05.04.1937
Neðri deild: 31. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 210 í C-deild Alþingistíðinda. (1435)

8. mál, vörutollur

*Ólafur Thors:

Hv. frsm. gat þess réttilega, að ég hefði fyrirvara um fylgi mitt við þetta mál. Taldi hann það vera eingöngu út af 4. brtt. n. Ég gerði að vísu sérstaklega aths. við þá brtt. í n., á þá lund, að ég vildi rannsaka betur, hvernig þeir menn, sem ákvæði brtt. snertir, myndu una við það.

En fyrirvari minn er um fylgi mitt við frv. í heild, og er, að því er snertir flest nýmæli þess, af svipuðum toga spunninn. Ég efa ekki, að frv. sé rétt spegilmynd af því, hvernig tollheimtunni verður á öruggastan hátt komið fyrir. Mér skilst, að frv. sé samið og athugað af kunnugustu mönnunum á þessu sviði, og sé yfirleitt ekki ástæða til að vefengja, að með því sé bent á þá leið, sem ríkissjóðs vegna er æskilegust, ef eingöngu er miðað við það, með hvaða hætti gjöldin verða öruggast og bezt innheimt. En mér þótti hinsvegar ástæða til að bera málið undir þá menn, sem helzt eiga við fyrirmæli þessara laga að búa, til þess að fá þannig úr því skorið, hvort á meðal nýmæla frv. væri nokkuð það, sem þeir teldu vandkvæðum bundið í framkvæmdinni, og hvort með þeim eru ekki lagðar meiri kvaðir á menn heldur en nauðsynlegt er. Ég hefi sent frv. ýmsum aðiljum til umsagnar, en engin svör hafa borizt ennþá. Mun ég því ekki við þessa umr. gera ágreining um afgreiðslu málsins, en reyni að bera fram brtt. fyrir 3. umr., ef mér þykir sérstök ástæða til.