19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 185 í C-deild Alþingistíðinda. (1406)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

Ólafur Thors:

Það ætlast sjálfsagt enginn til þess af mér, að ég nú í þinglokin fari að eyða hinum dýrmæta tíma þingsins til að hirta þm. Ísaf. Hv. þm. var að tala um þá dæmalausu spillingu og það ógurlega fjársvikamál, sem hér væri á döfinni. En það er vitað um hann sjálfan, að hann hefir flekkóttari samvizku heldur en flestir þeirra manna, sem ganga lausir. Þessi maður er búinn í mörg ár að vera riðinn við málefni, sem e. t. v. verður bráðlega opinberað meira um heldur en hann kærir sig um. — Hann hefir verið í náinni samvinnu við og haft í sinni þjónustu menn, sem honum er vitanlegt að hafa á óheiðarlegan hátt tileinkað sér fé, sem ég efast ekki um, að hann hefir fengið sinn hlut af. Þetta ætla ég að láta nægja að segja hv. þm. og vil biðja hann að sofna rólega í nótt, ef hann hefir karlmennsku til, út frá hugleiðingum um fjársvik.

Annars er það úr hörðustu átt, þegar þessi hv. þm. fjargviðrast yfir því, að einstök atvinnufyrirtæki skulda, þar sem hann sjálfur hefir veitt forstöðu fyrirtæki, sem bágast er útleikið allra þeirra fyrirtækja, sem komið hafa nærri framleiðslu hér á undanförnum árum. Hans frammistaða samanborin við frammistöðu þeirra, sem hann er að ráðast á, er svo aumleg, að umvandanir hans hér á Alþingi eru ekki teknar hátíðlega. Og ekki tekur betra við, af spurt er um viðskiptasiðferði hans í sambandi við það fyrirtæki. Í fyrra hældi hann sér af því hér á Alþingi, að hann sem meðeigandi í Samvinnufélagi Ísfirðinga bæri persónulega ábyrgð á öllu því, sem félagið skuldaði. Hann bar fram þá fyrirspurn til mín, hvort ég gerði það sama, að því er Kveldúlf snerti. Ég svaraði því játandi. Ég hefi æfinlega staðið ábyrgur fyrir öllum skuldum Kveldúlfs. Þetta var í fyrra. En nú er svo komið um æru þessa þm., að þegar fyrirtæki hans er búið að fá 95% afslátt og 147 þús. kr. eftirgjöf á veðskuldum, og komið er til hans kasta að standa við sinn hlut af ábyrgð á þessum vesælu 5%, sem félagið greiddi, þá þverneitar hann, svo að kröfuhafar hafa neyðzt til að draga hann fyrir lög og dóm. Þegar svona maður talar um fjármálaspillingu í landinu, þá er von, að mönnum blöskri.

Ég álít líka fulla þörf á að rekja feril þessa manns og Kommúnistaflokksins í sambandi við sölu á frosnum fiski til Póllands. Ég vildi gjarnan heyra, hvað mikið af því þolir að sjá dagsins ljós. (GÞ: Ekki 5% ).

Ég get tekið undir þau rök, sem hæstv. fjmrh. færði fram gegn þessum hv. þm.

Fyrir nokkrum mánuðum mælir hann sjálfur með því, að Kveldúlfi verði leyft að reisa síldarverksmiðju. En nú, þegar búið er að tryggja fé til þess, hamast hann gegn því. Slíka framkomu er að verja.

Þessi hv. þm. spurði, hversu mikil fjármálaspillingin þyrfti að vera, til þess að tekið yrði í taumana. Mig langar til að spyrja hann: Hvað þarf fjármálaspillingin að vera á Alþingi, til þess að hann beri fram vantraust á þann ráðh., sem hann sjálfur telur, að ábyrgð beri á spillingunni? Ætlast hann til, að spillingin tvöfaldist, eða nægir kannske, að hún hækki um 5%, til þess að þessi beinakerling stjórnarliða geri skyldu sína og rísi gegn þessari spillingu með vantrausti á ráðh.? Það getur litið vel út meðal ókunnugra manna að tala eins og hv. þm. gerir um þau ódæði, sem hér eiga að hafa verið framin, en að gera það hér á Alþingi, þar sem allir þekkja hann, það er bara til að gera sig hlægilegan og ekki til neins annars.

Ég finn, að hv. þdm. langar meira og minna til, að ég hætti ekki við þennan hv. þm., tali lítið eitt meira við hann. En þetta er leiðinlegt verk, sem ég í mörg ár hefi hlíft mér við. Ég lagði eitt sinn í vana minn að hafa hann að skotspæni, en ég hefi satt að segja löngu hætt

því, því að ég finn, að viðureign við þennan hv. þm. hefir aldrei orðið neinum til sóma.

Vegna þess að hv. 1. landsk. lýsti því yfir við 1. umr. þessa máls, að ég færi með staðlausa stafi um hann í sambandi við fyrirhugaða lántöku í útlöndum, vil ég taka það fram, að það, sem ég sagði, var orði til orðs satt og rétt. Verið getur að erfitt sé að sanna þetta, en þeir skipta mörgum hundruðum, sem vita, að hv. þm. var í þeim erindum ytra, að rannsaka möguleika fyrir lántöku á Norðurlöndum, aðallega í Svíþjóð. Og hitt vita a. m. k. nokkrir menn, að ef úr lántökunni hefði orðið, ætlaði þessi þm. að taka 100 þús. kr. af ríkisfé fyrir vikið.

Þegar athuguð eru ummæli forseta Alþfl. um þá örðugleika, sem íslenzka þjóðin eigi framundan, og um þau úrræði, sem fyrir hendi eru til þess að ráða bót þar á, þá er það undarleg barátta, sem Alþfl. er að heyja hér, þar sem hann berst eftir mætti gegn því, að ný síldarverksmiðja verði reist hér á landi. Forseti Alþfl. sagði, að til þess að komast út úr ógöngunum væru sérstaklega tvær leiðir opnar. Önnur væri sú, að reisa nú þegar víðsvegar um land frystihús. Hin væri sú, að koma upp sem allra fyrst síldarbræðslustöðvum. Við sjálfstæðismenn höfum borið fram hér á þingi frv. um frystihús. Sósíalistar hafa fyrir sitt leyti hindrað framgang þess máls. Um síldarbræðslustöðvarnar er það að segja, að enda þótt hæstv. atvmrh. og hv. þm. Ísaf. hafi báðir mælt með, að Kveldúlfur fengi að reisa síldarverksmiðju á Hjalteyri, þá gerir flokkurinn nú allt, sem hann getur, til að hindra það, og til vara, að verksmiðjan verði sem allra afkastaminnst. Þó berast Kveldúlfi nú hvaðanæfa tilboð, að ég segi ekki beiðni, um viðskipti með síld næsta sumar. Er þar til fyrst að nefna bæjarútgerðina í Hafnarfirði. (EmJ: Það er ósatt mál). Nei, það er dagsatt. Ásgeir Stefánsson framkvæmdarstjóri hefir setið dag eftir dag á ráðstefnu við forráðamenn Kveldúlfs til að reyna að koma á samningum um kaup á síld af skipum bæjarútgerðarinnar. En þrátt fyrir alla þá auknu möguleika, sem þessi síldarbræðslustöð mundi veita til kaupa á síld og þar með aukinnar atvinnu, þá berst nú Alþfl. með hnúum og hnefum gegn því, að hún verði reist. Er hægt fyrir nokkurn flokk að koma svona fram án þess að hafa af því bæði skömm og skaða? Ég hygg ekki. Ef Alþfl. hefði ástæðu til að halda, að Kveldúlfur yrði lagður niður, þá gæti þessi barátta haft eitthvert mark. En þar sem Alþfl, veit, að löggjafinn fæst ekki til að hindra þá samninga, sem fram hafa farið milli bankanna og Kveldúlfs, þá er með öllu óskiljanlegt, hvernig Alþfl. ætlar að rökstyðja háttalag sitt.

Baráttan gegn Kveldúlfi hefir byggzt á því, að hann eigi ekki fyrir skuldum, heldur muni bankarnir fá töp af honum. En þá er líka þeirra fengurinn allt, sem félagið græðir á hinni nýju verksmiðju, a. m. k. á meðan ekki er öruggt, að það eigi fyrir skuldum. Ef félagið aftur á móti gefst upp, þá get ég ekki séð, að það sé neitt þjóðartjón, þótt þessi verksmiðja standi norður á Hjalteyri og verði hagnýtt af þeim, sem taka við rekstri þessa félags. Það veit hvort sem er hver einasti maður, að ef Íslendingar væru þess megnugir, mundu þeir ekki aðeins byggja þessa verksmiðju, heldur margar fleiri víðsvegar kringum land.

Það, sem okkur ber því að gera hér á þingi, er ekki það, að hindra, að ný verksmiðja rísi hér upp. Okkur hefði fremur borið að gera einhverjar ráðstafanir til þess, að þeir síldarútvegsmenn, sem skip eiga, en hinsvegar ekki fjármagn til þess að kaupa veiðarfæri, til þess að hefja síldveiðar í sumar, fái einhverja hjálp til þess að eignast þessi veiðarfæri. Ég veit ekki nema, þótt í eindaga sé komið, að full ástæða sé til að athuga þetta. Fyrirsjáanlega bregðast þorskveiðarnar nú, samanborið við undanfarin ár, og það er auðsætt, að ekkert getur þá bjargað þjóðfélaginu frá þeim voða, að lenda í algerðri greiðsluþröng gegn erlendum lánardrottnum nema síldin og síldarafurðir. Þess vegna drýgir Alþingi glæp, ef það reynir að hindra aukningu þeirra möguleika, sem fyrir eru til þess að afla okkur þess gjaldeyris, sem okkur er lífsnauðsynlegt að fá, ef við eigum að geta staðið í skilum.

Ég endurtek það, að ég get á engan hátt skilið þessa afstöðu Alþfl. út frá öðru sjónarmiði en því, að hún stafi af heift og hatri í garð þeirra manna, sem eiga Kveldúlf, og því svo taumlausu, að þar fái ekkert annað að komizt.

Það er alveg rétt, sem hæstv. atvmrh. sagði, að ef sú rökstudda dagskrá, sem hér liggur fyrir, verður samþ., þá er þar með gefin heimild til að reisa stærri, ef til vill margfalt stærri verksmiðju, en í öndverðu var farið fram á. Ég geri mér vonir um, að hægt verði fyrir það fé, sem félagið hefir til umráða, að reisa verksmiðju með a. m. k. tveimur vélasamstæðum, sem er áætlað, að gætu unnið úr a. m. k. 5600 málum á sólarhring. Einnig er það rétt hjá hæstv. ráðh., að ef dagskráin er samþ. eins og hún liggur fyrir, þá hefir d. þar með gefið ráðh. bein fyrirmæli um, hvað hann eigi að gera í þessu efni, án hliðsjónar af því, hvað hann sjálfur óskar að gera, og ég tel, að hvorki hann né aðrir ráðh. geti hliðrað sér hjá að virða þennan þingvilja. Því er það rétt hjá hæstv. ráðh., að ef dagskráin er samþ., þá er honum skylt að veita leyfi fyrir verksmiðju, sem sennilega verður miklu stærri en í öndverðu var óskað leyfis um. Það er rétt, að félagið hefir yfir £ 40 þús. að ráða til að reisa hana, og hefir fengið loforð fyrir 150 þús. kr. og vilyrði fyrir, að það yrði hækkað, ef með þyrfti. Það kom sérstaklega til tals, eftir að það var ljóst, hversu gífurlega mikla tolla ber að greiða af þeim vélum og því efni, sem nota þarf til verksmiðjunnar, en tollarnir skipta mörgum tugum þúsunda.

Ég mun svo ekki leggja neina áherzlu á að fara í karp um þetta mál. Ég hefi gert grein fyrir afstöðunni eins og hún er frá minni hendi. Ég veit, að það er rétt, að örlög þessa máls eru ákveðin, og mig má gilda einu, hvort jafnaðarmenn sætta sig betur eða verr við það.