05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í C-deild Alþingistíðinda. (1434)

8. mál, vörutollur

*Frsm. (Sigfús Jónsson):

Þetta frv. er flutt að tilhlutun hæstv. stj. og er samið af tollstjóranum hér í Rvík. Hann er vitanlega sá maður, sem mesta reynsluþekkingu hefir hérlendra manna á tollgæzlu og innheimtu tolla, og má því gera ráð fyrir, að frv. sé sniðið eftir því, hvað heppilegast þykir. Auk þess hefir þetta frv. verið sent til umsagnar bæjarfógetanna á Ísafirði og Seyðisfirði og tollgæzlumannsins á Akureyri, og bera umsagnir þeirra með sér, að þeir telja allir þær breyt. til bóta, sem í frv. felast, — að þær muni gera tolleftirlitið auðveldara og veita meiri tryggingu fyrir, að tollskyldum vörum sé ekki skotið undan tolli.

Eins og sjá má af frv. og grg. þess, eru með því sumsstaðar felld niður úr eldri l. ákvæði, sem talin eru úrelt og óþörf, og svo er einnig efnið fært til úr einni gr. í aðra, eftir því sem þykir bezt við eiga. Þetta hefir n. allt athugað. og hennar álit er, að frv. sé til bóta frá eldri lögunum. Leggur hún því til, að það verði samþ., þó með nokkrum breyt., sem birtar eru á þskj. 180.

1. brtt. er við 1. gr., um að orðin „athugasemd á“ falli burtu. Þau virðast komin þarna inn af vangá, því að meiningin er, að farið sé eftir farmskránum, en ekki eftir aths. við þær. — B-liður sömu brtt. er um það, að á eftir orðunum „vörum hingað til lands“ komi: Sé eigi tilkynnt á aðalfarmskránni, hvar vara verði flutt úr skipi, ber að greiða vörutollinn á fyrstu höfn, er skipið tekur hér á landi. Það hefir stundum verið ágreiningur um, hvar ætti að greiða vörutoll af vörum undir vissum kringumstæðum. Hafi vöru verið skipað upp annarsstaðar en á ákvörðunarstað, hefir oft verið tekinn af henni vörutollur þar, og svo e. t. v. aftur, þegar hún kom á ákvörðunarstaðinn, þannig að tollurinn hefir verið tvígreiddur. Hinsvegar hefir stundum ekki verið tekinn tollur af vörum, þar sem þær komu fyrst á land, og heldur ekki á ákvörðunarstaðnum, vegna þess að þar hefir verið álitið, að tollurinn hafi verið tekinn í hinum staðnum. Til þess að fyrirbyggja þennan rugling er ákveðið, að greiða skuli toll á ákvörðunarstað varanna, án tillits til þess þótt þeim sé skipað upp í bili annarsstaðar.

Þá er 2. brtt. A-liðurinn er um, að niður falli nokkrar línur í 2. gr. frv., sem hafa tvíprentazt, en b-liður sömu brtt. er um, að í stað orðanna „Á þeim sé greinilega tilgreint stykkjatal, merki og númer þeirra“ komi: Á þeim sé greinilega tilgreint stykkjatal, merki og númer hverrar vörusendingar. Þetta „þeirra“ á ekki við þarna, því að það virðist helzt vísa til farmsskránna í heild, en það er vitanlega númer og stykkjatal hverrar vörusendingar, sem átt er við.

Í 3. brtt. er aðeins um leiðréttingu á prentvillum að ræða.

Í 4. brtt. er tekið upp nýmæli, sem ekki var í vörutollslögunum áður, um að afgreiðslumenn skipa skuli skyldir að hafa til nægilegt húsrúm fyrir þær tollvörur, sem skipað er á land. Um þetta atriði var dálítill ágreiningur í n. Einn nm., hv. þm. G.-K., skrifaði undir nál. með fyrirvara, sem mun byggjast á þessu ákvæði. Gerir hann vafalaust sérstaklega grein fyrir sinni afstöðu.

5. brtt. er aðeins tvær smávægilegar leiðréttingar.

Sem sagt, n. hefir orðið ásátt um, að frv. væri til bóta, og mælir því með, að það verði samþ., en hinsvegar er vafi á fylgi eins nm. við eina af brtt., 4. brtt. n.