20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 203 í C-deild Alþingistíðinda. (1421)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. 2. þm. Reykv. fór inn á eitt sérstakt atriði í skuldaskiptum Kveldúlfs, og það var það, að í þessum samningum milli bankanna og þessa félags væri ekki gert neitt ráð fyrir því, að bræðurnir, sem skulduðu Kveldúlfi, þyrftu að standa við sínar skuldbindingar gagnvart félaginu. Ég hygg, að hv. 2. þm. Reykv. viti, að þetta er alls ekki rétt, því að í samningunum er gert ráð fyrir því, að bræðurnir veðsetji eigur sínar fyrir þessum útistandandi skuldum félagsins. Ég býst nú við, að hv. 2. þm. Reykv. geti nú veitzt erfitt að borga allar sínar skuldir, t. d. á morgun. (ÓTh: Nei, Nei! Þetta er alls ekki rétt.)

Þá sagði hv. 2. þm. Reykv., að það væri sannað, að sennilega ætti að bæta við til þessa fyrirtækis 450 þús. kr. láni. Þannig eru nú þær fullyrðingar, sem Alþfl. viðhefir í þessu máli. Það er dálítið einkennilegur málflutningur að segja, að það sé sannað, að sennilega eigi að gera eitthvað, sem um er að ræða.

Annars vil ég segja hv. 2. þm. Reykv. það, út af því sem hann talaði um traust eða vantraust á mér og afstöðu Alþfl. til samvinnu um stjórn, að hvert mannsbarn veit það, að Alþfl. ætlaði að kljúfa samvinnuna á Kveldúlfsmálinu. En eftir að búið var að ráða til lykta því máli á þann hátt sem það var gert, og það varð upplýst fyrir þjóðinni, þá þorðu ekki alþýðuflokksmenn að slíta samvinnunni í tilefni af þessu máli einu saman; þessu ódæði, sem hv. þm. Ísaf. kallaði það, heldur urðu þeir að bæta við öðrum ágreiningsmálum til þess (StJSt: Þetta er ekki rétt). Þeir þorðu ekki að slíta samvinnunni, nema hún slitnaði á öðrum málum jafnframt.