20.03.1937
Efri deild: 24. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í C-deild Alþingistíðinda. (1454)

2. mál, tekjuöflun fyrir ríkissjóð

*Magnús Jónsson:

Það er rétt, sem hv. frsm. sagði, að ég væri á móti frv. þessu. Að ég skrifaði undir nál., var aðeins til þess að spara pappír. Ég þarf ekki að vera fjölorður um afstöðu mína til þessa frv., því að ég er svo margbúinn áður að láta í ljós andstöðu mína bæði til benzínskattsins o. fl. liða í því. Það var rétt hjá hv. frsm., að það er mjög óviðkunnanlegt, hvernig benzínskattinum er skipt, eins og t. d. það, að fella tillag til Sogsvegarins alveg niður, frá því sem nú er. Annars held ég, að skipting þessa fjár hafi litla þýðingu, ef það á að líðast, að láta það í alla mögulega vegi út og austur. Það eðlilegasta væri að hafa alveg sérstaka úthlutun á þessu fé. — Um ákvæði 3. og 4. gr. skal ég ekki fjölyrða að þessu sinni, því að ég hefi svo oft talað á móti viðskiptagjaldinu a. m. k.