20.04.1937
Neðri deild: 44. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 208 í C-deild Alþingistíðinda. (1429)

82. mál, skiptameðferð á búi h/f Kveldúlfs

*Sigurður Kristjánsson:

Hv. þm. Ísaf. var að tala um allundarlegar tilfærslur, sem bankastjóri Útvegsbankans á Ísafirði hefði gert á mínum skuldum. Ég get upplýst, hvernig þessu máli er varið. Bankastjórinn sagði við mig, að hann teldi ekki trygginguna næga fyrir skuldum mínum og vildi því fá veð í eignum, sem ég taldi þá sjálfsagt að veðsetja.

Þá vil ég geta þess, að það mun líklega rétt að láta skoða þennan mann. Hann var að tala um það, að maður hefði farið í Kveldúlf til Hilmars Thors, sem síðan hefði sent hann til mín. Ég veit ekki betur en að Hilmar Thors sé lögfræðingur hér í bæ og komi ekki í Kveldúlf. Sé ég því ekki betur en að rétt sé að láta fara fram skoðun á hv. þm.