19.04.1937
Neðri deild: 43. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í C-deild Alþingistíðinda. (1407)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég vil fyrst segja hæstv. forseta, að mig furðar á langlundargeði hans við þessar umr. (ÓTh:

Heyr á endemi). Já, það voru nú endemin meiri, þegar þessi hv. þm. fór að gerast fjármálatilhreinsari hér á þingi. Ég veit ekki, hvort það er hans bandamönnum að þakka.

Út af hv. þm. G.-K. vildi ég fyrst minnast á orð, sem hann lét falla við 1. umr. þessa máls, sem var útvarpað og enginn alþýðuflokksmaður átti kost á að svara. Hann lét sér sæma að bera það fram, að í minni tíð hefði Kaupfélag Reykvíkinga fengið 160 þús. kr. eftirgjöf. Ég segi ekki, að hann hafi gefið í skyn, að svo eða svo mikið af þessum þúsundum hafi runnið í minn vasa, en það mátti eftir orðum hans gera það sennilegt. Hann veit þó, að þetta var áður en ég tók við. Hann segir, að undir Haraldi Guðmundssyni hafi Kaupfélagi Reykjavíkur verið gefnar eftir 160 þús. kr. En hann veit, að ég tók við, eftir að þetta félag var gert upp. Og nú staðhæfir hann, að Stefán Jóh. Stefánsson hafi ætlað að hafa 100 þús. kr. út úr ríkissjóði; er hann fór utan fyrir nokkru og það eftir að hæstv. fjmrh. hefir lýst yfir því, að þetta sé með öllu tilhæfulaust. Þannig stendur hann hér með fettum og brettum og guðsorðasvip og ber Finni Jónssyni á brýn óhæfa fjármálastj. á samvinnufélagi Ísfirðinga, og bróðir hans situr hér og virðist vera búinn að fá þessi „5%“ á heilann og gripur fram í án afláts, þrátt fyrir aðvaranir hæstv. forseta. Það er reyndar skiljanlegt, að þeim sárni svo þetta Kveldúlfsmál, að þeir gleymi jafnvel öllum mannasiðum. — Flest það, sem hv. þm. segir um Finn Jónsson, er hreinn þvættingur. En ef hann telur stj. samvinnufélags Ísfirðinga hafa verið svo áfátt sem hann lætur, þá getur hann krafizt rannsóknar á félaginu. En það gerir hann ekki, þegar út fyrir þinghelgina kemur. (GÞ: Hæstv. ráðh. gæti eins krafizt rannsóknar). Ég er ekki dómsmrh. Það er hægt að kæra til hvaða lögreglustjóra sem er.

Þessir hv. þm. horfa öfundaraugum til þeirra 5000 kr., sem Finnur Jónsson hefir fengið fyrir stj. síldarverksmiðjanna, og ætti það þó að vera óþarfi, með tilliti til þess beins, sem Landsbankinn hefir stungið að Kveldúlfi, því að þetta bein hefir þá undursamlegu náttúru, að þegar búið er að þrautnaga það og farið svo með það í bankann, bætist jafnótt kjötið á það. Ég skil, að þeim hljóti að vera sárt um beinið sitt, en þar fyrir ættu þeir að geta tamið sér siðaðra manna hátt.

Þá vil ég svara fyrirspurn hv. þm. V.-Húnv. um það, hve lengi ég ætli að sitja í ráðherrastóli, eftir að samvinnu stj.flokkanna hefir verið slitið. Alþfl. sér ekki ástæðu til, þó að til samvinnuslita hafi komið, að taka sinn mann út úr stj. nema því aðeins, að Framsókn geri slíkt hið sama. Ég veit, að hv. þm. G.-K. myndi gjarnan vilja taka við og sitja fram til næstu kosninga, því að lengur myndi hann ekki sitja. Hinsvegar hefi ég ekki trú á, að hann geti fengið nauðsynlegan meiri hl. bak við sig, sem til þess þarf, svo að sá draumur hans getur tæplega rætzt.