19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 177 í C-deild Alþingistíðinda. (1400)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil taka undir það með hv. 2. þm. Reykv., að ef hin rökst. dagskrártill., sem fyrir liggur, verður samþ. í því formi, sem hún nú hefir, þá er það í raun og veru Alþ., sem gengur frá samningunum um skuldaskil Kveldúlfs til bankanna, því að mér skilst, að þeim sé þannig háttað, að þeir komi ekki í gildi, fyrr en um leið og leyfi er fengið til þess að byggja síldarbræðsluverksmiðjuna. En jafnframt vildi ég leyfa mér að vekja athygli hv. þd. á því, að í dagskrártill., eins og hún er orðuð, er um að ræða allt annað leyfi og að mér virðist miklu stærra leyfi til byggingar á síldarbræðsluverksmiðju heldur en h/f Kveldúlfur sótti um á síðastl. ári. Eftir því, sem mér hefir verið skýrt frá, er skilyrðið fyrir þessu 40 þús. sterlingspunda láni erlendis það, að nota verði það allt til innkaupa á erlendu efni til verksmiðjunnar, en að fé upp í annan tilkostnað verði að koma annarsstaðar frá, og þá sennilega að mestu eða öllu leyti frá Landsbanka Íslands. Upp í þetta er mér sagt, að fyrir liggi loforð frá Landsbanka Íslands um 150 þús. kr. lán. Ég skal nú ekki segja um, hvort þessi 150 þús. kr. hrökkva fyrir þeim innlenda kostnaði, sem leiðir af byggingu verksmiðjunnar, miðað við, að þau 40 þús. sterlingspund, sem fengin eru að láni erlendis, verði notuð að öllu leyti til innkaupa á efni til verksmiðjunnar. Hinsvegar hefir hæstv. fjmrh. tjáð mér, að h. f. Kveldúlfur telji hugsanlegt, að hægt verði að koma upp verksmiðju, sem gæti unnið úr 3600 málum síldar á sólarhring, með þeim 40 þús. sterlingspundum, sem fást að láni erlendis. En leyfisbeiðnin frá félaginu í haust var miðuð við það, að verksmiðjan gæti unnið úr aðeins 2400 málum á sólarhring. Stj. síldarbræðslna ríkisins, sem hefir verið með í ráði um að úthluta leyfum til bygginga síldarverksmiðja, mælti með því, að þetta leyfi yrði veitt í haust, með tilliti til þess, að skip félagsins, sem eru 7 að tölu, mundu nokkurnveginn samsvara þessari verksmiðjubyggingu, þannig að litið þyrfti að kaupa til verksmiðjunnar af öðrum skipum. En það segir sig sjálft, að ef niðurstaðan yrði sú, að verksmiðjan yrði kannske fullum þriðjungi stærri en upphaflega var ráð fyrir gert, þá hlyti það að hafa sína sérstöku þýðingu. Nú þegar er búið að byggja 2 síldarbræðsluverksmiðjur við Eyjafjörð, á Krossanesi og á Dagverðareyri. Ef svo kæmi þriðja verksmiðjan við Eyjafjörð, þá er ákaflega mikil spurning, hvort þörf er á svo mörgum verksmiðjum á þessum stað, eða hvort ekki væri heppilegra að reisa nýja verksmiðju á einhverjum öðrum stað, ef á annað borð á að fara að reisa nýja síldarverksmiðju.

Mér þótti rétt að benda hv. þd. á þetta, áður en gengið er til atkv. um dagskrártill., þannig að hv. þd. gerði sér það ljóst, að það, að samþ. hana, getur þýtt, að reist verði samkv. henni miklu stærri verksmiðja en upphaflega var ráð fyrir gert, og að gera sér grein fyrir því líka, að hér getur verið um fleiri leiðir að ræða um það, hvar verksmiðjan verður reist.

Ef þessi dagskrártill. verður samþ., þá lít ég svo á, að með því sé beint svo fyrir lagt frá þessari hv. þd., að þetta leyfi skuli veita, þannig að ráðuneytið, sem þetta heyrir undir, hafi ekki annað að gera í þessu en að framkvæma vilja Alþ. í þessu efni, samkvæmt því sem stendur í þessari dagskrártill. Einmitt með tilliti til þessa þótti mér rétt og skylt að beina athygli hv. þdm. að þessari dagskrártill. Ég hefi ekki séð ástæðu til að koma með brtt. við dagskrártill., enda þótt ég sé andvígur henni, af því að ég hefi gengið út frá því, að um það séu þegar samningar meðal meiri hl. hv. þdm.samþ. hana óbreytta. Hinsvegar, ef brtt. kæmi fram um stærð verksmiðjunnar, þá mundi ég greiða henni atkv. mitt.