20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 191 í C-deild Alþingistíðinda. (1411)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Héðinn Valdimarsson:

Ég vil geta þess, að við þá fyrirspurn, sem ég hefi gert til hæstv. fjmrh., hefir komið greinilega í ljós, að það fé, sem hann sagði, að myndi koma frá Thor Jensen til hlutafélagsins Kveldúlfs, kemur ekki undir öðrum kringumstæðum en Kveldúlfur yrði gerður upp. Í öðru lagi vildi hann ekkert í ljós láta um það, hvort Kveldúlfur yrði gerður upp, þótt hann héldi áfram að tapa sem svarar ½ millj.

Þau ummæli, sem hafa komið fram af hálfu hæstv. fjmrh., bæði hér á þingi og í Nýja dagblaðinu, um millj., sem búið sé að ná fyrir tilstilli Framsfl., eru ekkert nema blekking. Fyrir utan það, að upphæðin nemur ekki nema litlum hluta af þessu, þá er þetta aðeins trygging, en ekkert fé til félagsins.

Hv. þm. G.-K. talaði mikið um nauðsynina á því, að koma upp síldarbræðslustöðvum hér á landi. Það er að vísu rétt, að það er ágætt að auka síldarbræðsluna. Þó er allt bezt í hófi. Það er mál út af fyrir sig. Hitt er annað mál, hvort það eigi að vinna það til, að láta Kveldúlf halda áfram í sinni skuldaflækju og gefa honum leyfi og hjálpa til að reisa síldarbræðslustöð á Hjalteyri, sem þó er ekki betur undirbúin en svo, að það er ekkert fé til.

Þá er það eitt atriði enn, sem ég vil víkja að, það er viðvíkjandi þeim rógi, sem þessi þm. kom með í garð hv. þm. Ísaf. Orðbragð hans var svo sóðalegt, að ég get ekki verið að fara út í það. Hv. þm. gaf það í skyn, að það myndi vera samband á milli hv. þm. Ísaf. og kommúnistaflokksins, þar sem hv. þm. Ísaf. hefði sennilega fengið fé fyrir það að útvega kommúnistafl. einkaleyfi á útflutningi til Póllands. Þetta er vitanlega tilhæfulaus uppspuni. Fyrst og fremst hefir hv. þm. Ísaf. ekki haft nein afskipti af afgreiðslu útflutningsleyfa fiskimálan. til Póllands, hvorki hvað snertir frysta síld eða fisk. Hann hefir ekki komið á fund eða talað við einn einasta mann í n. um þetta. Í öðru lagi hefir kommúnistafl. ekki komið nálægt þessu firma, sem nefnist „Compensation Trade Co“. Það vinna þar raunar tveir kommúnistar á skrifstofunni, en að flokkurinn hafi þar nokkra hlutdeild, hygg ég, að sé ekki. Þetta er álíka viturlegt og að segja, að Sjálfstfl. ræki öll fyrirtæki, sem sjálfstæðismenn eru starfandi við. Þetta firma fór síðastl. haust fram á að fá útflutningsleyfi á fiski til Póllands. Og eftir ýtarlega athugun á því, hvort fiskimálan. ætti að hafa þetta með höndum eða þetta firma, varð úr að veita því útflutningsleyfi með þeim skilyrðum, að aðrir fengju ekki að flytja út á meðan, til þess að spilla ekki fyrir markaðinum. Fiskurinn var borgaður með sæmilegu verði, að jafnaði 10 aura pr. kg., og fiskimennirnir voru ánægðir með það. Og þarna fannst nýr markaður, þótt ekki væri hann stór. Í febr. komu svo menn frá þessu félagi afturtil þess að fá útflutningsleyfi til Póllands næsta útflutningsár, og var þá um aukið magn á fiski og hraðfrystri síld að ræða. Þeir settu aftur það skilyrði, að þeir væru einir um hituna. Stóð á því í nokkurn tíma hjá fiskimáln., að gefa leyfi til þess, að þeir fengju að vera einir um þetta. En þegar það kom í ljós, að aðrir kærðu sig ekkert um þetta, var það samþ. Og verðið, sem greiða má fiskimönnum, hefir verið svo gott, að ég hygg, að enginn hiki við að selja fisk þangað. Nú hefir þetta félag auglýst eftir fiski, og ég hygg, að verðið sé það sama og áður. Síldin á að koma síðar. Þeir vilja um 300 tonn af fiski og 500 tonn af síld. Og þessi síld er einmitt Faxasíld, sem mest vandræðin hafa verið með. Ég vil geta þess, að þeir, sem lögðu mesta áherzlu á það í fiskimálan., að þetta leyfi væri veitt, voru einmitt sjálfstæðismenn. Þar á meðal var Ólafur Björnsson frá Akranesi. Og ég hygg, að hv. þm. G.-K. geri það ekki eftir vilja kjósenda sinna að vera á móti þessu máli, því að bæði frá Keflavík og Njarðvíkum komu háværar kröfur um, að þetta væri leyft. Og það er ærið hart, að sá maður, sem þykist vera formaður útvegsmanna, skuli snúast á móti og saka þá, sem hafa veitt þeim stuðning, um að hafa þegið mútur. Slíkt er engum sæmandi, nema þessum þm.