24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 126 í C-deild Alþingistíðinda. (1372)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

Hannes Jónsson:

Herra forseti! Orsökin til þess, að frv. þetta um skiptameðferð í búi h/f Kveldúlfs er komið fram, er talin vera sú í 1. gr. frv., „að h/f Kveldúlfur skuldar Landsbanka Íslands og Útvegsbanka Íslands um 5 millj. kr., auk annara skulda, og að vanskil hafa orðið um langan tíma á greiðslu vaxta af skuldum þessum, að félagið hafi verið rekið með tapi nokkur undanfarin ár og telja má ólíklegt, að eignir félagsins muni nægja fyrir skuldum þess“.

Þetta eru ástæður fyrir því, að flm. vilja lögbjóða, að skipuð sé nefnd til að meta eignir Kveldúlfs og að bú hans verði því næst tekið til skiptameðferðar sem þrotabú, ef félagið á ekki fyrir skuldum, miðað við söluverð eignanna nú. Það eru með öðrum orðum viðskipti Kveldúlfs við bankana, sem eiga að knýja fram samþykki á þessu frv. Engin ósk hefir þó komið frá bönkunum um þessa fyrirhuguðu löggjöf.

Eins og allir vita, er það þó að lögum á valdi bankastjóra og bankaráðs hvers banka, að ákveða um einstakar lánveitingar úr bankanum, og skylda þeirra að gæta hagsmuna hans gagnvart lántakendum. Ef Alþingi fer að hlutast til um viðskipti einstakra manna við bankana, án óska þeirra, hlýtur það að stafa af því, að það lítur svo á, að bankastjórnirnar hafi vanrækt skyldu sína. Með öðrum orðum, frv. er bein vantraustsyfirlýsing á stjórnir beggja bankanna. En það er vantraustsyfirlýsing á fleiri. Fjmrh. hefir yfirstjórn beggja bankanna í sínum höndum og getur gripið í taumana, ef honum finnst þörf, jafnvel rekið bankastjóra frá starfi. Er þetta frv. borið fram í samráði við fjmrh.? Sé það ekki, er frv. ennfremur vantraustsyfirlýsing til fjmrh. Það virðist því með frv. vera farið aftan að siðunum, þar sem borið er fram frv. um skipti á búi Kveldúlfs í stað þess, að bera fram vantraustsyfirlýsingu til fjmrh., rökstudda með því, að hann hafi vanrækt eftirlit sitt með bönkunum. Það getur ekki verið ætlunin, að Alþingi færi sjálft að hafa á hendi eftirlit með einstökum lánveitingum bankanna, a. m. k. væri sú hugsun algerlega óhæf. Þingið verður í því efni að treysta á trúnaðarmenn sína, bankaráðin og fjmrh., og ef það trúir þeim ekki, þá er það fjmrh., sem á að fara og nýr að koma í staðinn, sem þingið treystir betur til að kippa því í lag, sem aflaga þykir fara. Fleiri en ég munu telja vafasamt, að þetta sé meining flm. frv., og mun ég víkja að því síðar, hver hinn raunverulegi tilgangur þeirra er.

Það getur naumast hjá því farið, að í sambandi við þetta mál vakni menn til alvarlegrar umhugsunar um það, hvernig muni almennt ástatt um rekstur atvinnuvega þjóðarinnar. Eru fjárhagsástæður Kveldúlfs alveg sérstakt fyrirbrigði, sem á sér engan líka um lélega útkomu? Og ef svo er, hverjar eru ástæðurnar? Er félagið reist á þeim grundvelli, að vonlaust sé um fjárhagslega heilbrigða starfsemi, eða er stjórn þess svo ábótavant, að þangað megi rekja orsakir til þeirra fjárhagslegu örðugleika, sem fram eru komnir og verið hafa að skapast á mörgum undanförnum árum. Eða í öðru lagi: Er þetta aðeins spegilmynd af afkomu atvinnuveganna almennt í hlutfallslega stækkaðri mynd við það, sem þetta atvinnufyrirtæki er stærra en önnur? Og þá hlýtur sú spurning að vakna hjá öllum hugsandi mönnum, sem einhverja ábyrgðartilfinningu hafa: Hverjar eru orsakirnar og hvernig verður þeim rýmt úr vegi, svo að heilbrigt ástand geti aftur skapazt í atvinnumálum þjóðarinnar?

Það út af fyrir sig, að félagið er stórt, á marga togara og hefir rekið umfangsmikla fiskverzlun, getur ekki talizt neinn þrándur í götu hagkvæmrar útkomu í rekstri félagsins, a. m. k. ekki í augum þeirra manna, sem vilja hafa alla togaraútgerð undir einum hatti ríkisrekstrar. Enda eru þá meiri ráð til endurbóta og fullkomnunar á framleiðslutækjunum, meðferð framleiðsluvaranna og til nýrra markaðsleita. Hinsvegar má segja, að svona stórt atvinnufyrirtæki henti að mörgu leyti ekki voru litla þjóðfélagi, vegna þess að of margir freistast til að dansa í kringum þennan gullkálf. Máttur samtakanna ætti öllu frekar að birtast í samstarfi allra togaraeigenda, eins og hefir átt sér stað í fisksölusamlaginu. En því miður verður það að viðurkennast, að þessi samtök fengust ekki fyrir framsýni forgöngumannanna, heldur eru þau knúð fram af óhjákvæmilegri nauðsyn, og komu því seinna en æskilegt hefði verið, og hafa miklir fjármunir farið forgörðum af þeim ástæðum.

Um stjórn Kveldúlfs get ég að sjálfsögðu ekki dæmt til hlítar. En það hefi ég fyrir satt, að mikilsmetnir menn úr verzlunarstétt stjórnarliðsins telja a. m. k. einn framkvæmdastjóra Kveldúlfs úr hópi mikilhæfustu verzlunarmanna landsins. Að því hefir verið fundið, að framkvæmdarstjórum félagsins hafi verið greidd óhóflega há laun. Því hefir verið svarað á þá leið, að hlutfallslega væri framkvæmdarstjórn Kveldúlfs ódýrari en flestra annara útgerðarfyrirtækja meðal annars samvinnuútgerðarfélaganna. En hvað sem um þetta er, þá verður því varla neitað, að launin voru, hvað sem nú er, óhóflega mikil, og verður því ekki bót mælt með því að benda á annað, sem ekki er betra. Það getur og engum dulizt, að sú regla, sem áður gilti um laun skipstjóra, var svo gálausleg og gegndarlaus sem mest mátti vera. Jafnframt hóflausri launagreiðslu hvatti brúttóprósentukaupið til algerðs hirðuleysis um eyðslu veiðarfæra. Þetta gat að vísu gengið, meðan allt lék í lyndi í atvinnurekstrinum, en korn safnaðist ekki í hlöðurnar og skellurinn varð stærri en þurft hefði að vera, þegar tók að halla undan fæti. En þetta var ekki neitt sérstakt fyrir þetta eina útgerðarfyrirtæki. Svona mun það hafa verið hjá þeim flestum, ef ekki öllum. Nei, þótt ýmislegt hafi farið öðruvísi en æskilegt var í stjórn þessa atvinnurekstrar, þá hefir það ekki orðið afgerandi um afkomu hans, og margt af því, sem mest var ábótavani, er nú fært til betri vegar, þótt ennþá megi sjálfsagt gera þar á margar umbætur. Um skrifstofukostnað og forstjóralaun togaraútgerðarinnar segir Skipulagsnefnd atvinnumála í skýrslu sinni, bls. 488–489: „Þessi kostnaðarliður er því ekki svo hár og verður ekki lækkaður svo stórkostlega, að sú lækkun ein dragi langt til, að togaraútgerðin verði arðgæf, eins og nú horfir“. Orsakanna að því ástandi, sem nú er ríkjandi í togaraútgerðinni, er því að leita á öðrum sviðum en þeim, sem útgerðarmennirnir hafa aðstöðu til að ráða úrslitum.

Ég skal nú sýna lítilsháttar fram á, hvernig ástandið er hjá togaraútgerðinni almennt, og geri ég ráð fyrir, að það verði ekki talin hlutdrægni frá minni hálfu, þótt ég í því efni styðjist aðalega við skýrslur og álit skipulagsnefndar atvinnumála. Ég get að vísu ekki farið langt út í þetta mál og aðeins stiklað á helztu atriðunum. Nefndin telur, að togaraútgerðin hafi í heild verið rekin með tapi 7 síðastl. ár, og á bls. 482–483 er allnákvæmur útreikningur á rekstrarafkomu togaranna 1934 og 1935. Fyrra árið sýnir yfirlitið halla á rekstrinum, að upphæð 775 þús. kr., og síðara árið er hallinn 1705 þús. kr. Og á öðrum stað færir nefndin rök að því, að heildarútkoma togaranna 1936 hafi verið svipuð árinu á undan, því að þótt tapazt hafi um 1 millj. kr. meira á fiskinum, hafi það unnizt upp á síldinni. Niðurstaðan verður því sú, að á þessum 3 síðustu árum hefir heildartap togaranna numið 4¼ millj. kr. Samkvæmt skýrslum milliþingnefndar í sjávarútvegsmálum frá 1934 er tap á rekstri togaranna talið sem hér segir: 1930 1528 þús. kr., 1931 2774 þús. kr. og 1932 1403 þús. kr. Árið 1933 er talið gefa svipaða útkomu og árið á eftir eða 775 þús. kr. tap. Verður því tap þessara fjögra ára 6,5 millj. kr. tap.

Ekki er heldur glæsileg afkoman hjá smábátaútveginum, þótt hann sé af mörgum talinn svara betri útkomu en togaraútgerðin. Í skýrslu um starfsemi skuldaskilasjóðs vélbátaeigenda til ársloka 1936 er ýmsan fróðleik að finna í þessu efni. Af 122 lántakendum eru aðeins 5, sem áttu eignir umfram skuldir. Sá bezt stæði skuldaði 83% at matsverði eigna sinna. Hinir 117 áttu ekki fyrir skuldum. Hjá þeim manni, sem skuldaði hlutfallslega mest, voru skuldirnar 986% af eignum, en að meðaltali voru skuldirnar rúmlega 158% af eignunum. Alls námu skuldir þessara útgerðarmanna 6008 þús. kr., og voru afskrifaðar um 2807 þús. kr., eða um tæp 47%. Afskriftin á lausu skuldunum varð þó margfalt meiri, eða að meðaltali 93½%. Minnsta afskrift lausra skulda var 46%, en mesta afskrift 98%.

Að sjálfsögðu hefir tap þessara smábátaeigenda verið miklu meira en hér kemur fram í vanskilum á greiðslum til kröfuhafa. Sparað fé hefur tapazt og fjármunir eyðzt.

En útgerðarmennirnir eru ekki einir um að bera tap af atvinnurekstri sínum. Bændurnir eiga líka sína sögu. Og í skuldaskilum þeirra við kreppulánasjóð runnu 8 millj. kr. út í sandinn. Þessi útkoma í rekstri tveggja aðalatvinnuvega þjóðarinnar eru staðreyndir, sem reynsla undanfarandi ára hefir dregið fram í dagsljósið. Það er vitanlegt, að nokkur mismunur er á rekstri hinna einstöku atvinnufyrirtækja. Örfáar undantekningar verða til þess að staðfesta regluna. Í togaraflotanum eru það helzt yngstu togararnir, sem hægt er að fleyta skammlítið áfram, og má vera, að það sé mest fyrir þær sakir, að of lítið sé ætlað til afskriftar og fyrningar. Enginn maður skyldi ætla, að á þessu ástandi verði bót ráðin með því, að taka einstöku atvinnufyrirtæki út úr heildinni og gera þau upp samkvæmt gjaldþrotalögunum; orsökin að meinsemdinni er jafnframt til eftir sem áður. Fyrirtækið skiptir um eigendur og verður væntanlega rekið áfram. Hinir nýju eigendur safna skuldum vegna taps á rekstrinum, og áfram sigla þeir hraðbyri inn í höfn óreiðunnar, sem fyrirrennarar þeirra sukku í.

Myndi nú nokkur menningarþjóð vera svo dáðlaus að halda að sér höndum og hafast ekki að, eftir að fullkomlega er ljóst, hvernig ástandið er? Hagfræðileg reynsluþekking er nú svo mikil í heiminum, að ástæðulaust er fyrir nokkra þjóð að fara alveg framhjá henni. Þessu hefir nú hæstv. ríkisstj. ekki heldur verið algerlega blind fyrir. Hún útvegaði sænskan hagfræðing skipulagsnefnd atvinnumála til aðstoðar. En hvorki n.ríkisstj. bar gæfu til að notfæra sér starfskrafta eða störf þessa manns, svo að hagkvæmum notum kæmi í viðreisn atvinnuveganna. Hvar var meiri þörf umbóta en einmitt á þessu sviði? Var ekki jafn nauðsynlegt að finna ráð til þess, að koma þessum aðalatvinnuvegi vorum á starfshæfan grundvöll, eins og að stofna til nýrra atvinnugreina. Ég viðurkenni fúslega, að það er nauðsynlegt að efla sem fjölbreyttasta framleiðslu og iðnað í landinu. En hvað gagnar það, ef allri framleiðslu í landinu er bundinn sá baggi, sem hún fær ekki undir risið? Þetta var hinum sænska hagfræðingi vel ljóst. Hann undraðist, að atvinnuvegir þjóðarinnar þyldu þá raun, að teknir væru 30 aurar af hverri krónu, sem þeir öfluðu, með ranglátu gengi krónunnar, og lét hann fullkomlega í ljós, að slíkt myndi enginn atvinnuvegur þola til lengdar. En hvað hafa stjórnarflokkanir gert í þessu máli? Bókstaflega ekkert. Framsfl. telur, að innstæðueigendur tapi á gengislækkun, og sósíalistar bera ímyndaða hagsmuni verkamannastéttarinnar fyrir brjósti. En báðar þessar ástæður eru haldlausar, þegar á reynir, og munu menn sannfærast um það, áður en lýkur. Innstæðueigendum er því aðeins hagur að hágenginu að bankarnir, sem ávaxta innstæður þeirra, starfi á fjárhagslega heilbrigðum grundvelli. En ef atvinnuvegirnir hlaða árlega upp skuldum í bönkunum vegna árlegs rekstrarhalla, gæti svo farið, að innstæðueigendur vöknuðu um síðir við þann vonda draum, að innstæða þeirra væri ekki aðeins lækkuð í verði, heldur horfin með öllu — orðin einkisvirði — þetta hefir hent aðrar þjóðir, og því ætti það ekki að geta hent okkur líka? Þá hefði það eitt áunnizt með þessari gálausu fjármálastarfsemi, að þjóðin hefði sogazt með atvinnuvegunum niður í botnlaust fen fjármálaóreiðu og gjaldþrots og glatað fjárhagslegu og pólitísku sjálfstæði sínu, en landið orðið að fótaskinni einhverrar þeirrar þjóðar, sem hefir vilja og vit á að notfæra sér auðlindir þess betur en við bárum gæfu til. Og verkamönnunum getur aldrei stafað nein gæfa af stöðugu tapi atvinnuveganna, því að í það kjölfar fylgir aukið atvinnuleysi. Alstaðar er dregið úr framkvæmdum, sem unnt er, og þótt ríkisstjórn og bæjarstjórn reyndu að draga úr bölinu með atvinnubótavinnu, þá mundi það lítið stoða, því að auk þeirra manna, sem yfirgæfu framleiðsluna, bætast nú árlega á 6. hundrað manns í hópinn samkvæmt þeirri fólksfjölgun, sem verið hefir hjá þjóðinni undanfarin ár. Og einmitt fyrir hina tiltölulega öru fólksfjölgun er meiri þörf hér en víða annarsstaðar á útfærslu atvinnuveganna, verkamönnum er meiri þörf á stöðugri vinnu, sem skapar þeim öryggi um afkomu ársins, en háu tímakaupi, sem sú hætta fylgir, að geta orðið þá og þegar atvinnulausir.

Bændafl. telur það ekki hlutskipti sitt, að hanga í hælunum á einstökum framleiðendum, meðan þeir starfa eftir lögum landsins. Hitt vill hann styðja af öllum mætti, að fullkomið jafnvægi haldist milli fjárhagslegrar afkomu framleiðenda og annara stétta þjóðfélagsins. Í samræmi við þessa stefnu hefi ég flutt á tveimur síðustu þingum frv. um réttláta skráningu krónunnar. Allir hinir flokkar þingsins hafa sýnt þessu máli fullkomið tómlæti. Ég er búinn að víkja að afstöðu stjórnarflokkanna. Um Sjálfstfl. er það vita, að hann er algerlega klofinn í málinu, þó að flokkurinn hafi verið að berja í þá bresti með því að þegja um málið. En slík afstaða hjá stærsta flokki þingsins getur ekki staðizt lengi. Annaðhvort verður flokkurinn að taka hreina afstöðu í þessu máli eða hann hættir brátt að vera stærsti flokkurinn.

Ég veit, að fræðilega eru til fleiri en þessi eina leið til þess að koma atvinnulífi þjóðarinnar á heilbrigðan rekspöl, en þær munu allar reynast erfiðar í framkvæmd eða jafnvel óframkvæmanlegar. Það væri þó afsakanlegt, að stjórnmálaflokkarnir bentu á einhverja af þessum leiðum. Hitt er óforsvaranlegt, og ætti ekki að líðast neinum flokki, að koma ekki með neitt og neita öllu, sem til úrlausnar gæti orðið í þessu stærsta vandamáli þjóðarinnar, því að ég geri ráð fyrir, að það vinnist þó við þetta þref um Kveldúlf, að mönnum verði það almennt ljósara en áður, að hér þarf skjótra úrlausna, ef ekki á allt að fara í kalda kol. Sérstaklega ber öllum þeim, sem telja sig fulltrúa framleiðenda, skylda til að benda á leiðir út úr ógöngunum. Reynir nú á þá, sem telja sig vera jákvæða í pólitíkinni, ef það er annað en mont eitt og karlagrobb. Og sósíalistarnir ættu ekki að spila svo djarft spil, að leggja fjárhagslegt sjálfstæði þjóðarinnar í hættu fyrir það eitt, að koma sjálfstæðum einkaatvinnurekstri fyrir kattarnef. Með því ætti þjóðnýtingin — jafnvel í þeirra augum — að vera of dýru verið keypt.

Ég mun nú sýna fram á, hvernig afstaða stjórnarflokkanna hvors um sig er í þessu máli. Þá ber fyrst að minna á, að undanfarin áratug hefir Framsfl. skipað form. bankaráðs Landsbankans, og á þeim tíma er að mestu stofnað til skulda Kveldúlfs við bankann. Það fé virðist því hafa verið veitt með samþykki þessa flokks, ekki sízt þegar tillit er tekið til þess, hve háttsettur þessi maður er í Framsfl. og hve mikils trausts hann hefir notið þar. Það ber heldur ekki á öðru en að sá bankastjórinn sem talinn er að hafa þar mest völd, hafi í öllu starfi sínu verið mjög að skapi Framsfl. A. m. k. er mönnum ekki úr minni liðinn hólgreinin sú hin mikla, sem ritfærasti maður Framsfl. skrifaði um hann fyrir nokkrum árum. Var tónninn þar allur líkastur því, sem tíðkast í almennum líkræðum. En þrátt fyrir þetta mikla traust, sem yfirstjórn bankans virðist njóta hjá forráðamönnum Framsfl., þá hafa verið hafnar svæsnar árásir á það fyrirtæki, sem bankinn trúði fyrir að ávaxta veltufé sitt framar öllum öðrum fyrirtækjum í landinu. Til þess að sýna, hve svæsnar þessar árásir hafa verið, ætla ég að leyfa mér að minna á nokkur ummæli Framsfl. blaðanna um Kveldúlf. Vitanlega er ekki tækifæri til að drepa á nema lítið eitt af því, sem fram hefur komið, því að svo má segja, að sjaldan hafi nú síðustu mánuðina komið svo út blað af dagblaði Framsfl., að ekki hafi eitthvað verið á Kveldúlf minnzt, og þá ætíð í sama dúr og hér verður gefið lítið sýnishorn af. Í vetur, þegar einn af forstjórum Kveldúlfs hélt fyrirlestur um árásir á fyrirtæki sitt, kom löng grein í Tímanum, er hét „Ólafur Thors segir sögu Kveldúlfs“. Eftir útreikningi blaðsins í þeirri grein er komizt að þeirri niðurstöðu, að „skuldir Kveldúlfs umfram eignir ættu þá að vera a. m. k. 2½ millj. kr.“. Og um tilboð Kveldúlfs, sem nánar er rætt í greininni, segir svo: „Ef Landsbankinn tæki tilboði Kveldúlfs, væri það hnefahögg í andlit allra þeirra, sem er það alvara, að standa í skilum sem heiðarlegir menn, og svívirðing við alla þjóðina“. Nýja dagblaðið hefir heldur ekki látið sitt eftir liggja með að láta fólkið vita, hverskonar hörmungarfyrirtæki Kveldúlfur sé. Eftir alla hina ágætu stjórn á Landsbankanum, sem búin er að vera í höndum Framsfl. í mestum áratug, segir Nýja dagblaðið 15. tbl. þ. á., að nú séu „bankar landsins að hugleiða það, hvernig þeir geti sloppið með minnst tjón út úr viðskiptunum við fyrirtæki Ólafs Thors“. Og svo bætir blaðið við: „Og niðurstaða þeirra hugleiðinga — með hliðsjón af lögum landsins — getur tæpast orðið nema á einn veg“. Hér er lesendunum ætlað að ráða grun í það, að endalok Kveldúlfs og viðskipti hans við bankann geti ekki orðið nema á einn veg, sem sé gjaldþrot fyrirtækisins og stórtöp fyrir bankann. Og eftir því sem lengra leið og árásir Alþýðublaðsins á Kveldúlf færðust í aukana, eftir því reyndi Nýja dagblaðið að fylgjast betur með og eftir því urðu ummæli þess um Kveldúlf og fjárhagslega aðstöðu hans til bankanna ákveðnari. Í 21. tbl. þ. á. segir, að það sé blygðunarlaus ósvífni af ÓTh að fara fram á það, að „eigendur“ Kveldúlfs (sem blaðið hefir í gæsalöppum til að sýna, að eignarétturinn sé vafasamur) fái eftirgjöf, samanborið við aðra atvinnurekendur í landinu, og þegar blaðið fullyrðir jafnframt, að Kveldúlfur skuldi 2,5 millj. kr. framyfir eignir, þá er það gefið, að ekki liggi annað fyrir heldur en gjaldþrot og uppgjör samkv. skiptalöggjöfinni. Stjórnin á Kveldúlfi á líka að hafa sýnt, að full þörf sé á, að breytt sé til. Henni er þannig lýst í einni greininni: „Mikil laun oft fyrir enga vinnu, vaxtalaus lán til að eignast dýrustu íbúðir í bænum, og svo að segja allt, ætt og óætt, sem þarf í heimilið“. Það er satt að segja engin furða, þótt nú fari blaðið bráðlega að krefjast eigendaskipta, enda virðist sú krafa vera sæmilega undirbyggð með þeirri lýsingu, sem það er búið að gefa á afkomu fyrirtækisins og stjórn þess. Í 24. tbl. Nýja dagblaðsins þ. á., tekur J. J. til máls á þessa leið: „Er ekki nokkuð dýrt að reka fyrirtæki á ríkiskostnað ár eftir ár með stórfelldri eftirgjöf af almannafé? Má ekki nota veltufé bankanna í atvinnurekstur, sem tapar minna en Kveldúlfur gerir undir núverandi yfirstjórn?“ Og af því að hann svarar þessum spurningum játandi, gerir hann ráð fyrir eigendaskiptum með þessum orðum: „Því skipin verða látin ganga alveg hiklaust, þó að Kveldúlfur láti þau af hendi við lánardrottna sína“.

Þannig verða kröfur Framsfl. alltaf ákveðnari um það, að Kveldúlfur verði gerður upp og skipin fái nýja eigendur og stjórn. Hámarki sínu ná skrifin um Kveldúlf í Nýja dagblaðinu 12. febr. síðastl., sama daginn og flokksþing framsóknarmanna var sett hér í bænum. Er sú grein eins og nokkurskonar stefnuskrá fyrir flokksþingið í Kveldúlfsmálinu. Skal ég með leyfi hæstv. forseta lesa úr henni eftirfarandi kafla til að sýna hverja afstöðu flokkssamkundan átti að taka í þessu máli:

„Þannig finnur þjóðin til. Ég þekki engan heiðarlegan eða óspilltan mann, sem lætur sér koma til hugar annað en skip og eignir Kveldúlfs verði að fá aðra húsbændur og aðra stjórn. Og menn eru nokkurnveginn sammála um, að það er ekki hið framkomna fjártjón eitt, sem er þjóðarmein. Ef til vill er sú spilling enn hættulegri, sem leiðir af því, að borgurum landsins sýnist eins og mestu óreiðumennirnir hafi mesta tiltrú. Þeim verði bezt til veltufjár. En þúsundum af duglegum og reglusömum atorkumönnum verði að neita um rekstrarfé, af því mörgu milljónirnar standa inni hjá sonum Thors Jensens í Reykjavík.

Þetta ástand verður að hætta. Dugandi menn á Íslandi láta ekki bjóða sér þá óvirðingu, sem í því felst, að gefa einu fjölskyldufyrirtæki allar þær milljónir, sem landið tók að láni erlendis til að vera varasjóður allra fjármálaviðskipta í landinu, og halda síðan áfram að leggja sparifé landsmanna í sömu hítina.

Vafalaust er allri þjóðinni orðið ljóst, hvað hér er um að ræða. Æfintýri Jensenssona er orðið of dýrt fyrir almenning í landinu. Leikur þessara dýrmætustu Dana, sem komið hafa til Íslands í 600 ár, eins og Bjarni Benediktsson segir, verður að enda eins og hið aldanska æfintýri í Landmandsbankanum, þegar þar var hreinsað til og byrjað nýtt og heiðarlegt starf.“

Hér er þá svo komið, að heiðarleiki manna og æra er í veði, ef þeir fylgja ekki uppgjöri Kveldúlfs og eigendaskiptum á eignum hans. Og það er tæplega gerandi ráð fyrir, að nokkur framsóknarflokksmaður í landinu, og allra sízt þm. hans, fari að fórna því, sem eftir er af æru sinni og heiðarleik, á altari þeirra Jensenssona.

Ég veit ekki, hvort nokkur finnur samræmi í þessum skrifum og afstöðu flokksins nú. Ég finn það ekki. Hér er aðeins leikinn pólitískur skollaleikur frammi fyrir þjóðinni til að sýnast. Ekkert um það hugsað, hvað það kostar, hvort rétt er farið með eða rangt, aðeins ef eitthvað er hægt að hafa upp úr því pólitískt.

Það er ekki síður eftirtektarverð framkoma sósíalista í þessu máli. Héðinn Valdimarsson hefir þar tekið forustuna í sínar hendur. En hafi honum verið nokkur alvara, þá hefir farið fyrir honum eins og Sveinn í Firði sagði öðru sinni, að hann hefir „brotið bát sinn í lendingu“. Ef HV hefir nokkurntíma verið alvara í þessu máli, þá hefir hann álpazt til að taka meira mark á skrifum Jónasar Jónssonar frá Hriflu en honum var heppilegt, þegar hann söng í blöðum sínum nákvæmlega eftir sömu nótum og nú er gert í Alþýðublaðinu og kommúnistablaðinu um uppgjör Kveldúlfs. Ef HV hefir sjálfum verið alvara í þessu máli, þá hefir hann ekki búizt við, að JJ æti öll sín skrif ofan í sig og gengi með Eysteini Jónssyni fjmrh., Hermanni Jónssyni forsrh. og Jóni Árnasyni í sambandinu, formanni bankaráðs, í þessa flatsæng og samfélag við íhaldið, og allur Framsfl. aftan í þeim. Ef HV hefir nokkurntíma verið nokkur alvara í þessu máli, þá verður hann nú fyrir vonbrigðum, er Tímadótið og íhaldið skellir nú svo skyndilega hurðinni á nef honum, þegar hann fer að kíkja inn í þetta nýja brúðhjónaherbergi. En það einkennilega er, að HV hefst sjálfur ekkert að í þessu máli, fyrr en hann veit, að það er um seinan. Og þó HV sé þungur á sér, þá er hann ekki sá silakeppur, að hann komi of seint í sandinn, þegar hann vill róa til fiskjar. Hann gerir það a. m. k. ekki, þegar hann rær fyrir sjálfan sig. Ef HV hefði því verið nokkur minnsta alvara í málinu, þá hefði hann farið eins að í þessu máli eins og í öðrum málum og ekki hreyft því, fyrr en hann var búinn að gera um það samning við Tímaflokksráðh. fyrir fram. Hann vissi það ofurvel, að honum var ekki til neins að gera neina samninga við JJ. HV hefir sjálfur fyrir löngu sagt það um JJ, að hann væri ekki notandi „nema til skítverka í opposition“. HV vissi því það, að hann gat notað JJ til þess að svívirða Thorsbræður og gamlan föður þeirra. En hann vissi það fyrir löngu, að hann var ekki notandi til annars. Því að hann veit það, sem allir þm. vita, að JJ er nú ekki orðinn annað hér á þingi en ómyndugur aumingi, sem ekkert er eftir af nema geðstillingin, sem allir þekkja. Þetta veit HV betur en nokkur annar. Og því bolaði hann honum burtu frá ráðherrastóli. Hinsvegar vissi HV vel, að núverandi ráðh. Tímafl. voru sósíalistum alltaf nothæfir sem verkfæri og undirlægjur. Þess vegna hefði hann, ef honum hefði verið hin minnsta alvara í málinu, átt að semja við þá. Og það því fremur sem öll skrif tímamanna fram til þessara allra síðustu daga, gátu ekki skilizt öðruvísi en sem beint tilboð til Héðins um að hjálpa til að gera Kveldúlf upp. Héðni hefði því átt að vera í lófa dagið að fá samninga við Tímamenn, ef hann hefði viljað. Því að þótt Jóni Árnasyni hefði verið það á móti skapi, þar sem hann hefir verið formaður bankaráðs undanfarinn áratug, þá veit Héðinn það, að hann getur líka beygt hann, þegar á liggur. Þetta sýnir, að HV hefir alls ekki verið alvara með uppgjör Kveldúlfs, því að þá hefði hann á réttum tíma tekið í þá framréttu hönd, sem tímamenn voru að bjóða honum til að fá að hanga við völdin. Þetta sýnir, að það er allt annað, sem fyrir HV vakir en uppgjör Kveldúlfs. Og hvað er það? Það er það, að HV er svo hygginn maður, að hann sér, að stjórnin er búin að kollsigla sig og að allt er að fara í kaldakol. HV er svo mikill fjármálamaður fyrir sjálfan sig, að hann sér, að nú er svo komið, að hér eru ekki nema tveir kostir fyrir hendi. Annar er sá, að breyta genginu til fullkomins réttlætis gagnvart atvinnuvegunum, en hinn er sá, að taka nýtt gengislán erlendis til þess að geta haldið við sömu súpunni áfram. HV veit, að Hambrosbanki í Bretlandi er búinn að handjárna núverandi fjmrh. svo, að ríkissjóður er þeim mun lakar staddur en Kveldúlfur, að hann getur ekki tekið erlend lán, þó að Kveldúlfur geti það. HV veit, að úr því að lánsmöguleikarnir eru útilokaðir, þá er ekkert annað fyrir hendi, ef atvinnuvegirnir eiga ekki að hrynja, en að breyta genginu í réttlátt horf. En þó að HV sjái það og viti sjálfur, að það er ekki um annað að gera, þá vill hann samt ekki vera í stjórnaraðstöðu, þegar taka verður til þess ráðs. Þess vegna varð hann að finna upp einhverja ástæðu til að geta sagt Tímamönnum upp vinnuhjúasamningnum og rekið þá úr vistinni, áður en til þess kæmi. Menn voru farnir að leiða getum að því, hvaða tilefni HV mundi nota til þess. Sumir gizkuðu á, að það mundi verða vinnulöggjöfin, af því að forsrh. var búinn óvart að binda sig í því máli. En HV vissi ekki nema forsrh. mundi heykjast á því máli eins og öðru. Og þá var það tækifærið gengið úr greipum. En þá bauðst kaupmanninum HV ágætt tækifæri til kaupskapar. Og það var að taka upp verzlun við kommúnista. HV veit, að hinir gætnari menn í Alþfl. eru að hrynja af honum. Og því vildi hann kaupa sér nýtt fólk í staðinn. Og þá var handhægra að kaupa heilan stjórnmálaflokk en reyta inn einn og einn. Kommúnistafl. var fús til fylgis gegn því, að Héðinn styddi hann til þess að gera stjórnarbyltingu í Landsbankanum og þjóðnýta Kveldúlf. Og þó að kommúnistum hafi eitthvað fækkað, þá má ætla, að þeir ráði yfir allt að 3000 atkv., svo að HV þótti þetta góð kaup og koma sér vel til uppbótar í staðinn fyrir fylgi hinna gætnari flokksmanna, sem hann er að tapa. Það er þetta, sem fyrir HV vakir, með því frv., sem hér liggur fyrir. Það er ekki það, að gera Kveldúlf upp, því að þá hefði hann samið við Tímafl. fyrirfram, meðan þeir sungu sama lagið og Alþýðublaðið um Kveldúlf.

Það er eingöngu það, að sýnast framan í Kommúnistunum, til þess að tryggja sér enn betur atkvæði þeirra við næstu kosningar. Það er líka auðséð á blaði kommúnistanna þessa dagana, hvað olíu- og benzínkongurinn Einar Olgeirsson er ánægður með stéttarbróður sinn, Héðinn Valdimarsson. Þar kemst nú ekki hnífurinn á milli fremur en þeir væru orðnir einn líkami og ein sál. En hefir HV þá ekki ástæðu til að óttast um, að hann nái ekki aftur tangarhaldinu á Tímaflokknum, sem hann ætlar nú að segja upp allri vernd og stuðningi á yfirborðinu? Nei. HV þekkir sína! Og því þekkir hann Tímamenn. HV veit, að Tímaflokkurinn er orðinn eins og nagli, sem oft hefir bognað. Það er næstum sama, hvað oft hann er réttur upp, þá bognar hann samt alltaf upp á nýtt, þegar slegið er á hann. HV veit, að þó að Sjálfstfl. hafi nú rétt upp Tímaflokkinn að þessu sinni, þá þarf HV ekki annað en að slá á hann, til þess að hann bogni í áttina til socialista aftur. HV veit það vel, að til eru viss tryggðagrey, sem koma alltaf skríðandi að fótum húsbónda síns, hvernig sem þau eru barin.

Eins mun verða um Tímaflokkinn og húsbóndann HV. Hann á það alltaf víst, að fá þá aftur til fylgis, hvenær sem hann vill. Þessvegna gerir HV sér upp þessa reiði við Tímamenn, af því að hann veit sér það óhætt. Þess vegna leikur hann óhikað þennan skrípaleik hér á Alþingi til að þóknast Kommúnistum og kaupa þá. Tímaflokkurinn mun alltaf koma skríðandi að fótum húsbónda síns aftur, þegar hann þarf á að halda.