19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 173 í C-deild Alþingistíðinda. (1397)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Frsm. meiri hl. (Sigfús Jónsson):

Ég ætla ekki að hafa langa framsöguræðu í þessu máli. Það er búið að ræða það svo mikið, bæði í blöðum og hér í d., að ég álít, að frekari umr. muni hvorki skýra það frekar en orðið er né breyta þeirri afstöðu, sem hv. þm. í d. hafa tekið til þess.

Eins og segir í nál., eru nm. ekki sammála um, með hverjum hætti málið skuli afgreitt frá n. Einn þeirra var með frv., tveir vildu afgreiða það með rökstuddri dagskrá og einn virtist vera mótfallinn bæði frv. og hinni rökstuddu dagskrá. Meiri hl. lítur svo á, að þetta frv. sé ekki einungis óþarft, heldur og óréttlátt, þar sem með því sé verið að taka fram fyrir hendurnar á því umboðsvaldi, sem skipað er yfir málefni bankanna. Meiri hl. n. álítur, að það sé miklu heppilegra og áhættuminna fjárhagslega fyrir bankana, að fara eftir till. þess umboðsvalds, en hafa þá skiptameðferð á búi Kveldúlfs, sem frv. gerir ráð fyrir, að verði fyrirskipuð. Um þá liði hinnar rökstuddu dagskrár, sem lúta að leyfisveitingu til byggingar síldarverksmiðju á Hjalteyri, vil ég segja, að með því er ætlazt til, að sé leystur sá hnútur, sem hefir þar á runnið og ekki lítur út fyrir, að leystur verði öðruvísi. Enda verður leyfisvaldið að fá um það einhverja bendingu frá hv. d., hvernig hann skuli leystur. Ég skal ekki fara fleiri orðum um þetta, en meiri hl. fjhn. leggur til, að málið verði afgreitt með því, að hin rökstudda dagskrá verði samþ.