24.03.1937
Neðri deild: 26. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 145 í C-deild Alþingistíðinda. (1376)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Hæstvirtur forseti! Góðir hlustendur! Ég mun ekki taka verulegan þátt í þessum umr. Það gerir hæstv. fjmrh., yfirmaður bankamálanna, af hálfu Framsfl. En formaður flokksins, Jónas Jónsson, á eins og kunnugt er sæti í Ed. og getur því ekki tekið þátt í þeim umræðum, sem fara fram hér í þessari háttvirtu deild.

Málefnið, sem hér liggur fyrir, Kveldúlfsmálið, er óneitanlega, ef það er skoðað í heild, mikið þjóðfélagslegt vandamál. Um afstöðu flokkanna til þessa máls eiga hlustendur nú að dæma. Mér virðist því þurfa að draga sem skýrast fram, hver sé afstaða hvers þingflokks til þess, hvernig leysa eigi þetta vandamál, og þau rök, sem þar standa á bak við.

Afstaða Sjálfstfl. hefir legið lengst fyrir, eða nú í nokkra mánuði, og hefir hún komið fram í blöðum flokksins og í tilboði því, sem formaður flokksins og einn af eigendum Kveldúlfs, Ólafur Thors, gerði bönkunum í vetur um skuldaskil félagsins. Ól. Thors lagði þá svo mikla áherzlu á réttmæti þessa tilboðs síns (og blöð hans tóku öll undir það), að hann hafði í hótunum um „viðnám“, ef tilboðinu yrði ekki tekið tafarlaust. En þetta tilboð er tvímælalaust tilraun til einhverrar alvarlegustu fjárplógsaðferðar, sem menn hafa haft spurnir af. Formaður Sjálfstfl. vildi með tilboðinu koma því þannig fyrir, að Kveldúlfur keypti eignir Thors Jensens í Mosfellssveit fyrir rúml. 1 millj. 200 þús. kr. — Andvirði eignanna, auk 350 þús. kr., er á þeim hvíldu, átti Kveldúlfur að greiða Thor Jensen með útistandandi skuldum Kveldúlfs, 900 þús. kr. Eftir að Kveldúlfur hefði svo keypt Mosfellssveitareignirnar, átti bankinn að kaupa þær aftur af Kveldúlfi fyrir 2 millj. og 50 þús. kr. Á þennan hátt átti Kveldúlfur að greiða um 800 þús. kr. af skuldum sínum við bankana. En í þessu tilboði fólst meira, því að með því, að láta Kveldúlf framselja Thor Jensen útistandandi skuldir sínar, náði hann eignarhaldi á öllum húseignum sona sinna, og þeim var þar með bjargað út úr Kveldúlfssukkinu. Með þessu hefði því tekizt að draga húseignir bræðranna út úr Kveldúlfi til viðbótar því, sem áður var búið að draga á þurrt land.

Eins og menn sjá, er hið megnasta íhaldshandbragð á þessu tilboði, enda létu íhaldsblöðin óspart í ljós sína fullkomnustu ánægju yfir þessu tilboði og töldu það mikið hneyksli, ef því yrði ekki tekið. Og það leikur enginn vafi á því, að ef Sjálfstfl. hefði haft meiri hluta á Alþingi og í stjórn bankanna, þá hefði þessu tilboði verið tekið tafarlaust, því að þetta tilboð er afstaða og vilji Sjálfstfl. eins og hann var, áður en Kveldúlfsmenn gegn vilja sínum voru þvingaðir inn á aðrar leiðir.

Síðara tilboð Kveldúlfs var neyðarráðstöfun, sem Kveldúlfur hefir orðið að gera gegn vilja sínum, vegna vinnu vinstri flokkanna í bönkunum og í blöðum og vegna þeirrar almennu fordæmingar, sem fyrra tilboðið hefir hlotið meðal almennings og tilraunin til þess að draga þessa einu millj. króna út úr fyrirtækinu, bræðrunum til persónulegs framdráttar og öryggis. Ég bið menn þó vel að athuga það, að þessu síðara tilboði var ekki heldur tekið af bönkunum, heldur settir nýir úrslitakostir, sem Kveldúlfur varð að ganga að.

Afstaða Alþfl. er að ýmsu leyti skýr á yfirborðinu. Hún er krafa um það, að Kveldúlfur sé gerður gjaldþrota, hvaða tilboð um tryggingar og skuldaskil, sem fram kunna að koma. Aðferðin, sem valin hefir verið af Alþfl., að bera fram um þetta frv. á Alþingi, myndi, ef gjaldþrotið væri framkvæmt á þennan hátt, skapa hættulegt fordæmi og leggja vopn í hendur andstæðinganna, ef þeir einhverntíma næðu völdunum í sínar hendur. Þessu hefir fjmrh. lýst mjög skýrt. Og afstaða Alþfl. er skiljanleg aðeins út frá því sjónarmiði, að Kveldúlfur sé slík þjóðfélagsleg meinsemd, að hana beri að skera burtu tafarlaust, hvað sem öllu öðru líði. En þetta sjónarmið fær ekki staðizt hjá Alþfl., þegar tekið er tillit til þess, að fulltrúar flokksins, bæði í stjórn síldarverksmiðjanna og í ríkisstjórninni, hafa mælt með því mjög eindregið og leyft það, að Kveldúlfur byggði síldarbræðslustöð á Hjalteyri, ef aðeins væri fé fyrir hendi til að leggja í fyrirtækið. Ef leysa á þetta mál út frá því sjónarmiði, að Kveldúlfur sé þjóðfélagsleg ófreskja í atvinnumálum, þá fær það ekki með nokkru móti staðizt, að leyfa þessari sömu ófreskju að beta við sig einum hausnum í viðbót, eins og alþýðuflokksmenn vildu gera í vetur. En ef leysa á málið á fjárhagslegum grundvelli fyrir bankana og ríkisheildina, þá er afstaða Alþfl. einnig full af mótsögnum. Engum dettur í hug, að Héðinn Valdimarsson eða nokkur annar alþýðuflokksmaður, sem stjórnaði fyrirtæki fyrir sjálfan sig eða aðra, myndi láta sér koma í hug að neita því, að taka við um einni milljón króna frá skuldunautunum til tryggingar skuldunum. Með því að leggja fram um eina milljón króna í nýjum veðum til tryggingar skuldum, gegn loforði frá bönkunum um rekstrarlán í eitt ár, tekur Kveldúlfur sjálfur á sig áhættuna af rekstrinum þennan tíma, í stað þess að láta bankana eða ríkið gera það, ef félagið yrði gert gjaldþrota. Ég get ekki séð nokkra ástæðu fyrir því hjá Alþfl., að berjast nú fyrir því, að verðlauna Kveldúlf fyrir frammistöðuna síðustu árin með því að gefa þeim Thorsbræðrum þessa einu milljón króna, sem þeir hafa verið knúðir til að bjóða fram í veðum.

Okkur framsóknarmönnum er það vel ljóst, að hjá mörgum mönnum í þessu landi er sú hugsun mjög rík, eftir þau kynni, sem þeir hafa fengið að fjármálastjórn Kveldúlfs, að eðlilegast sé að skera þá fjármálaóreiðu upp með rótum, svo sem alþýðuflokksmenn telja sig vilja gera, með því að heimta skilyrðislaust, að fyrirtækið verði gert gjaldþrota. Ef til vill er þessi skoðun ein af sterkustu rökunum, sem Alþfl. telur sig hafa í þessu máli, því að það er vitað, að stjórnmálaflokkum hættir stundum við að taka nokkuð mikið tillit til þess, sem þeir álíta, að sé vinsælt og líklegt til fylgis, án þess að athuga til fullnustu afleiðingarnar ofan í kjölinn. En þegar þetta mál er yfirvegað til hlítar, efast ég ekkert um, að afstaða Alþfl. í þessu máli er sú afstaða, sem Kveldúlfur óskaði helzt eftir, að fengi að ráða. Kveldúlfsmenn hafa verið þvingaðir til að bjóða fram tryggingar, og með því að bjóða fram þessa einu milljón, sem dregin hefir verið út úr fyrirtækinu, telja þeir sóma sjálfra sín og sóma flokksins vera borgið í augum almennings. Ef neitað væri að taka við milljóninni, væri einnig henni bjargað. Og mikið af þeim verðskulduðu óvinsældum, sem Kveldúlfur hefir bakað sér með fjármálabraski, væri einnig hægt að þurrka út eða láta menn gleyma þeim í bráð, með því að þyrla upp moldviðri um það, að Kveldúlfur hefði verið ofsóttur. En síðan væri opin leið til að nota milljónina, sem Alþfl. vill gefa Thorsbræðrum, til þess að koma upp nýjum rekstri, eins og hefir verið gert hvað eftir annað, sem væri algerlega óháður eftirliti bankanna og annara. Þessi yrði niðurstaðan, ef viðhorf Alþýðuflokksins fengi að ráða, og ég efast ekkert um, að hún væri að ýmsu leyti hin bezta fyrir Kveldúlfsmenn.

Afstaða okkar framsóknarmanna er alveg ákveðin og markviss. Umboðsmenn okkar í bönkunum og blöð flokksins hafa miskunnarlaust tætt niður afstöðu Sjálfstfl. í málinu, er fram kom í tilboði Kveldúlfs um sölu á Korpúlfsstöðum, sem ég hefi lýst hér að framan. Formaður flokksins hefir með skrifum sínum hrakið Kveldúlf og flokk hans skref fyrir skref. Kveldúlfur sá það og sjálfstæðismenn skildu það, að það var ekki stætt á tilboðinu frá í vetur, er þeir höfðu í hótunum um að veita „viðnám“, ef því ekki yrði tekið. Það var vís dauði fyrir flokkinn í kosningum, ef forvígismenn hans drægju eina milljón króna út úr fyrirtækinu, áður en það yrði gert gjaldþrota (og vitanlega hefði það orðið, ef ekki hefði komið fram nýjar tryggingar). Það fann hvert mannsbarn á landinu, að andstaðan gegn þessu var orðin svo sterk, að ekki varð hjá því komizt að skila eignunum, til þess að reyna að bæta aðstöðu flokksins í málinu. Eftir kosningarnar myndi formaður Sjálfstfl. og flokkurinn, sem hann hefir á bak við sig, ef hann fengi aðstöðuna, að sjálfsögðu framkvæma þann vilja sinn, sem fram kom í fyrra tilboðinu, og láta koma til almennrar eftirgjafar, eins og flokkurinn hefir lýst yfir hér í þinginu, að hann vilji gera. Og afstaða Pálma Einarssonar ráðunauts, sem mat Korpúlfsstaði á 1,7 millj. kr., sýnir, að það stendur ekki á „bændaflokknum“ að vera verkfæri íhaldsins í þessu máli frekar en öðrum.

Í fyrra tilboðinu í vetur er vilji Kveldúlfs og „Sjálfstæðisflokksins“. Í síðara tilboðinu gætir áhrifanna af þunga almenningsálitsins, sem vinstri flokkarnir hafa skapað með því að skýra málið. Við framsóknarmenn sjáum ekki ástæðu til að gera að engu vinnu okkar manna í þessu máli. Við viljum hirða þessa einu milljón, sem nú hefir verið þvinguð aftur inn í Kveldúlf. Við viljum setja fyrirtækið undir eftirlit. Við sjáum um, að framkvæmdastjórunum verði fækkað og að Kveldúlfur megi hvorki kaupa né selja fasteignir né skip nema með leyfi bankanna. Ef fyrirtækið bætir ráð sitt og gengur vel, þá er það gott fyrir alla aðilja. En ef rekstur fyrirtækisins verður ekki lagfærður frá því, sem verið hefir, þá leiðir það af sjálfu sér til gjaldþrots, og þá verður að koma eignunum, þar á meðal nýju veðunum, í verð á hagkvæman hátt og láta þær skipta um eigendur. Þetta er sú leið, sem við framsóknarmenn viljum fara.

Stóryrði Aþfl. um það, að Framsfl. sé að semja við Kveldúlf, tekur náttúrlega enginn alvarlega, því að það má svo sem nærri geta, hve Kveldúlfi er það ljúft, að verða að hrökklast frá fyrra tilboði sínu í vetur og vera kominn í þá aðstöðu, sem hann nú er í. En vegna stóryrða Alþfl. um „fjárglæfra“ framsóknarmanna í sambandi við þetta mál, er rétt að segja það eins og það er, að þeir menn innan Alþfl., sem njóta þar mests trausts og virðingar, bæði innan flokksins og utan, eru sammála Framsfl. í þessu máli, þótt Alþfl. kalli það nú fjárglæfra! Þessi orð hitta því engu síður helztu forvígismenn Alþfl. — en vitanlega hitta þau alls enga, því að við rólega yfirvegun og skýringar á málinu er það næsta augljóst, hver afstaðan er hyggilegust í þessu máli. Og þessir menn innan Alþfl. eru vissulega ekki sammála sínum flokki um það, þótt þeir hafi lent þar í minnihluta, að rétt sé, þegar búið er að koma Kveldúlfi í þessa sjálfheldu, að sleppa honum úr henni aftur, með því að gefa honum eina milljón króna á þann hátt, að neita að taka við henni, eftir að félagið hefir verið þvingað til að bjóða hana fram.

Ég hefi nú lýst þessari afstöðu flokkanna, og ég skal bæta því við, að ýmsir telja, að skýringuna á afstöðu Alþfl. í þessu máli sé að finna í því, að ætlunin sé að láta Alþingi taka fram fyrir hendur bankanna um lausn málsins, gera Kveldúlf gjaldþrota og taka atvinnutækin af honum. Hafi ríkið þá um leið með aðgerðum þingsins tekið á sig siðferðislega skyldu til að reka fyrirtækið og þar með sé komið á ríkisrekstri á miklum hluta togaraflotans. Ég skal ekkert um það segja, hvort þetta vakir fyrir Alþfl. eða ekki. En ég hygg, að ýmislegt annað valdi afstöðu flokksins í þessu máli. Það liggur að vísu ekkert fyrir um það nú á þessu stigi málsins, hvort ágreiningurinn um þetta mál veldur af hálfu Alþfl. samvinnuslitum flokkanna. En þegar talað er við ykkur, góðir hlustendur um land allt, þá eigið þið kröfu á að fá að vita, hvernig málavextir eru. Og þykir mér því rétt að segja það alveg eins og það er, að nokkurt útlit er fyrir, að þessi ágreiningur muni af hálfu Alþfl. valda samvinnuslitum, sem að sjálfsögðu hefðu í för með sér kosningar í sumar.

Yfirleitt hefir samvinnan milli flokkanna undanfarin ár verið góð. Það hefir verið unnið að mörgum hagsmunamálum fyrir bændur og verkamenn á þessu stjórnartímabili flokkanna. En þótt ráðh. Alþfl. hafi unnið með mjög miklum dugnaði að því, að koma til leiðar ýmsum nýjungum í framleiðsluháttum við sjávarsíðuna, þá hefir tap Spánarmarkaðarins aðallega komið þungt niður á þeim, er við sjávarsíðuna dvelja. A. m. k. 99 af hverjum hundrað landsmönnum myndu hiklaust, ef þeir hefðu verið um það spurðir fyrir nokkrum árum, hafa talið missi Spánarmarkaðar hljóta að valda ríkisgjaldþroti hér. Svo alvarlegum augum hefir verið litið á það mál. En þetta gífurlega tap höfum við orðið að þola einmitt þessi ár, og þrátt fyrir það höfum við komizt yfir erfiðleikana. Hinar nýju framleiðsluvörur hafa á ýmsan hátt fyllt upp skarðið. En þessar nýju vörur hafa eðlilega ekki á svo stuttum tíma getað valdið meira en vega á móti markaðstapinu og hinum mikla aflabresti á síldveiðunum 1935 og á þorskvertíðinni síðastl. ár. Menn verða að horfast í augu við það, að hvorki þessir né aðrir erfiðleikar verða yfirstignir nema með þrautseigri vinnu og þróun. En einmitt vegna þessara erfiðleika eru uppi háværar kröfur frá kommúnistum, sem sífellt kynda undir á bak við Alþfl.

Allir gætnir menn hljóta að sjá og skilja, að eins og ég sagði áðan, verður ástandið ekki bætt nema með áframhaldi vinnu og þróunar. En hjá kommúnistum og öðrum hinum órólegri mönnum ríkir sú skoðun, af ástæðum, sem ég hefi lýst, að ástandið verði lagfært með einhverskonar „bombum“, eins og þeirri, sem virðist eftir sólarmerkjum að dæma eiga að kasta í þessu máli. En allir munu skilja, að þetta svokallaða Kveldúlfsmál getur aldrei orðið verulegt kosningamál. Allir vita, að það er óhugsandi, að Alþfl. geti fengið meirihluta á Alþingi til þess að þjóðnýta togarana, eins og samþ. var á síðasta flokksþingi hans. Það eina, sem gæti breytt verulega afstöðunni við kosningar, væri þá það, að Sjálfstfl. og „Bændaflokkurinn“ fengju sameiginlega meirihlutaaðstöðu til þess að rífa niður þau umbótamál, sem unnin hafa verið á undanförnum árum, og gefa Kveldúlfi eftir skuldir sínar á þann hátt, sem lagður var grundvöllur að með fyrra tilboðinu í vetur, sem lýst hefir verið hér að framan.

En þótt Kveldúlfsmálið — eins og sýnt hefir verið fram á — geti aldrei orðið kosningamál, þá getur Alþfl. hæglega, af þeim ástæðum, sem ég skýrði frv. gert það að kosninga-„bombu“. Við framsóknarmenn munum taka því. Við erum alltaf við því búnir, að ganga til kosninga, og þurfum til þess engar „kosningabombur“. En við skulum vera viðbúnir, framsóknarmenn. Við skulum sýna andstæðingunum það ennþá einu sinni, að við erum það. Við munum í þessari viðureign, ef til kemur, leggja undir dóm kjósendanna þau mál, sem við höfum unnið að undanfarin ár, og málefnin, sem okkar stóra flokksþing lagði fyrir okkur að leysa og mörg eru nú komin fram hér á þingi í frumvarpsformi, þótt einhver þeirra kunni e. t. v. að stanza þar í bráð. Og við álítum einnig, að það sé mjög hollt fyrir landsmenn að hafa hliðsjón af þessu máli Kveldúlfs: Annarsvegar þeirri spillingu, sem lýsir sér í þeirri lausn, sem Sjálfstfl. vildi knýja fram með valdi og „viðnámi“ — spillingu sem menn styðja með því að ljá þeim flokki atkvæði — og hinsvegar afstöðu Alþýðuflokksins, það offors og það hófleysi, sem lýsir sér í hans lausn á málinu. Í þessu máli — einmitt í þessu máli — endurspeglast það jafnvægi, sem Framsóknarflokkurinn er yfirleitt í þessu þjóðfélagi.