15.03.1937
Neðri deild: 19. fundur, 51. löggjafarþing.
Sjá dálk 53 í B-deild Alþingistíðinda. (146)

13. mál, Kreppulánasjóður

*Jónas Guðmundsson:

Eins og ég gat um við 2. umr. þessa máls. hefi ég nú flutt brtt. við frv. í þá átt, að ríkisstj. sé heimilað að verja því fé, sem eftir er í kreppulánasjóði sveitar- og bæjarfélaga og vera mun um 400 þús. kr., á þann hátt, að haldið verði áfram þeirri starfsemi, sem rekin var af þessum sjóði á síðastl. ári, sem var sú, að koma á betra grundvöll þeim skuldum, er hvíla á bæjar- og sveitarfélögum. Eins og ég gat þá um, voru mörg sveitarfélög, er ekki gátu fengið fullnægjandi afgreiðslu sinna mála meðan sjóðurinn starfaði á síðastl. ári, og fer brtt. mín í þá átt, að úr þessu sé bætt. Ég hafði upphaflega látið mér detta í hug að flytja brtt. um ákvæði til að þvinga fram uppgerð á fátækraskuldum þeirra 100 sveitarfélaga, sem ekki hafa sótt um lán, en sá eftir á, að það myndi svo erfitt, að ég hefi fallið frá því.

Ég sé, að komin er fram brtt. við brtt. mína frá hv. þm. Barð. og hv. 1. landsk., um að fella niður niðurlag 2. mgr. brtt. minnar, en það er um það, að heimila að veita lán öðrum sveitarfélögum en þeim, er sjóðsstjórninni er þegar kunnugt um, að æski láns, meðan féð hrekkur. Ég get ekki séð, að þessi brtt. sé nauðsynleg, því vitanlega nær þessi heimild ekki lengra en það, sem féð hrekkur til, og vitanlega geta verið mörg sveitarfélög, sem enn hafa ekki gefið sig fram, en ekki þyrftu nema mjög litla fjárupphæð til að koma sínum skuldamálum á góðan grundvöll. Hitt er sjálfsagt, að þau bæjar- og sveitarfélög, sem þegar hafa gefið sig fram, sitji fyrir. Ég minntist einnig á það, að til væri fjöldi súkrahúsa og sjúkraskýla, sem margir hreppar standa að og beiðnir liggja fyrir um lán vegna, og ég tel líkur fyrir, að miklu fleiri sveitarfélög en þegar hafa sótt hafi sömu aðstöðu í þessum efnum.

Verði þetta ákvæði fellt úr minni brtt., er sjóðsstjórnin hinsvegar bundin við að veita aðeins þeim hreppum lán, sem gefið hafa sig fram, þó meira fé væri til umráða. Hinsvegar fæ ég ekki séð, að greinin eins og hún er í minni brtt. á þskj. 70 geti orðið til skaða. Hitt vil ég ennfremur leggja áherzlu á og vona, að allir skilji, að nauðsynlegt er, að þau bæjar- og sveitarfélög, sem gefið hafa sig fram og ekki hafa fengið afgreiðslu, fái hana eins og brtt. mín kveður á um.