24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 135 í C-deild Alþingistíðinda. (1373)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

Magnús Torfason:

Ég er ekki kominn hér til að taka þátt í þeim kappræðum, sem hafa farið hér fram um þetta mál, heldur sakir þess, að ég á sæti í fulltrúaráði Útvegsbankans og hefi þess vegna ekki komizt hjá því, að hafa nokkur afskipti af þessu máli. Eins og menn vita, þá hefir Útvegsbankinn samþ. till. Landsbankans um að veita h/f Kveldúlfi greiðslufrest um sinn. Og ég vildi taka fram helztu ástæðurnar fyrir því, að fulltrúaráð Útvegsbankans hallaðist að þessu ráði.

Ég skal þá lýsa yfir því, að þessi tæpa eina millj., sem Útvegsbankinn á hjá h/f Kveldúlfi, það er ekki skuld, sem orðið hefir til fyrir atbeina Útvegsbankans, heldur er það gamalt erfðafé frá Íslandsbanka sálaða. Sú skuld hefir staðið í stað síðan á þeirri tíð. Núverandi stjórn Útvegsbankans hefir þess vegna enga ábyrgð á þessari skuld, og þar af leiðandi skoðar hún sig aðeins sem innheimtumann þessarar skuldar. Af því leiðir, að verkefni bankans verður það eitt að sjá hag bankans sem bezt borgið, og þá fyrst og fremst í svip að fá sem beztar tryggingar fyrir láninu. Að því hefir Útvegsbankinn unnið síðan í haust eftir beztu vitund. Og ég held, að mér sé óhætt að segja, að það sé sameiginlegt álit fulltrúaráðsins, að lengra verði ekki komizt í svip heldur en að ná þeim tryggingum, sem fengizt hafa með samningum Landsbankans við Kveldúlf h/f. Hinsvegar þykist fulltrúaráðið þess fullvisst, að ekki komi til mála, að bankinn hafi af þessum samningum neinn skaða. Miklu fremur má færa rök fyrir því, að bankinn muni hafa nokkurn hagnað af þeim, því að eins og menn munu hafa tekið eftir, sem hlustað hafa hér á útvarpsumræðurnar í kvöld gildir þetta aðeins til eins árs. Ég tel þetta full rök fyrir samþykkt Útvegsbankans á samningunum, og ég get sagt það, að það er álit þeirra, sem kunnugastir eru þessum málum, að bankinn hafi ekki getað gert annað.

Því hefir verið haldið fram bæði í ræðu og riti, að Útvegsbankanum hafi verið í lófa lagið að gera h/f Kveldúlf gjaldþrota; þetta er hreinasta firra, byggð á misskilningi og ókunnugleika. Það er alveg víst, að það hefði legið glæpi næst eða verið hreinn glæpur, að fara þannig að ráði sínu. Ástæðurnar fyrir þessu get ég ekki tekið fram hér, en allir, sem til þessa máls þekkja, munu vera á sama máli og ég um þetta. Til skilningsauka skal ég þó benda á það, að Útvegsbankinn hefir aldrei gert neina kröfu til þess að hafa sérstakan trúnaðarmann til eftirlits með rekstri Kveldúlfs, og að því hníga sömu ástæður og þær, að bankinn hafði engin tök á að gera Kveldúlf gjaldþrota. Ég tel þetta fullnægjandi rök fyrir afstöðu bankans, og þarf ekki að fara fleiri orðum um það að svo stöddu.

Frá almennu sjónarmiði skal ég aðeins strika undir það, sem hæstv. fjmrh. sagði í upphafi ræðu sinnar, að þetta mál, það væri fyrst og fremst bankamál. Það eru vitanlega bankarnir, sem hafa haft það á hendi og eiga að hafa það á hendi, að gera upp þau fyrirtæki, sem þeir hafa lánað fé til rekstrar. En að því er þetta mál snertir, þá er það sérstakt mál Landsbankans, og það er hans að ráða fram úr þessu. Hitt gegnir öðru máli, hvort ríkisstjórnin eða einhverjir aðrir treysta ekki Landsbankanum til að ráða fram úr málinu, svo að vel fari, en þá liggur það eitt fyrir, að breyta um stjórn bankans. Ríkisstj., sem hefir ábyrgð á þessu, breyti þá til og fái stjórn bankans þannig skipaða, að hún geti treyst á meðferð bankans á slíku máli fyrir sína hönd. Þetta tel ég, að sé sú eina rétta leið í málinu. En hinsvegar tel ég ekki rétt að fara að blanda þinginu inn í slíkt mál. Fyrst og fremst hefir þingið nóg að bera og í nógu að standa og nóga ábyrgð, þótt þetta gangi undan. Og svo vitum við líka, að þingið sem heild hefir ekki þá kunnáttu í þessum málum, sem þarf til þess að leysa það á heppilegan hátt. Það er einnig vitað, að slík mál sem þessi þurfa kaldrar og rólegrar athugunar við, og mega þar engar geðshræringar komast að. Auk þess þá er það mín persónulega skoðun, að það sé ekki hollt fyrir gjaldtraust landsins út á við, ef þingið færi að blanda sér í þetta mál. Ég læt mér nægja að lýsa þessu yfir, en hinsvegar skal ég játa það, að þetta frv. er ekki að ófyrirsynju fram komið. Ég er ekki í neinum vafa um það, að þetta frv. hefir stutt að því, að betri samningar fengust, og flutningur málsins hér á þingi hefir líka stutt að því, að mál þetta var fyrr leyst en ella hefði ef til vill orðið, en á því reið, að það yrði gert sem fyrst. Og sakir þess að ég tel, að frv. þetta hafi átt nokkurt erindi mun ég fyrir mitt leyti greiða því atkv. til 2. umr.