 40. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 92 í C-deild Alþingistíðinda. (1344)

51. mál, skemmtanaskattur

*Jón Baldvinsson:

Tók ég rétt eftir því hjá hv. 5. landsk., að þm. væri ekki kunnugt um, að verkalýðsfélögin hefðu haft neina menningarstarfsemi með höndum? Ég er hræddur um, að þm. hafi sagt þetta af misgáningi. (GL: Ég veit ekki til þess). Það kann að vera, að ókunnugleiki geti afsakað slík ummæli.

Ég hygg, að verkalýðsfél. hafi lagt ríflegan skerf til menningarstarfseminnar. Ég skal aðeins benda hv. þm. á eitt mál, sem ég veit, að hann skilur. Eftir að verkalýðsfélög voru stofnuð hér, var miklu minna um drykkjuskap meðal verkamanna en áður, vegna þess að félögin höfðu og hafa það markmið að láta menn líta stærra á sig og gera þá sjálfstæðari í hugsun. Og einnig í þessum efnum hafa þau þroskað menn, og það segja allir, sem til þekkja, að eftir að þau fóru að starfa, hafi miklu meiri bindindisstarfsemi verið innan stéttarinnar en áður. M. a. hafa verkalýðsfélögin átt sinn þátt í því, að koma í veg fyrir, að verkamenn „héngju við diskinn“, eins og það var kallað og algengt var hér áður fyrr. Þau hafa alið menn upp til þroska og sjálfstæðis og líka til þess að standast þá freistingu að drekka áfengi.

Ég hygg, að með allri virðingu fyrir bindindisfélögunum, þá hafi þau tæplega gert meira en verkalýðsfélögin í þessum efnum, þó að þau hafi ekki beinlínis haft þetta mál á stefnuskrá sinni. Þetta hefir alltaf verið þeirra mál og hlýtur alltaf að vera það. — Ég get ekki afsakað það með öðru en ókunnugleika hv. þm., að hann skyldi láta sér þau orð um munn fara, að sér væri ekki kunnugt um, að verkalýðsfélögin hefðu unnið neitt menningarstarf.

Þá er mikill munur á því, hvað verkamennirnir eru nú miklu sjálfstæðari gagnvart atvinnurekendunum en áður. Þeir þurfa nú ekki að skríða flatir fyrir hverjum dólgnum, sem hefir vinnu upp á að bjóða. Og þeir hafa verið losaðir úr þeirri klípu, að þurfa að koma fram fyrir atvinnurekandann hver og einn. Þetta er mikill munur út af fyrir sig. Og ég veit, að ef hv. þm. kynnir sér starfsemi verkalýðsfélaganna, ekki einungis hér á landi, heldur líka annarsstaðar, þá mun hann komast að raun um, að þau eiga ekki hvað minnstan þátt í menningarstarfseminni.

Hvað snertir þessa brtt., þá get ég vel tekið hana aftur til 3. umr., eða þá að málið verði tekið út af dagskrá, ef hæstv. forseti vill það.