20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 206 í C-deild Alþingistíðinda. (1426)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Sigurður Kristjánsson:

Hv. þm. Ísaf. sagði, að ég hefði slegið bankann um 17 þús. kr. gegn veði, sem ekki hefði verið 60 kr. virði. Ég tel hér ómæt ómagaorð. En í sambandi við svona stórar sakir, þá vil ég koma með dálitla leiðréttingu. Ég átti land vestur á Ísafirði. Ég hafði varið nokkum hundruðum króna til að rækta það, og það var girt með einum vírstreng. En Finnur Jónsson gat fengið bæjarstjórnina á Ísafirði til að taka þetta land af mér, þar sem ég hefði ekki girt það innan árs frá því að ég fékk yfirráð yfir því. Svona er þessi saga. Út á þetta land hefi ég aldrei fengið eins eyris lán, en ég lét það sem tryggingu fyrir skuld ásamt öðrum eignum.

Út af því, sem hann sagði, að Kveldúlfur hefði sent mann á kosningaskrifstofu til mín, þá er þess að geta, að ég er ekki á neinni kosningaskrifstofu, svo að til slíks getur ekki komið. En maðurinn, sem hann gat um, kom til mín þegar ég lá veikur um daginn, en ég veit ekki til, að heima hjá mér sé nein kosningaskrifstofa. Hann spurði mig vegna þess að ég hafði verið samborgari hans í 20 ár, hvort ég mundi ekki geta lagt gott til með sér, sem ég gerði. Hann sagðist ekki hafa getað fengið innieign sína hjá þessu félagi, sem hann hafði unnið hjá. En auk þess sagði hann, að til þess að hann hefði getað fengið þessa vinnu, hefði það loforð verið heimtað af sér, að hann kysi þennan mann. Ég hélt, að hv. þm. mundi ekki fara að standa hér upp til þess að vekja máls á þessu atriði, þar sem hans eigin aðstaða er svona. Og ég verð að efast um, að nokkur maður, sem unnið hefir hjá Kveldúlfi, hafi farið svo þaðan, að hann hafi ekki fengið vinnu sína þar að fullu greidda. Ég efast líka um, að nokkur maður hafi farið svo frá hans félagi, að það hafi ekki verið í vanskilum við hann.