20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 201 í C-deild Alþingistíðinda. (1419)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Ólafur Thors:

Aðeins örstutt aths. Ég hefi nú svo mikið um þetta mál talað, að ég er búinn að segja flest það, sem ég þarf um það að segja. Og þó að jafnaðarmenn hér í hv. d., þeir menn, sem sérstaklega sækja þetta mál af persónulegri óvild, séu með hnútukast og rangfærslu, sé ég ekki ástæðu til að fara nú að reka ofan í þá enn einu sinni sömu ósannindin og blekkingarnar, sem ég þegar hefi marghrakið. En út af þessu göfuga tilboði hv. þm. Ísaf., að hann væri fús að ganga undir rannsókn og dóm út af sínum gerðum, ef ég vildi gera það sama viðvíkjandi mínum gerðum, þá vil ég segja það, að ég skal hafa þetta boð hans hugfast og athuga það, ef til kemur. En ég ætla ekki að leita í því efni til manna eins og Ingólfs Jónssonar, rannsóknardómara rauðliða. Ég ætla að rannsaka mál hv. þm. sjálfur og vita, hvort ég get ekki hjálparlaust og ríkissjóði að kostnaðarlausu upplýst það, sem ennþá er ekki komið í dagsins ljós í hans málum. Það getur verið, að það takist ekki, en þó er ég ekki vonlaus. En það, sem mig langar til að fá rannsakað, er það, hvaða þátt þessi hv. þm. á í því, sem gerzt hefir í sambandi við sölu síldar í Póllandi. Og ég fullyrði, að hér hafi verið um óheiðarleg viðskipti að ræða, þar sem fé hafi beinlínis ranglega verið haft af landsmönnum. Og hinsvegar vildi ég fá það upplýst, hvaða samband er á milli þessa verknaðar og þess, að hv. 2. þm. Reykv., formaður fiskimálan., hefir veitt kommúnistum einkaleyfi til sölu á frosnum fiski til Póllands. Þetta ætla ég að reyna að rannsaka, en veit náttúrlega ekki, hvernig það tekst. Ég hefi nú þegar nokkur gögn í höndum, sem ég hygg, að ég þurfi á að halda til þess að upplýsa þetta.

Að öðru leyti vil ég að lokum segja það, að afsakanir þær, sem hv. þm. Ísaf. bar fram fyrir því, að hann er að reyna að skjóta sér undan ábyrgð á þeim skuldum, sem félag það, sem hann stjórnaði, hefir ekki getað greitt nema 5% af og þessi sami hv. þm. miklaðist af á þinginu í fyrra, að hann stæði í ábyrgð fyrir, — þær afsakanir sem hann ber fram til þess að komast undan því, að standa við þessa ábyrgð og láta lögsækja sig út af henni, eru haldlausar og sýna innræti þessa manns. Annan daginn, þegar ég upplýsi, að ég sé ábyrgur fyrir skuldum míns félags, þá er hann fljótur til að segja, að hann sé sjálfur ábyrgur um að standa við skuldbindingar síns félags. En um leið og hann heldur, að einhver lagakrókur geti bjargað honum undan þeirri ábyrgð, þá reynir hann í skjóli þess lagabókstafs að forða sjálfum sér, en lætur þá lánardrottna, sem lánað hafa fyrirtækinu, sitja eftir með töpin. Þetta sýnir innræti, drengskap og viðskiptaheiðarleik þess auðvirðilegasta þm. á Alþingi Íslendinga.