20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 195 í C-deild Alþingistíðinda. (1414)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Finnur Jónsson:

Ég skal stytta mál mitt eins og ég get samkvæmt ósk hæstv. forseta, þótt ég fengi lítinn ræðufrið um þetta mál í gær. En þar sem umr. hafa nú snúizt öllu meira um mig og mín málefni heldur en það mál, sem fyrir liggur, þá hlýt ég að svara nokkrum orðum. Skal ég byrja á hv. 6. þm. Reykv., sem fyrir nokkrum árum er fluttur hingað til Reykjavíkur og stundar nú, að því er kallað er, skósveinsstörf hjá Kveldúlfi. Hann talaði um það, þessi hv. þm., hverrar virðingar ég nyti hér á þingi. Ég fyrir mitt leyti væri ekki ánægður, ef ég nyti ekki meiri virðingar og trausts í mínum flokki heldur en hv. 6. þm. Reykv. nýtur í sínum, og læt ég svo úttalað um það atriði.

Þá var hv. þm. að tala um þá fádæma útreið, sem viðskiptamenn samvinnufélags Ísfirðinga hefðu fengið. Nú vita menn ekki ennþá, hverja útreið viðskiptamenn Kveldúlfs fá á sínum tíma, þegar það fyrirtæki verður gert upp, því að einhverntíma rekur að því, að það verði gert upp, og því meira fé sem sökkt er í þá skuldahít, því verri útreið fá viðskiptavinir þess. Ég er ekki í minnsta vafa um, að mikið felst í þeirri ágætu lýsingu, sem einn af helztu mönnum Sjálfstfl. gaf á fjárhag Kveldúlfs með þessum frægu orðum: „7 milljónir, 7 koppar“. Þetta er stuttorð og gagnorð lýsing, og þegar svo við þetta bætist 2–3 millj. ný lán, er ekki útilokað, að útkoman verði verri, þegar öll kurl koma til grafar, heldur en hjá atvinnubótafyrirtækinu á Ísafirði, þrátt fyrir þess erfiðu aðstöðu.

Hv. þm. var að gefa átakanlega lýsingu af fátækum atvinnulausum manni, sem komið hefði hingað til Reykjavíkur, verið áður illa meðhöndlaður af samvinnufélagi Ísfirðinga, en nú snúið sér til 6. þm. Reykv. og fyrir hans milligöngu fengið dýrðaraðstöðu í faðmi Abrahams hér í höfuðstaðnum. Þetta er vitanlega eins og sögurnar, sem sagðar eru á kristniboðsfundum, um góðu börnin, sem snúast til betra lífernis og hljóta laun sín fyrir, eins og hv. 6. þm. Reykv. líka gerir, þótt hann muni ekki ofhaldinn af.

Hv. þm. talaði um, að eini starfsmaður samvinnufélags Ísfirðinga, sem ekki hefði komið með kröfur á hendur félaginu fyrir vangoldnum launum, þegar skuldaskilin fóru fram, hefði verið framkvæmdastjórinn. Það var af þeirri ástæðu, að hvorki framkvæmdastjórinn eða aðrir skrifstofumenn félagsins gerðu yfir höfuð kröfur fyrir því, sem þeir áttu inni hjá félaginu. Þess vegna sjást engar kröfur frá mér í sambandi við skuldaskilauppgjörið, þótt ég ætti dálítið hjá félaginu, sem þó var minna heldur en ég hefði viljað.

Um siðferðisþroska minn og hv. þm. Ísaf. kæri ég mig ekki um að gera samanburð. Fjármálasiðferði þessa hv. þm. geta þeir dæmt um, sem fylgdust með því, hvernig hann skildi við á Ísafirði og hverskonar fjármálabrögð hann hafði þar í frammi, þegar hann fékk erfðafestuland hjá bænum, sem ekki var meira en 50–60 kr. virði, girti það að nokkru leyti með einum streng og sló svo út á það 17 þús. kr. lán í Útvegsbankanum. Þetta eru nú fjármálaviðskipti þessa manns við íhaldið.

Ég sný mér svo ekki frekar að þessum hv. þm. Hann er hér hvað eftir annað með glósur um mín fjármálaviðskipti, sem ég veit ekki til, að neinn hafi tapað á, en aftur á móti stendur hann þannig að vígi í þessum efnum, að hann býr í því veikasta glerhúsi, sem ég veit til, að nokkur maður búi í.

Þá sný ég mér að hæstv. fjmrh. Hann var að tala um afstöðu Jóns Baldvinssonar, forseta Alþýðusambandsins, í Kveldúlfsmálinu. Nú hefir Jón Baldvinsson, eftir því sem mér er sagt, verið spurður að því í bankastjórninni, hvernig hann vildi greiða atkv. í þessu máli, en hann vísaði til afstöðu Alþfl. í málinu, sem allir vita, að er andstæður þeirri lausn, sem hæstv. fjmrh. féllst á. Hæstv. ráðh. getur náttúrlega talað það, sem honum sýnist, um hvernig hjörtun og nýrun eru í alþýðuflokksmönnum. Og ég get á sama hátt talað um það, hvernig sumir framsóknarmenn voru með flokkssamþykktum og harðfylgi kúgaðir til að greiða þessu máli atkv., þvert ofan í vilja sinn og það, sem þeir voru búnir að tala og skrifa um málið. Ég ætla ekki mikið út í þá sálma, en mig langar þó til að minna með örfáum orðum á afstöðu Jónasar Jónssonar. Allt, sem ég hefi sagt á þingi, öll þau orð, sem hæstv. fjmrh. fannst oftöluð hjá mér, eru reykur einn samanborið við það, sem Jónas Jónsson hefir sagt um þetta mál fyrr og síðar. Hann gekk svo langt, að hann sagði, að það hlyti að fara eins með þetta Kveldúlfsmál eins og Landmandsbankamálið í Danmörku, en eins og menn vita, endaði það á því, að einn af bankastjórunum skaut sig. Eftir þessum ummælum hv. þm. S.-Þ. verður ekki annað séð heldur en að hann hafi haft hlaðna skammbyssu í bakvasanum til þess að rétta að þeim mönnum, sem gera vildu á þessu máli aðra lausn en þá, að skip Kveldúlfs skiptu um eigendur. Hvað gengið hefir á innan Framsfl., áður en gamli maðurinn stakk byssunni í vasann aftur, veit ég ekki, en það hefir sjálfsagt ekki verið lítið.

Hæstv. fjmrh. var að tala um, hvers vegna ég hefði ekki borið fram vantraust á sig. Hann veit það ofurvel, og hann veit líka, að stjórnarsamvinnunni hefir nú verið slitið, m. a. út af þessu máli. Annars má athuga það, ef vantraust hefði komið fram á stj. eða hæstv. fjmrh. sérstaklega, þá gat það ekki leitt til annara breytinga heldur en að hv. þm. G.-K. tæki sæti fjmrh., og þótt hæstv. fjmrh. hafi gert mjög rangt í þessu máli, mesta glappaskotið í sinni stjórnartíð, þá óska ég ekki eftir, að hv. þm. G.-K. komi í hans stað. Ég vildi fremur óska þessum unga og efnilega stjórnmálamanni þess (Fjmrh: Er ég nú allt í einu orðinn efnilegur?), að hann geti kveðið niður þau íhaldsöfl, sem illu heilli fengu hann til þess að ganga inn á þá óhæfu, sem lausn þessa máls er. Annars er vitanlega vandræðaaðstaða fyrir hæstv. fjmrh. og þá, sem yfirleitt vilja vinna að því, að útrýma fjármálaspillingu í landinu, og þau vandræði eru m. a, fólgin í því, að Framsfl. er milliflokkur, sem helzt vill aldrei stíga nema hálf spor.

Hæstv. fjmrh. sagði, að í þessu máli mundum við Alþýðuflokksmenn bera skarðan hlut frá borði við kosningarnar. Ég fyrir mitt leyti er ánægður með að láta dóm reynslunnar skera úr um þetta. En ég heyri, að hæstv. fjmrh. er þegar farinn að uppskera nokkuð af þeim þökkum, sem hann má vænta frá sjálfstæðismönnum í þessu máli. Hv. þm. G.-K. hefir verið orðinn mjög aðþrengdur í skuldasnörunni, þegar hæstv. fjmrh. tók ábyrgðina á að skera hann niður, en lifnaði þó fljótt við aftur, og mun honum fara eins og þjóðtrúin sagði um afturgöngurnar, að þeir, sem vaktir voru upp, áður en þeir voru fulldauðir, urðu ætíð verstir viðfangs. Þakkirnar, sem hæstv. fjmrh. fær fyrir að skera þennan hv. þm. niður úr skuldasnörunni, eru þær, að við 1. umr. þessa máls í gær sagði hv. þm. G.-K., að ég vildi lofa hæstv. fjmrh. að hanga lengur við völd, til þess að hann gæti stolið helmingi meira en hann væri búinn. (Forseti hringir). Ég geri ekki annað en taka upp það, sem hv. þm. G.-K. sagði um hæstv. fjmrh. hér í gær, og það kom þá ekkert við tilfinningar hæstv. forseta. Ég álít þessi orð hv. þm. G.-K. ómakleg og tilhæfulaus. Þótt ég sé ekki sammála hæstv. fjmrh. í þessu máli, þá tel ég það ósvífni af hv. þm. G.-K., þótt hæstv. fjmrh. skæri hann niður úr skuldasnörunni, að viðhafa þessi ummæli um verk hans í ráðherrasessi.

Hv. þm. G.-K. sagði, að ekki væri að vita, hvað Samvinnufélag Ísfirðinga entist lengi, þótt það væri nú búið að fá skuldaskil. Ég veit heldur ekki, hvað Kveldúlfur endist lengi með þessi nýju „skuldaskil“ sín, en ég veit, að ending Samvinnufélags Ísfirðinga styttist ekki vegna þess, að þeir, sem við það vinna, dragi fé út úr fyrirtækinu á óheiðarlegan hátt. Að öðru leyti er það um endingu Kveldúlfs að segja, að það fyrirtæki virðist ætla að endast, meðan Landsbankinn endist og lánstraust landsins, og á meðan þolinmæði Framsfl. við þetta mæta fyrirtæki endist.

Hv. þm. G.-K. var að tala um afskipti mín af síldarsölu, sem hann taldi, að hefði farið fram á óheiðarlegan hátt, mér skildist helzt í Póllandi, af hálfu síldarútvegsnefndar. Árið 1935 var ég ásamt hv. þm. Vestm. í síldarsöluerindum í Póllandi. Komumst við þá að því, að maður, sem selt hafði síld fyrir samlag íslenzkra matjesíldarframleiðenda, var genginn í þjónustu pólskra kaupenda, eftir að hafa komið í gegn sölu fyrir samlagið. Ég skal taka það fram, að maður þessi hafði aðeins eina sölu með höndum, fékk 1% í sölulaun og var síðan úr þjónustu samlagsins. Okkur hv. þm. Vestm. þótti þetta þó óviðfelldið og reyndum að athuga, hvernig í þessu lægi. Maðurinn, sem þarna var um að ræða, skrifaði okkur bréf um þetta efni og gaf okkur á þessu útskýringu, sem við eftir atvikum gátum sætt okkur við. Og eftir að okkur tókst ekki að selja neina síld í Póllandi að þessu sinni, af því að ómögulegt var að komast að samningum við innflytjendur þar, áður en við fórum, gáfum við þessum manni heimild til að selja 10 þús. tunnur, ef hann gæti náð samningum um ákveðið verð. Við vorum sammála um það, hv. þm. Vestm. og ég, að þarna væri ekki um meira saknæmi að ræða en það, að við töldum rétt að gefa þessum manni færi á að selja aftur fyrir síldarútvegsnefnd eins og hann hafði gert fyrir matjessíldarsamlagið. Læt ég svo útrætt um þessa Póllandssölu.

Þá var hv. þm. G.-K. að tala um, að ég hefði ekki viljað taka persónulega ábyrgð á skuldum Samvinnufélags Ísfirðinga, eftir að það var gert upp. Nú er vitanlegt, að ég var ekki einn um þá ábyrgð, og flestir félagsmenn munu hafa litið svo á, að þeirra ábyrgð væri aflétt með þeim skuldaskilum, sem félagið fékk hjá skuldaskilasjóði vélbátaeigenda, því að annars væru þau gagnslaus. Ég býst við, að ef ég hefði mátt ráða, hefði ég viljað taka á mig minn hluta af þessari ábyrgð, en þar sem ég var ekki einn um þetta, gat ég vitanlega engu ráðið um það. En hv. þm. G.-K. var um leið að lýsa því, að hann bæri persónulega ábyrgð á öllum skuldbindingum Kveldúlfs. Ég býst við, að sú ábyrgð verði harla lítils virði, þegar hann og bræður hans skulda Kveldúlfi ½ millj. kr. sameiginlega. Þeir hafa með öðrum orðum tryggt það, að ef til þess kæmi, að gengið væri eftir þessari ábyrgð, þá væru þeir búnir að fá svo mikil lán hjá fyrirtækinu, að gott þætti, ef þeir gætu greitt einhvern hluta af sínum eigin skuldum.

Ég get ekki skilið svo við þetta mál, að ég minnist ekki á kröfu Kveldúlfs um að fá að greiða 5% vexti af öllum skuldum sínum. Það er ekki að furða, þótt þessi 5% séu nokkuð föst í höfðinu á þeim hv. þm. þessa fyrirtækis hér í d., þar sem þeir fóru þess á leit, að þeirra fyrirtæki eitt allra fyrirtækja á landinu fengi að greiða aðeins 5% vexti af skuldum sínum, þegar aðrir viðskiftavinir bankanna greiða 6%.

Út af ummælum hv. þm. G.-K., er hann var að bera mér á brýn margskonar fjárdrátt frá þeim fyrirtækjum, sem ég hefi verið við riðinn, get ég vitanlega ekki sagt annað en það, að þau eru algerlega ósönn. En ég skal gefa hv. þm. færi á að fá þetta rannsakað. Eg skal frammi fyrir öllum þingheimi gera honum það tilboð, að ég skal fara þess á leit við hæstv. dómsmrh., að hann láti fara fram opinbera rannsókn á öllum þeim fjárreiðum, sem ég hefi haft með höndum, og þeim fyrirtækjum, sem ég hefi veitt forstöðu, með því skilyrði, að hann geri það sama viðvíkjandi h. f. Kveldúlfi. Og ég skora hér með á hv. þm. G.-K. að taka þessu tilboði mínu um gagnkvæma rannsókn, ef hann hefir nokkuð meint með aðdróttunum sínum í minn garð og þorir að standa við þær, og þá látum við rannsóknina fara fram tafarlaust. (ÓTh: Ég hugsa, að ég sanni þjófnað á hann einhvern næstu daga, og það rannsóknarlaust. — Forseti hringir).