20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í C-deild Alþingistíðinda. (1412)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Sigurður Kristjánsson:

Ég sé ekki hæstv. atvmrh. hér í d. Þegar ég kvaddi mér hljóðs, var það vegna þeirrar ræðu, sem hann flutti um þetta mál. Ég veit ekki, hvort ég gæti fengið hv. 1. landsk., sem hefir verið bendlaður við lántökur, til þess að reyna að fá hann lánaðan hjá Ed. Ég skyldi tileinka hv. þm. einhvern hluta af því, sem ég segi, t. d. 5%, ef hann gæti útvegað mér ráðh. til að hlusta.

Tilefnið til þess, að ég kvaddi mér hljóðs, var það, að hæstv. atvmrh. lýsti vanþóknun sinni á þessari dagskrártill., sem hér liggur fyrir. Mér kom þetta mjög á óvart og ekki sízt, þegar aðrir flokksmenn hans hér í d. fóru einnig að lýsa vanþóknun sinni á þessari till. Og mín undrun stafaði af því, að það hefir verið komið til mín og leitast fyrir um það, hvort ég myndi fáanlegur til þess að greiða dagskrártill. atkv. Ástæðan, sem færð var fyrir því var sú, að atvmrh. væri búinn að neita Kveldúlfi um byggingarleyfi fyrir síldarverksmiðju og að það myndi kosta hann að fara úr ráðherrasæti, ef frv., sem hér liggur fyrir, væri fellt. Og þetta átti þá að vera brú fyrir ráðh., til þess að hann gæti lafað í þessu sæti í tvo mánuði ennþá, að Alþingi fyrirskipaði honum að veita þetta byggingarleyfi.

Nú verð ég að láta mér þykja hvorutveggja jafnundravert, að ráðh., eftir ósigur sinn í því máli, sem hann hefir látizt gera að fráfararatriði og samningsslitum við Framsfl., ætli ekki að láta það varða því, að hann fari úr ráðherrasæti, og hitt undrar mig ekki síður, ef hann vill ekki kannast við það, að fyrir hann hefir verið leitað eftir því, að finna þessa lausn á málinu, til þess að hann gæti setið í þessu sæti eitthvað svolítið áfram. Ég vildi skýra frá þessu, af því að mér leiðist að hlusta alltaf á svona skýrslur, sem eru gefnar mót betri vitund, eins og það sé

bagalegt fyrir hæstv. atvmrh., að þessi leið hefir verið tekin í málinu, — leið, sem hans flokksmenn hafa verið að reyna að finna og fá menn til þess að samþykkja, til þess að hann gæti lafað í þessu sæti tvo mánuði enn.

Annars var það nægjanlegt tilefni til þess, að ég segði nokkur orð, þegar hæstv. ráðh. fór síðar að tala um, hvað hættulegast yrði í þessu máli. Og það var, að því er mér skildist, að félagið kynni að byggja stærri verksmiðju en svo, að hún gæti unnið úr 2–3 þús. málum á sólarhring. Mér skildist það á hæstv. ráðh. og hans flokksmönnum, að þeirra þátttaka í þessu máli væri einkanlega bundin við hagsmuni hinna svokölluðu vinnandi stétta, verkamanna og sjómanna fyrst og fremst. En ég vildi sjá þann verkamann eða sjómann, sem segði, að honum væri það helzt til meins gert, ef bætt væru skilyrðin fyrir því, að hægt væri að taka á móti meiri síld til vinnslu hér á landi en nú er. Það er undravert, hvað sumum mönnum helzt lengi uppi að leika tveim skjöldum, eins og þm. Alþfl., sem berjast á móti því, að atvinnan sé aukin í landinu, en berja sér svo á brjóst og segjast vilja opna nýjar leiðir til aukningar á atvinnu fyrir verkalýðinn. Slík hræsni er alveg óþolandi, einkanlega þegar á að fara að troða slíku inn í menn með fullri skynsemi.

Í umr. hér í gær hélt ég í fyrstu, að það mundi alls ekki verða um annað rætt en þessa dagskrártill. Ég gerði því ekki ráð fyrir að tala um önnur atriði. En hv. þm. Ísaf. leiddi þessar umr. inn á þá braut, að deila um Kveldúlf, og tók hann þar upp gamla rógburðinn, gömlu ósannindin og staðlausu stafina um starfsmenn þess félags. Af þessu spunnust allmiklar umr., svo að það hefði verið full ástæða til þess að taka málið nú til meðferðar nokkuð almennt. En hæstv. forseti hefir heldur mælzt til þess, að menn stytti mál sitt, og vil ég því gæta hófs í því, að lengja umr. Í annan stað sýnist mér eftir umr. í gær tæplega hægt að vera að auka á hrellingar hv. þm. Ísaf. Mun ég því fara lítið út í hans ræðu. Ég get þó ekki látið hjá líða að minnast ofurlítið á það, sem þessi þm. sagði um óreiðuna hjá Kveldúlfi. Fór hann um það hinum herfilegustu orðum, sem hafa verið töluð á Alþingi. Hann sagði, að þetta væri það grófasta og stærsta fjársvikamál, sem hér hefði þekkzt, og þeir, sem því hafa stjórnað, þar af leiðandi hinir grófustu og stærstu fjársvikarar. Þessi orð væru þung, ef þau kæmu ekki út úr þessum munni. En til marks um þá virðingu, sem þessi þm. nýtur, er það, að menn láta þessi orð sem vind um eyrun þjóta.

Í þessu sambandi vil ég segja það, að ég álít alveg einsdæmi framkomu Thors Jensens, sem hefir boðið fram allar eignir sínar til tryggingar fyrir skuldum Kveldúlfs, sem honum vitanlega kemur ekkert við fjárhagslega. Þessi maður hefir þannig á gamals aldri fórnað öllum eignum sínum, og mun slíkt vera ákaflega sjaldgæft, en þó mun hitt enn sjaldgæfara, að því sé tekið með eins miklum dónaskap og af stjórnarflokkunum, sem í óeiginlegri merkingu hafa hrækt framan í þennan heiðursmann. Ég hygg, að það muni vera með jafnmiklum fádæmum og sú útreið, sem viðskiptamenn hafa fengið hjá því félagi, sem þm. Ísaf. hefir stjórnað. Ég hygg, að hv. þm. gæti ekki, þótt hann fengi ársfrest, leitað uppi einn einasta mann, af þeim þúsundum og tugum þúsunda, sem hann sagði, að hefðu verið sviknir um kaup hjá hlutafélaginu Kveldúlfi, sem ekki hefir verið borgað, og það á réttum tíma. En ég hygg líka, að hann gæti engan fundið, sem unnið hefði fast hjá því félagi, sem hann stjórnar, sem myndi vilja eða þora að bera það vegna heiðurs síns, að hann hefði fengið það, sem honum bar. Það er svo, að það hefir verið dregið af hlut hvers einasta manns, sem unnið hefir hjá félaginu, á sjó eða í landi. Ég get sagt hv. þm. það, og öllum öðrum, að ég hefi nýlega tekið á móti manni, sem hefir komið til mín oftar en einu sinni, bláfátækum manni, sem hefir unnið hjá félagi F. J. Hann var að biðja mig um það í sinni fátækt og eymd, að ég hefði milligöngu um það, af því hann var hér ókunnugur, að hann fengi einhverja atvinnu, sem hann gæti dregið fram lífið á, hjá Kveldúlfi. Meðal annara báginda sagði hann mér frá því, að hann hefði unnið hjá félagi Finns Jónssonar á Ísafirði. Hann kvaðst ekkert hafa upp á það að klaga frekar en aðrir, en það hefði verið haldið eftir hluta af kaupi sínu, sem sig náttúrlega munaði dálítið um, þótt það hefðu ekki verið nema nokkur hundruð kr., og af því fengi hann víst ekki neitt meir. Ég varð við tilmælum þessa manns og talaði um það við forstjóra Kveldúlfs, hvort þeir gætu látið hann hafa nokkra atvinnu, og þegar þeir heyrðu um hans ástæður, gerðu þeir það. Ég veit ekki annað heldur en hann sé að vinna sér fyrir aurum þarna nú, að baki sér með svikin frá félagi hv. þm. Ísaf., en framundan vonina um, að þetta margrógborna félag, Kveldúlfur, geti haldið í honum lífinu að einhverju leyti.

Það er enginn vafi á því, að þarna er mikill munur á, og það eru undur, að slík dirfska er til, sem hv. þm. Ísaf. hefir sýnt í þessu máli. Hann hlýtur að hafa það sér til málsbóta, að hann hafi ekki skilning né siðferðisþroska til þess að sjá, hver óhæfa framkoma hans í þessu máli er. Ég hefi ekkert ofsagt í þessu efni, en eitt er vansagt. Og það er, að einn maður hefir fengið allt sitt hjá samvinnufélagi Ísfirðinga, og e. t. v. rúmlega það, sem hann átti skilið. Það er forstjóri félagsins, en hann hefir líka haft eins mikið kaup eins og 10–20 sjómenn. Þegar félagið kom til skuldaskilasjóðs og bað um uppgjör, var lagður fram 40–45 þús. kr. skuldalisti yfir skuldir félagsins við verkamenn og sjómenn. En þar sást engin skuldakrafa frá forstjóra félagsins; hann einu hafði fengið allt sitt greitt. Finnst ekki hv. þm. dálitlum tíma eyðandi til þess að hlusta á þær siðferðisreglur, sem þessi maður getur gefið okkur? Mundi ekki viðskipta- og fjármálalíf þjóðarinnar græða á því, að menn leggi niður fyrir sér þær reglur, sem hann hefir fyrir sínu framferði á þessu sviði?

Ég skal nú ekki eyða meiri tíma, en vil aðeins út af því, sem hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að hv. þm. Ísaf. væri saklaus af þeirri einu synd, sem á hann væri borin, sem sé að hafa átt þátt í þessum tunnuviðskiptum við Pólland, spyrja hv. þm., hvenær við megum eiga von á, að þessi sæla fiskimálanefnd skili skýrslu um starf sitt. Við höfum nú beðið 2 ár eftir skýrslu þessarar n. Hún hefir tekið við hundruðum þúsunda úr ríkissjóði og geysimiklu fé annarsstaðar að, einkum frá útgerðinni, og við bíðum eftir skýrslu um, hvernig öllu þessu fé hefir verið varið. Hvernig er þessu farið? Er e. t. v. eitthvað óklárt við Póllandsviðskiptin og þetta einkaleyfi kommúnistanna þar, sem ekki má koma fram, eða hvaða kökkur stendur nú í hv. 2. þm. Reykv., sem þykist svo fljótur til að gefa skýrslur um hvaðeina? Ég óska, að fá þessu svarað, — hvað tefur skýrsluna frá fiskimálanefnd?