03.03.1937
Neðri deild: 13. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 52 í B-deild Alþingistíðinda. (140)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Jónas Guðmundsson:

Ég hafði ætlað mér að flytja brtt. við frv. við þessa umr., en ég hefi satt að segja ekki getað komið því í verk og verð því að láta það bíða þar til við 3. umr.

Ég vil benda hv. þdm. á það, sem kom glögglega fram hjá hv. frsm., að það er mikið spursmál, hvort ekki ætti að nota það fé, sem eftir er í sjóðnum, til þess að gera upp þær fátækraskuldir, sem ennþá eru óuppgerðar. Ég vil benda á, að Reykjavík á ennþá útistandandi hjá ýmsum sveitarfélögum um 500000 kr., sem hafa ekki fengizt teknar í gegnum þessa uppgerð. Aftur á móti hefir sá kaupstaður fengið upp undir 300000 kr. frá þeim sveitarfélögum, sem hafa verið gerð upp. Það er nauðsynlegt að fá allar þessar skuldir gerðar upp. Eftir því sem árin líða, er minna og minna farið að skeyta um þessar skuldir. Fjöldi sveitarfélaga hefir ekki farið í kreppulánasjóð vegna þess, að þau blátt afram skákuðu í því skjóli, að þau gætu komizt hjá að greiða þessar skuldir með því að draga það á langinn. Hinsvegar er það, að síðan sjóðstjórnin lauk störfum sínum, en það var 31. des. síðastl. ár, hafa komið beiðnir og tilmæli til stjórnar sjóðsins um frekari lán en við töldum fært að veita og ekki hægt að veita eftir 1. jan. Ég vil sérstaklega benda á eina tegund af lánum, sem sveitarfélögin eru með og eru ákaflega vond viðureignar, en það eru hin svokölluðu sjúkrahúsalán. Ýms læknishéruð hafa gengið saman um að byggja sjúkrahús og hafa tekið til þess misjafnlega heppileg lán. Að þeim hafa venjulega staðið 5–7 hreppar, og stundum ekki allir úr sama sýslufélaginu. Á þessu hefir verið mikil ringulreið og illa verið staðið í skilum með lánin. Þetta er þinginu að sjálfsögðu kunnugt um, því að nú þegar hafa verið teknar upp í fjárlögin 3 slíkar afborganir. Auk þess hafa komið til fjvn. 3 beiðnir um að breyta þessum sjúkrahúsalánum. Sjóðsstjórnin gerði ekkert að því að taka þessi lán til meðferðar, þó að það væri mjög nauðsynlegt. Ýmsar stjórnir sveitarfélaga hafa talið sig þurfa að fá viðbótarlán til þess að geta komið sínum fjármálum á hreinan og betri grundvöll, en það hefir ekki verið hægt að sinna því.

Ég mun svo við 3. umr. leggja fram brtt. við þetta frv., og gefst þá tími til að athuga það nánar.